Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 23:40:29 (3010)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Þessar umræður hafa mestmegnis verið mjög ánægjulegar og ég trúi varla öðru en þeir sem hafa nennt að hlýða á ræðumenn, hvort sem þeir eru staddir hér eða hlýða á í sjónvarpi eða útvarpi, hafi haft nokkurt gagn að. En auðvitað er það til vansa að hv. þm. skuli ekki mæta til fundar þegar mál sem þetta er til umræðu.
    Hvað sem segja má um þá sem hér voru fyrr á árum og áratugum er eitt alveg áreiðanlegt, þeir hefðu hlustað á umræður sem fjölluðu um landhelgismálið og lífshagsmuni þjóðarinnar eins og nokkrir þingmenn hér. Margir eru þeir nú ekki, það eru ekki margir í salnum, en þeir sem hafa talað hafa yfirleitt vakið athygli á þessu. Við höfum byggt allt okkar á þessum auðæfum hafsins og kunnáttu á því sviði og munum verða að gera það áfram. Þar höfum við yfirleitt verið nokkuð samstiga. Við höfum lært að vera samtaka í því að vinna okkar sigra en ég vona að guð gefi að við verðum ekki sammála um það að fórna öllu því sem við höfum áunnið eða miklu af því með því að stökkva í allar áttir í staðinn fyrir að standa vörð um það sem við höfum fengið og forðast að fórna nokkru af því og reyna að sannfæra þá sem enn þá geta ekki skilið jafneinfaldan hlut og þann að við Íslendingar eigum stærri hluta af yfirborði jarðarinnar einir en allir Vestur-Evrópumenn, Norður-Evrópumenn aðrir en við og Suður-Evrópumenn raunar líka. Við eigum allt hafsvæðið, 350 mílur á Reykjaneshrygg. Það getur enginn vefengt það. Við eigum 600 mílur á Hatton-banka. Við eigum hann allan ef miðlínan væri látin ráða. En ef við hann ættum hann í sameiningu við Breta með Rockall-svæðinu hefðum við líka helminginn af því svæði. Þar er ekki bara fiskur, þar er olía. Við þurfum að passa upp á að ekki verði farið að raska svo jarðvegi og sjávarbotni að þau auðæfi gætu glatast. Síðan eigum við með Noregi allt hafsvæðið, allan hafsbotninn, á milli okkar 200 mílna og Noregs að undanskilinni mjög lítilli ræmu, smábletti nánast, þar sem dýptarlínur eru kannski ekki með þeim hætti að það sé algerlega hægt að loka því svæði öllu og síðan alveg norður í pól. Þetta er bara svona. En það er eins og menn vilji ekki lemja það inn í kollinn á sjálfum sér. Það eru til kort. Þau hafa verið hér. Þingmenn hafa fengið þau. Það getur hvert mannsbarn lesið og séð hvað það er sem við erum að berjast fyrir.
    Við værum svikarar ef við ætluðum að taka þessa eign barnanna okkar og komandi kynslóða og fórna henni. Þá værum við landráðamenn og ekkert annað. Nú ætla ég ekki að nota það um nokkurn mann að hann sé landráðamaður, vilji eyðileggja fyrir okkar landi og þjóð og komandi kynslóðum. Það gerum við auðvitað ekki.
    Málin eru komin í það gott horf með margháttuðum þingsályktunum, tilkynningum til þeirra stofnana Sameinuðu þjóðanna sem taka við tilkynningum um kröfur um hafsbotnsréttindi o.s.frv. Þetta hefur allt verið undirbúið og komið til réttra aðila. Við erum búnir að vinna okkur þessi réttindi þó hér séu enn þá því miður einstaklingar sem þvælast fyrir því að við framkvæmum þetta verk og klárum það. Við getum beðið í hálft ár eða eitt ár enn þá ef menn vilja en aldrei að eilífu samþykkt að við fórnum því sem við erum þegar búnir að ávinna okkur með bókunum í hafréttarstofnunum, Hafsbotnsstofnun Sameinuðu þjóðanna og gert kröfur til Breta, Norðmanna og annarra. Þetta er allt saman bókfest og verður ekkert aftur tekið. Þess vegna þarf enginn að óttast það að hann verði sá ógæfumaður að firra komandi kynslóðir þessari eign hennar og þeirra.
