Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 22:10:31 (3006)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér erum við að ræða þann sjávarútvegssamning sem er fylgisamningur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Er búið að fara mörgum orðum um hann frá því umræðan byrjaði. Ég vil leggja áherslu á að meginatriðin í því að ganga til þess samnings sem við köllum samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði voru að fá fríverslun með fisk ef við gengjum til samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Hvarvetna sem það bar á góma að ganga til þessara samningaviðræðna var markmiðið að fá frjálsan aðgang með okkar helstu útflutnings- og iðnaðarvörur og það er engum vafa undirorpið að það eru fiskiðnaðarvörur og fiskútflutningur.
    Hvað gerðist síðan í því samningaferli sem þar fylgdi á eftir? Í stað þess að það væri meginatriðið að semja um fríverslun með fisk var gengið að því að semja um fjórfrelsið. Það var aðalmálið að semja um hið svokallaða fjórfrelsi. Þegar sá samningur var langt kominn var það auðséð að fríverslun með fisk var engan veginn lengur inni í dæminu. Í stað þess var fallist á að hleypa fiskiskipum EB inn í okkar lögsögu gegn því að við fengjum lækkun á tollum á fiski, gegn því að við fengjum lækkun á nokkrum tegundum af fiski. Þar er strax fallið frá því sem hafði verið grundvallaratriði í stefnu Íslendinga eftir útfærslu landhelginnar, þ.e að koma þeim þjóðum, sem samið var um við útfærslu landhelginnar, út með samningum. Það var samið um að nokkrar þjóðir hefðu áfram heimildir til að veiða áfram inni í okkar lögsögu til ákveðins tíma en stefnan og markmiðið var að við sætum einir að því, að við kæmum þeim þjóðum út með samningum. Í þessum samningum er verið að semja EB-þjóðirnar inn í okkar lögsögu.
    Það var strax ljóst, eins og ég sagði áðan, að EB mundi ekki samþykkja að við fengjum fríverslun með fisk og það mundi ekki samþykkja að við fengjum tollalækkanir nema gegn aðgangi að okkar fiskimiðum. Það var beinlínis haft í hótunum í september í fyrra að ekkert yrði af samningum nema Íslendingar og Norðmenn sýndu meiri sveigjanleika en áður, eins og það var orðað, og gæfu EB-ríkjum aukinn aðgang að fiskimiðum landanna gegn takmörkuðum tollalækkunum á innfluttum sjávarafurðum inn á EB-svæðið. Hver var þessi sveigjanleiki sem við áttum að sýna? Við áttum að láta af höndum þann eignarrétt sem við höfðum áunnið okkur með útfærslu fiskveiðilögsögunnar? Og hvað áttum við að fá í staðinn? Hvað skyldi Þjóðhagsstofnun hafa metið að við fengjum í staðinn? Þjóðhagsstofnun var á árinu 1991 beðin um álit á áhrifum Evrópska efnahagssvæðisins á íslenskan sjávarútveg. Í þeim niðurstöðum sem Þjóðhagsstofnun skilaði af sér segir, með leyfi forseta:
    ,,Sjávarútvegur er að mestu leyti undanþeginn því frelsi í viðskiptum sem verið er að innleiða í EB á sviði iðnaðar og þjónustu. Þær takmarkanir á viðskiptum með sjávarafurðir og aðföng veiða og vinnslu, tollar og styrkir til sjávarútvegs í EB, fela í sér kostnað fyrir Íslendinga. Líkur eru á að Íslendingar mundu þurfa að bera stóran hluta af þessum kostnaði áfram jafnvel þótt þeir gerðust aðilar að EES. Af þessum ástæðum má ætla að ábati íslensks sjávarútvegs af því að tengjast EB/EES verði minni en sá ábati sem aðrar þjóðir gera ráð fyrir í þeim greinum iðnaðar og þjónustu sem eru öflugastar í þeirra löndum. Vegna mikilvægis sjávarútvegs hér á landi má ætla að beinn þjóðhagslegur ávinningur Íslendinga af því að tengjast EB/EES verði minni heldur en aðrar þjóðir gera sér vonir um.``
    Þetta var niðurstaða Þjóðhagsstofnunar fyrir rúmu ári síðan þegar verið var að semja um Evrópska efnahagssvæðið.
    Ræðumenn sem hafa talað á undan mér hafa rakið allvel sögu þessa samnings, bréfaskipti sem farið hafa á milli og sem eru undanfari að þeim fiskveiðisamningi sem við erum hér að ræða um. Ég ætla ekki að fara frekar yfir þau bréfaskipti. Ég bendi á að við þær greinar sem eru innan þessa samnings, það eru þó ekki margar, er ýmislegt að athuga. Það er þá fyrst í 4. gr. að aðilar skuli árlega hafa samráð um úthlutanir á veiðiheimildum til hvors aðila með það í huga að ná ásættanlegu jafnvægi í samskiptum sínum á sviði fiskveiða. Árlega á að taka upp samningaviðræður við Evrópubandalagið. Ég verð að taka undir orð þeirra sem hafa talað á undan mér og hafa miklar efasemdir og áhyggjur af því að þetta muni ganga vel og yfirleitt af því að þetta skuli vera inni í samningnum.
