Afgreiðsla mála fyrir jólahlé

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 10:46:31 (3040)

     Karl Steinar Guðnason :
    Frú forseti. Í tilefni af orðum hv. 1. þm. Norðurl. e. vil ég segja það að vinna í fjárln. gengur mjög vel. Hún gengur betur en oft áður, að mér er tjáð af þeim sem hafa lengsta yfirsýn yfir þetta starf. Það er verið að vinna að ýmsum þörfum málum, einangra hin ýmsu viðfangsefni. Við erum í fullu starfi og því verður haldið áfram. Ég þakka einmitt síðasta hv. ræðumanni fyrir góð störf í nefndinni. Þar hefur allt verið með eðlilegum hætti.
    Það hefur verið tilkynnt að þær tillögur sem hann vísaði í varðandi niðurskurð er næmi 1.240 millj. verða birtar nefndinni á morgun og þá munum við vissulega yfirfara það og skoða á allan þann hátt sem við best getum. En það er líka rétt hjá honum að okkur birtast kröfur víðs vegar að og það er ekkert nýtt. Það eru kröfur út og suður um alla mögulega og ómögulega hluti. Það er heldur ekkert nýtt. Við munum taka afstöðu til þeirra á fundum okkar á næstunni.
    Það eru allar líkur á því að þingmannahópar geti, ef starfið gengur eftir eins og verið hefur, fengið það sem þeim ber á sunnudag og er það fyrr en oft áður eftir því sem ég best veit og hef reynslu af.
    Fleira hef ég ekki um þetta að segja en akkúrat þetta: Starfið gengur vel, upplýsingar eru væntanlegar um það sem á vantar og minni ég á að það ástand að upplýsingar eða tillögur til fjárlaganefndar hafa því miður frá hinum ýmsu ríkisstjórnum sem setið hafa borist afar seint. Og oft hefur það komið fyrir að fresta hefur þurft fjárlagavinnu vegna þess að tillögurnar hafa komið löngu eftir að tímabært var.