Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 10:00:36 (3026)

     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Samgn. hefur athugað þá till. til þál. um breytingu á vegáætlun fyrir árið 1992 sem hér er á dagskrá og birtist álit nefndarinnar á þskj. 367.
    Nefndin kvaddi á sinn fund Helga Hallgrímsson vegamálastjóra, Jón Birgi Jónsson aðstoðarvegamálastjóra og Jón Rögnvaldsson, forstöðumann tæknisviðs Vegagerðarinnar, og gáfu þeir nefndinni þær upplýsingar sem um var beðið. Það var samstaða í nefndinni um að greiða fyrir þessu máli og nefndin er sammála um að leggja til að tillagan verði samþykkt eins og hún liggur fyrir. Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna undirrita þó nál. með fyrirvara og birta sérstaka bókun sem fylgir sem fskj. með nál. þar sem fundið er að vinnubrögðum við undirbúning málsins, þess átaks í vegamálum sem hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að beita sér fyrir nú í árslok með útboðum og síðan með framkvæmdum á næsta ári. Ég tel ekki ástæðu til þess að fjalla um þessa bókun sérstaklega að öðru leyti en því að í sjálfu sér er ekki brot á neinum vinnureglum, eins og hér er haldið fram í bókun, að við undirbúning slíkra mála hafi eigi verið haft samráð við samgn. Slíkt hefur eftir því sem ég man til ekki tíðkast, og er þá sama hvaða ríkisstjórn á í hlut, að um mál sé haft sérstakt samráð við þingnefnd áður en mál er flutt. Á hinn bóginn er það rétt að venjuleg vinnuregla er um allar breytingar er varða vegamál og skiptingu á fé að haft er samráð við þingmenn kjördæma. Þó hefur sú vinnuregla áður verið brotin og þá meira að segja með þeim hætti að stjórnvöld á þeim tíma lögðu fram tillögur um að skerða þau framlög sem Alþingi hafði ákveðið í vegáætlun og það án þess að hafa um það samráð við þingmenn einstakra kjördæma.
    Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að gera bókun hv. fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna að umtalsefni en ítreka það að innan nefndarinnar var ágætt samstarf og samhugur um það að koma þessu máli áfram og leggja til að tillagan eins og hún liggur fyrir verði samþykkt. Það er niðurstaða nefndarinnar.