Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 11:44:22 (3065)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér sýnist að líkt sé á komið með okkur nöfnunum að báðir geta verið skapvondir í stjórnarandstöðu. Má vera að við séum líka líkir að því leyti til að báðir vilja ráða á meðan þeir eru ráðherrar. Hitt held ég að sé líka ljóst að þegar ákvörðun var tekin á sínum tíma um Vestfjarðagöngin sem var ekkert smámál var ekki haft samband og það samráð við þingmenn Vestfjarða sem hv. þm. var nú að tala um. Sú ákvörðun var tekin á eindæmi ríkisstjórnarinnar sjálfrar eins og menn muna. Ég heyri að fyrrv. samgrh. er órólegur. Það er kannski vegna þess að hann óttast mjög að ég rifji það upp að fyrir tveimur árum voru framlög til flóabáta um 150 millj. kr. Nú sjáum við það fyrir á næstu tveim árum að þau framlög verða að fara upp í 550 millj. kr. sem verður auðvitað að greiðast af samgöngumálaþætti fjárlaga. Það dregur úr getu okkar til að standa bærilega að vegamálum. Ekki voru þessar ákvarðanir teknar í samráði við þingmenn. Mig minnir að undirskriftin um Herjólf hafi farið fram daginn fyrir kosningar til að kaupa atkvæði með þeirri háttsemi.
    Það stendur óhaggað sem ég hef sagt. Ríkisstjórn á hverjum tíma hlýtur að móta stefnu sína í samgöngumálum. Það liggur fyrir (Gripið fram í.) að ákvörðunin um Vestfjarðagöng var tekin á bak við þingmenn Vestfjarða. Sá sem æpir hæst í þingsalnum, þ.e. fyrrv. samgrh., kom þar mjög við sögu. Ég held að hv. 1. þm. Austurl. verði að rifja forsöguna upp nokkuð betur.