Afgreiðsla mála fyrir jólahlé

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 10:53:46 (3043)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Vegna fyrirspurna hv. 2. þm. Austurl. og þeirra umræðna sem hér hafa orðið um þingsköp þá skal ég mjög gjarnan taka undir það að það er að sjálfsögðu réttmæt gagnrýni nú eins og endranær að tillögur frá ríkisstjórnum koma oft seint. Nú stendur þannig á að þær aðgerðir sem gripið var til seint í síðasta mánuði eru víðtækar og kosta nokkrar breytingar bæði á tekju- og gjaldahlið fjárlaga. Að þessum málum er unnið. Og vænti þess satt að segja að þessar tillögur geti komist til fjárln. á allra næstu dögum. Það er stefnt að því að á morgun verði hægt að leggja fram hér á þingi skattafrumvörpin og á allra næstu dögum ættu að liggja fyrir frekari upplýsingar um gjaldaniðurfærsluna.
    Ég held hins vegar, og tala þar af nokkurri reynslu sjálfur sem fjárlaganefndarmaður, eða fjárveitinganefndarmaður á sínum tíma, að það hafi oftsinnis gerst að 2. umr. hafi verið tekin fyrir án þess að fyrir lægju endanlegar upplýsingar frá ríkisstjórn og ég held að sú töf sem hefur orðið á upplýsingunum eigi ekki að þurfa að tefja störf nefndarinnar sem neinu nemur.
    Ég vænti þess að á milli mín og hv. nefndar, bæði meiri hlutans og minni hlutans, geti verið gott samstarf hér eftir sem hingað til og mun að sjálfsögðu koma tillögum til nefndarinnar svo fljótt sem auðið verður.