    Í 3. mgr. 5. gr. segir, með leyfi forseta: ,,Þar til bært stjórnvald hvors aðila skal, eftir því sem við á, tilkynna hinum aðilanum nafn, skráningarnúmer og önnur einkenni fiskiskips sem fær heimild til veiða innan fiskveiðilögsögu hins aðilans.``
    Ég veit ekki til þess að Evrópubandalagið sé að hleypa íslenskum fiskiskipum inn í sína lögsögu. Við erum að hleypa þeim með þessum samningi, ef af verður, inn í okkar lögsögu en þeir ætla að leyfa okkur, eins og það heitir, að veiða 30 þús. tonn af loðnu, ,,pappírsloðnu``, á Grænlandsmiðum eða jafnvel bara á okkar eigin miðum. Ég vil vekja athygli á þessu. Þetta kemur einnig fram í 2. tölulið 6. gr., í síðustu málsgrein. Þar er einnig talað um ,,innan fiskveiðilögsögu`` hvors aðila sem alls ekki getur verið rétt. Við erum að hleypa öllum Evrópubandalagsþjóðunum inn og gefa þeim eftir aðgang að okkar fiskimiðum. Margir hafa ýmislegt um það að segja. M.a. segir Jakob Jakobsson fiskifræðingur, með leyfi forseta:
    ,,Ef Íslendingar ætla í raun og veru að semja um gagnkvæm veiðiréttindi og afsala sér 3 þús. tonnum af karfa nær auðvitað engri átt að þiggja í staðinn loðnu sem við fengjum hvort sem væri. Til að kóróna alla vitleysuna stendur í ágripi samningsdraganna frá 22. okt. [1991] að í stað 3 þús. karfaígilda fái Íslendingar 30 þús. tonn af loðnu í grænlenskri lögsögu, eins og alþjóð veit hefur ekki veiðst loðnubranda við Grænland í nokkur ár þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Löngu er vitað að uppeldisstöðvar loðnunnar eru að hluta til við Austur-Grænland. Það hefur því verið kappsmál Íslendinga að hindra loðnuveiðar þar. Þetta hefur í raun tekist að undanförnu. Samningsdrögin gera hins vegar beinlínis ráð fyrir að slíkar veiðar verði stundaðar og það af hálfu Íslendinga þótt skaðlegar séu. Hvers konar hringavitleysa er þetta?`` spyr Jakob Jakobsson fiskifræðingur og forstjóri Hafrannsóknastofnunar.
    Það væri sjálfsagt hægt að hafa mörg orð um þennan samning. Ég ætla þó ekki að eyða miklum tíma í hann í kvöld. Mjög margir hafa rætt þessi mál á undan mér og margir eru enn á mælendaskrá. Ég ætla að lokum að vekja athygli á 12. gr. þessa samnings.
    Þegar verið er að ræða um samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði er því oft fleygt í umræðunni, sérstaklega af hálfu stuðningsmanna samningsins, að engin hætta sé því samfara að samþykkja samninginn. Við sitjum ekkert uppi með hann til eilífðar þó svo að við gerðum nú þessa tilraun með Evrópskt efnahagssvæði. Við getum sagt samningnum upp með 12 mánaða fyrirvara.
    Í 12. gr. þessa fiskveiðasamnings segir í 1. lið:     ,,Þessi samningur skal í fyrstu gilda í tíu ár frá gildistökudegi hans.``
    Í 11. gr. segir um gildistökuna, með leyfi forseta:     ,,Þessi samningur öðlast gildi þann dag sem aðilar tilkynna hvor öðrum um að nauðsynlegri málsmeðferð sé lokið.`` Það þýðir að um leið og samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði yrði hugsanlega samþykktur af Alþingi mundi ríkisstjórn Íslands að sjálfsögðu hafa hraðan á við að tilkynna að nauðsynlegri málsmeðferð sé lokið og að þessi samningur um fiskveiðimálin taki gildi. Samkvæmt 12. gr. á hann að gilda í tíu ár frá gildistöku. Það er ekki hægt að segja honum upp á þessum tíu árum. Það er hægt að segja honum upp með níu mánaða fyrirvara en ekki fyrr en eftir tíu ár.
    Við skulum segja að það yrðu stjórnarskipti. Við skulum segja að næsta ríkisstjórn mundi vilja segja samningnum um Evrópskt efnahagssvæði upp. Hún getur samt ekki sagt samningnum um fiskveiðimálin upp fyrr en tíu árum eftir að hann tekur gildi. Ég held að það sé alveg tímabært að þetta komi líka inn í umræðuna. Það er með þetta eins og fleira í sambandi við þennan samning og samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði að það fylgja þessu margir gallar og sífellt er verið að reyna að fela þá galla sem á þessu eru.