Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 18:56:08 (2991)


     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég bið hæstv. utanrrh. forláts á því að ég var svo barnaleg að halda að hann hefði fylgst með ræðu minni. Hann mundi vita um hvað ég var að spyrja ef hann hefði gert það. Ég skal útskýra það. Í fréttatilkynningu og fréttum frá blöðum kemur það nákvæmlega fram að þau mörk sem 11% loðnukvóti EB má fara niður í eru nákvæmari útfærslur á því í hvaða tilvikum muni verða skertar karfaveiðiheimildir samkvæmt töluvert ítarlegri útfærslu heldur en ég fæ séð í þeim samningum sem okkur er ætlað að fjalla hér um. Og ég spurði hverju þetta sætti og ég ítreka þá spurningu. Ég bendi á að ég las mjög ítarlega öll þau ákvæði sem gætu varðað þetta mál, bæði í bréfaskiptum og samningi og svo hins vegar fréttatilkynningu og misræmið ætti að vera hverjum manni fullljóst. Þarna er um ítarlega útfærslu að ræða í fréttatilkynningu og ég spurði: Hefur fréttatilkynningin gildi sem eitthvert lögskýringargagn?