Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 23:56:03 (3013)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég hafði vænst þess að þegar mælendaskrá var tæmd mundi hæstv. utanrrh. a.m.k., ef ekki bæði hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh., láta svo lítið að svara hér ýmsu því sem fram hefur komið eða spurt hefur verið um í umræðunni. Það virðist ekki vera ætlun þeirra hæstv. ráðherra og veldur mér nokkrum vonbrigðum. A.m.k. er það alveg skýrt að ég lagði fyrir hæstv. utanrrh. eina algerlega gagnsæja, skýra spurningu sem ég hef ekki heyrt að svör hafi komið fram við í umræðunni. Spurningin var þessi: Hvað hyggst hæstv. utanrrh. fyrir með þennan samning um samskipti á sviði sjávarútvegsmála milli Íslands og Evrópubandalagsins ef enginn verður EES-samningurinn?
    Ég setti það upp þannig að svo gæti farið að Svisslendingar felldu þennan samning í þjóðaratkvæðagreiðslu nk. sunnudag. Það setti málið í uppnám og mundi valda um hálfs árs töf a.m.k. á gildistöku samningsins. Það gæti síðan leitt til þess að ákveðin EFTA-ríki misstu þolinmæðina, gæfu þetta EES-samstarf upp á bátinn og styngju sér beint í aðildarviðræður um inngöngu í Evrópubandalagið og eftir sætu menn nokkuð vandræðalegir eins og kobbar á skeri, þar á meðal Íslendingar, og hver yrðu þá örlög þessa sjávarútvegssamnings?
    Hæstv. utanrrh. hefur gert nokkuð af því að reyna að sanna að hann sé ekki á nokkurn hátt efnislega bundinn samningi um Evrópskt efnahagssvæði, sem auðvitað stenst ekki þegar betur er skoðað vegna þess að hann er skilyrði af hálfu Evrópubandalagsins fyrir gildistöku samningsins. Engu að síður réttlætir þetta þá spurningu til hæstv. utanrrh.: Hver verður framtíð þessa samnings um sjávarútvegsmál? Hvað hyggst hæstv. ríkisstjórn fyrir með hann ef ekki verður af gildistöku og jafnvel alls ekki af samningum um Evrópskt efnahagssvæði? Telur hæstv. utanrrh. þá samninginn sem slíkan okkur það hagstæðan að eftir sem

áður sé æskilegt að fullgilda hann og láta hann standa þó svo að fyrirvari Evrópubandalagsins varðandi gildistöku EES hafi þar með ekki neitt gildi gagnvart okkur og okkur sé ekki á nokkurn hátt í sjálfu sér skylt að verða við því að gera þennan samning við Evrópubandalagið?
    Ég hafði vænst þess sömuleiðis að þeir hæstv. sjútvrh. og/eða hæstv. utanrrh. virtu þessa umræðu, sem hefur staðið í dag, a.m.k. þess að þeir gerðu nánari grein fyrir samningaferlinu eins og það hefur gengið fyrir sig frá og með miðjum marsmánuði sl. eða frá og með maíbyrjun þegar skrifað var undir samninga í Portúgal, m.a. vegna þeirra misvísandi upplýsinga og fullyrðinga sem komu fram í umræðunni um kröfugerð Íslands og hvað þar hefði staðið til. Ég þóttist sýna fram á það með skjölum frá utanrrn. sjálfu að hæstv. utanrrh. væri, svo ekki sé fastar að orði kveðið, í verulegri mótsagnahættu með sinn málflutning þegar hann nú að gerðum samningnum fullyrðir að aldrei hafi verið inni í myndinni að um raunverulega gagnkvæmni í formi eiginlegrar veiði yrði að ræða. Samt stendur í minnisblaði frá utanrrn. til utanrmn. að þetta hafi verið krafa Íslands frá upphafi og á miðju sumri hafi verið þreifað á því að fá hana fram að hálfu gagnvart Evrópubandalaginu.
    Mér finnst það satt best að segja lýsandi fyrir málefnastöðu hæstv. ríkisstjórnar í þessu ef það á að verða niðurstaða umræðunnar að hæstv. ráðherrar þegi fram af sér þessar spurningar og treysti sér ekki upp til þess að svara þeim. Ég ítreka þær þess vegna að lokum, herra forseti, og læt það svo í vald hæstv. ráðherra að sjálfsögðu hvort þeir verða við því að svara þessum spurningum.