Afgreiðsla mála fyrir jólahlé

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 11:05:36 (3048)

     Jón Kristjánsson :
    Frú forseti. Það er alveg rétt sem fram hefur komið við þessa umræðu að samstarfsandinn í fjárln. er í sjálfu sér ekkert slæmur. (Gripið fram í.) Hann er góður. Samskiptin við fjmrn., við höfum út af fyrir sig ekkert undan þeim að kvarta. Þar eru ágætir embættismenn sem vinna með okkur og við höfum ekkert undan þeim að kvarta. Hins vegar hafa þessar umræður leitt í ljós það sem okkur grunaði reyndar að það er náttúrlega ekkert samkomulag í höfn um skiptingu á þessum 1.240 millj. Hv. formaður fjárln. hefur vonað að það samkomulag yrði frágengið á morgun. En það er að heyra á ræðu hæstv. fjmrh. að það samkomulag er ekkert í höfn. Þess vegna verður þessi umræða ekkert á þriðjudaginn og getur ekki orðið, það er alveg dagljóst og er auðvitað best að viðurkenna það strax, og forsætisnefndin komi saman og endurskoði áætlunina í samræmi við þær upplýsingar sem hér hafa komið fram. Það er hver höndin upp

á móti annarri í ríkisstjórninni um skiptingu á þessu fé eins og við vissum. Þessi umræða hefur leitt það skýrt í ljós og hún er gagnleg út af fyrir sig þess vegna. En við eigum þá bara að endurskoða starfsáætlun þingsins og haga okkur eftir því og vera ekki með neinar óraunhæfar áætlanir um vinnubrögð hér næstu viku.