Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 13:28:45 (3078)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er sjónarmið út af fyrir sig að við Íslendingar höfum ekki efni á að reka Herjólf. Það er sjónarmið út af fyrir sig að þjóðin hafi einfaldlega verið svo fátæk að það hafi verið röng ákvörðun af henni að ráðast í endurnýjun á þessu skipi og það hefði einfaldlega átt að láta þennan gamla pólska Herjólf sigla áfram á einni lúinni aðalvél upp að skerjóttri suðurströndinni fullan af börnum eins og hann stundum gerði og bilaði þó vélin. Og menn hefðu bara ósköp einfaldlega átt að sætta sig við það að þjóðinni hefði hrakað svo mjög að hún hefði ekki lengur efni á því að endurnýja farkosti sína með vissu millibili hvað þetta snertir. En hinu hafna ég að það sé auðvelt að sýna fram á að það hefði með miklu ódýrari hætti verið hægt að leysa þetta verkefni jafnmyndarlega og það var gert með því að láta byggja nýtt framtíðarskip á þessa siglingaleið. Sú sársaukafulla ákvörðun var m.a. tekin að smíða skipið í útlöndum vegna þess að miklu hagstæðari tilboð fengust í smíðina þar, svo miklu hagstæðari en hér innan lands að af þeim ástæðum töldu menn ekki verjandi að taka þann mismun á skattborgarana í landinu. Það var ekki gert þegar ríkisstjórn Sjálfstfl. stóð að því að smíða Baldur. Hann var smíðaður hér innan lands og vel má vera að hann hefði fengist ódýrari erlendis og þar með hefði mátt spara peninga. Og auðvitað má lengi reyna að bæta sig í rekstri. Ég tek það skýrt fram, eins og ég gerði í ræðu minni hér áðan, að ég treysti ekki síður Vegagerðinni til að halda myndarlega og vel utan um þá hluti heldur en öðrum. En spurningin mun að lokum snúast um það: Er pólitískur vilji fyrir hendi til að halda úti þessum samgöngum? Eru þeir menn við völd í landinu sem vilja tryggja fólki í hinum afskekktu byggðum úti í Eyjum fullnægjandi samgöngur eða ekki? Það er sá prófsteinn sem hæstv. samgrh. stendur frammi fyrir. Það er misskilningur hjá honum að hann komist fram hjá prófinu með því að skammast út í forvera sinn og hann vinnur ekkert með því í sjálfu sér nema þá að vekja stanslaust athygli á því að allar meiri háttar framkvæmdir og ákvarðanir í þessum efnum voru teknar af öðrum en honum.