Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 12:14:36 (3069)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur staðfest það hér á þann veg sem ég óskaði eftir að loforð um útboð Gilsfjarðarbrúar stendur 1994 og það er ég honum þakklátur fyrir.
    Hann hefur aftur á móti vitnað hér í endurgreiðslur sem voru samþykktar 1990 og áttu að sjálfsögðu ekki við um þetta mál en orðaði það svo: Það hefur ekki verið tekin nákvæm áætlun um hvenær endurgreiðslur hefjast á því láni sem nú er tekið.
    Það hefur greinilega gerst frá því að þessi mál voru rædd seinast á þinginu að hæstv. samgrh. hefur átt orðastað við hæstv. fjmrh. og hæstv. samgrh. hefur knúið fram viðhorfsbreytingu hjá hæstv. fjmrh. því ég lít svo á að sú yfirlýsing, sem hæstv. fjmrh. gaf hér um endurgreiðslu á þessu fé, sé í reynd dregin til baka með þessari yfirlýsingu. Hún sé dregin til baka, það sé eftir að ganga frá því máli eins og hér er sagt og ég lít svo á að hæstv. samgrh. hafi gefið loforð um það með þessu að það eigi ekki að ganga

yfir aðra verkþætti sem ákveðnir eru í vegáætlun til 1994 fyrir þetta tímabil og að horft verði þá til framhaldsins, þeirrar ákvörðunar sem ekki hefur verið staðfest en kom fram í langtímaáætlun, að mörkuð yrði sú stefna sem þar kom fram. Mér er það mikill léttir að heyra þetta því þetta eru náttúrlega allt aðrar upplýsingar en hér hafa áður komið fram.