Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 11:29:44 (3062)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætlaði að ræða þetta mál við hæstv. samgrh. sem ég sé að hefur farið úr salnum. --- Nú, hann er þarna, ég biðst afsökunar.
    Hér er verið að ræða tillögu um breytingu á vegáætlun. Það hefur verið svo um langa tíð og svo lengi sem ég hef setið á Alþingi að þingmenn kjördæmanna hafa fjallað um skiptingu vegafjár. Í þessum efnum hafa verið ákveðnir samskiptahættir. Það hefur verið ákveðið að skipta vegafé með tilliti til ástands, arðsemi og kostnaðar. Þessar reglur ber að hafa í heiðri og ég vænti þess að svo verði og þar fari ekki að koma inn einhver önnur sjónarmið eins og tímabundið atvinnuástand í einstökum byggðarlögum í landinu. Þannig er ekki hægt að reka vegagerð og þannig er ekki hægt að halda utan um málið hér á Alþingi.
    Nú er það svo að það er ekki vandalaust verk fyrir þingmenn kjördæmanna að skipta þessu fé og það hefur oft þurft að halda marga fundi um það, en ég leyfi mér að fullyrða að almennt hefur þetta tekist vel og um það hefur verið góð samstaða í þingmannahópunum. Nú bregður svo við að hæstv. ríkisstjórn tekur upp alveg nýja hætti og ákveður það á einni nóttu að nú skuli breytt til. Hæstv. samgrh., sem hefur langa þingreynslu, leyfir sér að breyta hér út af án þess að tala um það, a.m.k. ekki við stjórnarandstöðuna, og eyðileggja, leyfi ég mér að segja, samskiptahætti sem hafa þróast hér í um langa tíð. Hæstv. ríkisstjórn virðist ekki hafa nægileg verkefni á næturfundum sínum. Einn fundurinn virðist hafa verið tekinn í það að skipta 1.800 millj. niður á einstaka vegi í landinu. Það er út af fyrir sig vel að hæstv. ríkisstjórn sé umhugað um vegakerfið en ég veit ekki hvað hæstv. ríkisstjórn gengur til að líta algjörlega fram hjá þeim háttum sem þarna hafa verið hafðir og þeirri reynslu sem er í sambandi við þessi mál í kjördæmunum sjálfum. Ég tel að hæstv. samgrh. verði að útskýra það fyrir Alþingi hvers vegna hann gerir þetta. Það má vel vera að hæstv. umhvrh. hafi verið með honum í þessu, ég sé að hann vill gefa honum góð ráð. En þótt hæstv. umhvrh. sé fróður um þessi mál í sínu eigin kjördæmi þá hef ég efasemdir um það að hann sé það í öðrum kjördæmum, enda ætlast enginn til þess.
    Nú er það svo að hér er um 1.800 millj. að ræða en það er jafnframt ljóst að það er um niðurskurð að ræða frá því sem var ætlað í vegáætlun vegna minna fjármagns, sem er ekki í fyrsta skipti. Þar að auki á að endurgreiða þetta lán síðar, þannig að þessi fyrirætlun raskar algjörlega vegáætlun nokkuð langt fram í tímann. En ríkisstjórnin hefur sem sagt núna ákveðið að skipta þessu nákvæmlega upp, þannig er það gert í því kjördæmi sem ég er kosinn í, en síðan eiga þingmenn kjördæmanna að koma sér saman um niðurskurðinn á næstu árum til þess að greiða lánið.
    Það er í reynd búið að koma málum þannig fyrir að það er gjörsamlega útilokað fyrir okkur að koma frekar að þessu máli. Við þingmenn Austurlandskjördæmis höfum haldið um það einn fund og þá var búið að njörva þetta allt saman niður og gefa það út í blaðaviðtölum og fréttatilkynningum hvernig ætti að fara með þetta fé. Ég er ekki að halda því fram að fénu sé illa varið, en það þarf að líta til margra átta í þessu sambandi og það er mikilvægt að um það sé fullur trúnaður áður en það er gefið út.
    Ég vil lýsa ábyrgð á hendur núv. samgrh. út af þessu máli og ég harma það að miðað við þá þingreynslu sem hann hefur skuli hann kjósa að taka þarna upp nýja samskiptahætti.
    Hæstv. ríkisstjórn hefur talað um það að undanförnu að hún vilji hafa betri samráð við aðila í þeim erfiðleikum sem nú steðja að þjóðfélaginu. Ég er sammála ríkisstjórninni í því að það eru miklir erfiðleikar, en þetta er dæmi um mál sem ríkisstjórnin á ekki að vera að sökkva sér niður í. Hún á ekki að vera með inni á sínu borði hvort það fara 10 millj. meira í þennan veg eða hinn veginn. En hæstv. samgrh. þykir þetta greinilega skemmtilegt verkefni, þykir skemmtilegt að slá dálítið um sig og skýra frá því að hann hafi ákveðið að setja peninga í þetta og hitt, að hann stenst ekki freistinguna og virðist ekki gera sér grein fyrir því að um leið og hann er að falla í þessa gryfju er hann að eyðileggja ágæta samskiptahætti sem hér hafa tíðkast og ég veit ekki betur en að hann hafi tekið þátt í því með bærilegum árangri í gegnum tíðina. Þótt stundum hafi hann ekki verið sáttur við allt sem þar hefur verið ákveðið, þá kemur mér á óvart að hann skuli hafa fundið þarna nýja leið nema þessi nýja leið eigi að sýna einhverja ákveðna einræðistilburði sem verða ekki farsælir til lengdar í viðkvæmum málum eins og þessum. Ég krefst þess að hæstv. samgrh. gefi þinginu frambærilegar skýringar í þessu máli.