Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 10:27:56 (3032)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir að koma hér inn í umræðuna. Það var einmitt ósk mín að það færi fram róleg og yfirveguð umræða um þessi mál. Því miður er það hins vegar þannig, hæstv. samgrh., að það ríkir alger óvissa um þetta sérstaka átak ríkisstjórnarinnar gagnvart Suðurnesjum. Það er að vísu rétt að hæstv. forsrh. taldi upp hér í tilkynningu sinni um efnahagsaðgerðir 500 millj. til atvinnumála á Suðurnesjum en þegar spurt var að því á fundi þingmanna Suðurnesja og sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum fyrir nokkrum dögum síðan hvort þetta fjármagn kæmi frá ríkinu eða eftir öðrum leiðum, þá fengust engin skýr svör við því. Og hæstv. menntmrh. gat ekki svarað því skýrt hvort þar væri um að ræða fjármagn sem ætti að koma frá Íslenskum aðalverktökum og sveitarfélögum á svæðinu og fyrirtækjum á svæðinu eða hvort um væri að ræða að einhverju leyti fjármagn úr ríkissjóði. Suðurnesjamenn eru þess vegna í jafnmikilli óvissu í dag og þeir voru eftir að forsrh. flutti ræðu sína, hvað er verið að tala um. Margir skildu þetta þannig að þetta ættu að vera 500 millj. úr ríkissjóði. Nú hefur komið í ljós að svo er ekki. Inni í þessari upphæð á að vera skilyrði fyrir því að fyrirtæki og sveitarfélög á svæðinu leggi fram fjármagn. Ég veit ekki til þess að slík skilyrði séu sett gagnvart öðrum landshlutum. Það er a.m.k. ekki gert varðandi þessar 1.800 millj. til vegamála, að það sé skilyrt með framlögum frá fyrirtækjum í Norðurl. e. eða sveitarfélögum í Norðurl. e. En það á að skilyrða fjármagnið til Suðurnesja með því að það komi nokkur hundruð milljónir frá sveitarfélögunum og fyrirtækjunum. Þar að auki getur alveg eins verið, og verður mjög fróðlegt að sjá hvernig fjárlagafrv. verður í endanlegri mynd sinni, að það verði ekki króna úr ríkissjóði til Suðurnesja, heldur ætli ríkið að nota Íslenska aðalverktaka eingöngu til þess að setja sitt fjármagn fram. En ef samgrh. upplýsir hér að það verði á fjárlögum framlag úr ríkissjóði til Suðurnesja, þá fagna ég því.