    Ég þarf í sjálfu sér ekki að segja mikið meira. Mér hitnar kannski mikið í hamsi af því að þetta er sjálfsagt í þúsundasta skiptið sem ég segi sömu orðin úr þessum stól á síðustu 20 árunum. Ég veit ekki til þess að annað hafi gerst ánægjulegra í okkar málum, allt hefur gerst miklu fyrr og betur en nokkur gat vonast til. Við erum langsamlega ríkasta þjóð heimsins. Það er hvorki meira né minna og það er ekki hægt að eyðileggja þau auðæfi. Það mikil er þekkingin og það mikill er skilningur fólksins í landinu á því, það verður að einangra þá menn sem reyna að segja okkur eitthvað allt annað, t.d. að við eigum að vera aðilar að Evrópsku efnahagssvæði sem guð má vita hvernig kann að líta út þegar öll sú skelfing er lögð saman, þegar menn byrja að sjá hvernig þessar þjóðir deila, og eru nú með mesta atvinnuleysi sem hugsast getur. Þó eru það menntaðar þjóðir og þróaðar þar sem hver höndin er upp á móti annarri og þeir eru helst með fingur á gikknum, og rífast og berjast. Við höfum ekkert í það samfélag að gera, ekki sem einhverjir fastalimir þar. Við viljum auðvitað eiga góð samskipti við þessar nágrannaþjóðir okkar og það verða alltaf góð samskipti við þær. Auðvitað er þarna fólk nákvæmlega eins og við. Það er bara ekki eins gæfuríkt og við að eiga þá auðlegð sem við eigum.
    Svo margar ferðir hef ég farið á vegum Evrópustefnunefndar og utanrmn. til þessara þjóða til að ræða um þessi mál að ég veit að þarna er úrvalsfólk auðvitað og það er vinsamlegt okkur. Af einhverri ástæðu er það það. Það vill ekki að við séum að þvælast til að gera neitt það sem við erum ekki ánægðir með sjálfir. Það ætlar sér ekki að hafa eitthvert ógnaryfirvald, eins og þeir sjálfir búa við, og þrýsta því upp á okkur. Óttinn er ekki frá þessu fólki. Hann er miklu frekar frá einhverjum einstaklingum hér innan lands. Það þarf auðvitað að gjalda við því varhug ekki síður en þeim hættum sem koma að utan.
    Það líður nú að miðnætti og ég ætla ekki að tala öllu lengur um þetta mál. Það sem er náttúrlega alger nauðsyn og hlýtur að vera hægt að ná samstöðu um er að enginn samningur verði gerður til tíu ára. Það er þannig að ef lemja á þennan samning í gegn með slíku ákvæði vakir eitthvað annað fyrir mönnum en að gæta hagsmuna þessarar þjóðar. Þá vill það fólk bara vera einhvers konar stórveldadraumóramenn og fórna íslenskum hagsmunum. Það getur ekki verið að ekki sé hægt að ná samningi öðruvísi en að semja til tíu ára og vera í eilífu þvargi. Ég trúi því ekki að einn einasti maður vilji gera það þegar hann hugsar málið. Ég skal játa það að ég var ekki búinn að taka eftir því að þetta átti að vera tíu ára samningur. Mér datt það aldrei í hug. Ég hélt að það væri bara þetta eina ár sem er verið að telja okkur trú um að EES mundi verða. Ef við sjálfir förum ofan í þessa gryfju verður auðvitað þrengt að okkur þar. Ef við sækjumst eftir því, þá verður það. En meðan við í þessu húsi segjum: Við ætlum ekkert að fara þangað, þá förum við ekki.