Afgreiðsla mála fyrir jólahlé

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 11:01:50 (3047)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þær upplýsingar út af fyrir sig sem hér hafa komið fram en þær hafa ekki verið efnismiklar.
    Hv. formaður fjárln. sagði að vinnan hefði gengið vel og væri á undan áætlun. Ég get út af fyrir sig eins og fleiri tekið undir það að við höfum setið þarna og farið yfir ýmsar beiðnir. Við höfum farið yfir erindi sem hafa borist. Við höfum rætt um það hvort hægt væri að bregðast við og af þeim ástæðum sem öllum eru kunnar að eru í þjóðfélaginu verður sjálfsagt ekki mikið gert í því, enda eru uppi hugmyndir um verulegan niðurskurð til viðbótar. Og það er það sem við höfum fyrst og fremst verið að leggja áherslu á að fá upplýsingar um frá hæstv. ríkisstjórn.
    Það er nú svo að þrátt fyrir að hv. formaður fjárln. lýsi því yfir að á morgun fái nefndin upplýsingar um þetta þá segir hæstv. fjmrh. að tekjufrv. komi fram á morgun eða um helgina en gjaldahliðin skýrist á allra næstu dögum. Hvernig túlkar hv. formaður fjárln. það? Hvað þýðir það í hans huga? Vanalega er morgundagurinn einn af allra næstu dögum. Ég álít samt að í þessu svari hæstv. fjmrh. hafi falist það að hann er ekki alveg viss um að fyrir liggi samkomulag í hæstv. ríkisstjórn um tillögur sem þó voru kynntar hér fyrir hálfum mánuði. Það er ekki eins og þessar upplýsingar séu að koma á síðustu stundu frá ríkisstjórninni að hún ætli að gera eitthvað. Það er hálfur mánuður síðan hún boðaði það hér í hv. þingi. En okkur vantar upplýsingar um framkvæmdina til að geta haldið þessari vinnu áfram af nokkurri alvöru, til þess að fá endanlegar niðurstöður í það hvernig þetta dæmi á að líta út.
    Það er rétt hjá hæstv. fjmrh. að oft hefur verið fjallað um ýmis mál milli umræðna, stundum stór, einkum hvað varðar tekjuhlið. En ef það er svo að við eigum núna að velta því fyrir okkur hvort hægt er að laga einhverjar stofnanir um einhverjar 5, 10 eða 20 millj. vitandi það að á milli 2. og 3. umr. á að skera þær niður um ekki einhverja tugi millj. heldur hundruð millj., jafnvel á annan milljarð eins og boðað hefur verið, þá er það nokkuð annað en það sem við höfum búið við að undanförnu. Það finnst mér vera óviðunandi staða.
    Og svo ítreka ég það aftur að skipting á 500 millj. kr. til viðhaldsverkefna, til atvinnuskapandi aðgerða og byggingarframkvæmda hljóta að hafa áhrif á það hvernig gengið verður frá tillögum um skiptingu á fjárfestingarliðum. Og ef hv. formaður fjárln. telur að hægt sé að leggja það fyrir þingmannahópa á sunnudag þá spyr ég hann aftur hvort hann meini það í alvöru, hvort hann haldi að þær verði til þannig að þingmannahóparnir, Alþingi allt verði hér til staðar á sunnudag til að fjalla um þær tillögur. Það bregður þá nýrra við ef hægt er að fá alla hv. þm. til að vera hér í startholunum til þeirrar ákvarðanatöku.
    Aðeins að lokum, hæstv. forseti. Það er kannski þess að vænta að við fáum upplýsingar um þetta í gegnum fjölmiðlana áfram, e.t.v. á Þjóðarsálinni því það mun hafa komið fram hér í umræðum í gær að hæstv. sjútvrh. fékk upplýsingar um skoðanir utanrrh. á sjávarútvegssamningnum í gegnum Þjóðarsálina. Það verður kannski áfram þannig með þetta að við bíðum eftir féttunum úr fjölmiðlum og Þjóðarsál.