Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 11:39:00 (3063)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það sem vakti athygli mína fyrst í ræðu hv. 1. þm. Austurl. var það hversu mjög honum hættir til að líta á samgöngumál út frá kjördæmamörkum og virðist algjörlega hafna því að rétt sé

að horfa til samgöngumála með hliðsjón af hagsmunum yfir landið allt, með hliðsjón af því að unnt sé t.d. að tengja landshluta saman. Vil ég þar sérstaklega vekja athygli á þeim djúpa ágreiningi sem varð milli mín og ríkisstjórnarinnar og raunar þingmanna í mínu kjördæmi á síðasta kjörtímabili, þar sem ég lagði mjög ríka áherslu á nauðsyn þess að hægt væri að tengja Norðurland og Norðurland eystra. Það er vitaskuld ekki rétt hjá hv. þm. að á síðasta kjörtímabili hafi verið þeir samskiptahættir milli stjórnar og stjórnarandstöðu í sambandi við vegamál að rétt væri að tala um einhverja einingu þar og skaplega hafi farið um alla hluti. Það sést mjög glöggt í fyrsta lagi með þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru í sambandi við þá nefnd sem ætlað var að marka stefnu, langtímaáætlun í vegamálum. Það kemur greinilega fram í fyrirvara mínum þar að ríkisstjórnin hafði ekkert sambandi við stjórnarandstöðu þegar kom að lokaþáttum þess máls heldur voru allar meiri háttar ákvarðanir teknar í þingflokkum stjórnarflokkanna sem ég er ekki að segja að sé óeðlilegt. Þannig voru þeir hlutir.
    Það liggur líka ljóst fyrir, eins og margoft hefur komið fram, að ég tel nauðsynlegt að framkvæmdaáætlanir í samgöngumálum séu teknar samtímis bæði í vegamálum, hafnarmálum og flugvallargerð þvert ofan í það sem áður hefur verið. Ég er þess vegna gagnrýninn á þau vinnubrögð sem verið hafa og hafa kostað mikla fjármuni á síðustu árum, þ.e. hversu lítið tilliti hefur verið tekið til sameiginlegra hagsmuna í þessum efnum.
    Í þriðja lagi er óhjákvæmilegt að vekja athygli á því að þeir fjármunir sem talað er um að veita með sérstökum hætti til vegamála fara hvarvetna til framkvæmda sem eru mjög brýnar. Það er vitaskuld fullkomlega rangt hjá hv. 1. þm. Austf., ef hann er að gefa það í skyn, að þannig hafi verið staðið að vegáætlun af síðustu ríkisstjórn að ekki hafi verið ætlast til að lán yrðu tekin til vegamála sem síðar yrðu greidd. Um öll þessi atriði er djúpur ágreiningur milli okkar tveggja og við munum hlutina greinilega ekki eins.