Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 18:53:28 (2988)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst vil ég árétta það, af því að hæstv. utanrrh. hafði ekki tekið eftir því, að ég leyfði mér að víkja lítillega að rammasamningnum líka. En það er hans mál hvort hann fylgdist með því eða ekki. Hitt er verra að ég hef ekki fengið enn svar við því hvers vegna misræmi er milli féttatilkynningar annars vegar og hins vegar þess texta sem við erum að fjalla um, hins formlega texta um það hvernig muni vera háttað upptöku máls ef við fáum ekki þá loðnuveiði sem gert er ráð fyrir. Ég hef ekki fengið svar við þessu. Ég fékk það ekki hjá hæstv. sjútvrh., ég fékk það ekki hjá hæstv. utanrrh. og ég hlýt að undrast þetta mjög. Þetta getur ekki verið mjög flókið mál en ég hef reyndar heyrt að þessi fréttatilkynning hafi komið víðar við en æskilegt hefði verið. Það kom fram hér í andsvari hjá hv. 1. þm. Austurl. þannig að það getur vel verið að það sé bara um að ræða að fréttatilkynningin hafi lent á einhverju flugi sem hún ekki hefði átt að gera.