Vegáætlun 1992

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 13:35:54 (3080)

     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna þess sem kom hér fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. v., Pálma Jónssyni, formanni samgn. þingsins, þá vil ég segja það og ég sagði það áðan að ég tel að með breyttum þingsköpum --- og hér eru inni aðilar sem unnu mjög að þeim breytingum sem gerðar voru á þingsköpunum og gætu kannski lagt orð í þennan belg --- þá er það alveg ljóst að meiningin var að gera þingnefndir virkari en áður hafði verið. Ég man það ekki nákvæmlega hvenær ríkisstjórnin ákvað að setja þetta fjármagn til vegaframkvæmda. Ég man ekki hvort þingið sat þá eða ekki. Það er eins og mig minni að þing hafi ekki setið þegar þetta var gert. En það breytir ekki því að það hefði verið eðlilegt og farsælla fyrir framgang málsins. Það var þetta sem ég lagði áherslu á, að ráðherra hefði komið, kynnt samgn. þingsins þessa ætlan ríkisstjórnarinnar og málið hefði þannig verið lagt upp við þingmenn viðkomandi kjördæma. Og með breytingu þingskapa er engin spurning í mínum huga að það var meiningin að virkja og gera þingnefndir starfhæfari og virkari, að þær mundu starfa og vera tilbúnar allt árið ef á þyrfti að halda. Þess vegna var það rökrétt að þetta mál hefði komið þangað.