Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 00:17:53 (3022)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Herra forseti. Við þingmenn erum hér að tala við ríkisstjórn Íslands og mér finnst satt best að segja nokkuð undarlegt þegar hæstv. utanrrh. segir að mér hefði borið að beina þessu máli til hæstv. sjútvrh. Það vildi svo til að hann svaraði mér þessu og ég var að gera athugasemd við svar hans. Það mætti halda af svörum hæstv. ráðherra að það skipti miklu máli til hvors ráðherrans þessu er beint. Það vill svo til að þessi mál heyra formlega undir hæstv. utanrrh. þótt eðli máls samkvæmt heyri þau jafnframt undir hæstv. sjútvrh. Hæstv. utanrrh. fer formlega með samninga um skipti í utanríkismálum, þar með talin þessi mál.
    Ég skildi hæstv. utanrrh. þannig að þessar viðræður sem hann vitnaði til hefðu átt sér stað við Rússa. Það er ágætt að talað sé við það fólk og leitað eftir samstarfi við þá, en ég átti ekki við þá heldur við Norðmenn og Færeyinga. Ég veit að hæstv. utanrrh. man að ég hef minnst á þessi mál. Það gerði ég fyrst við hann vorið 1991 og ég endurtek að ég tel það vera nokkurt áhugaleysi, svo ekki sé meira sagt, að hafa ekki reynt að finna einhvern flöt á þessu máli, jafnmikilvægt og það hefði getað verið.