Ný staða í EES-málinu

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 13:52:08 (3095)

     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Sviss er það ljóst að samningurinn um EES tekur ekki gildi þann 1. jan. 1993 eins og ríkisstjórnin hafði þó vonað. Svissneska þjóðin hefur sagt álit sitt á Evrópska efnahagssvæðinu. Þar með er EFTA ekki lengur aðili að samningnum. Þar með er sá samningur sem undirritaður var í Óportó ekki í samræmi við raunveruleikann. Alþingi stendur því frammi fyrir því að vera með til umfjöllunar frv. sem endurspeglar ekki stöðu mála.
    Samningurinn frá Óportó gildir ekki lengur. EFTA-stoðin er fallin og þar með getur m.a. ekki orðið af stofnun eftirlitsstofnunar EFTA og dómstóls þar sem ekki eru öll EFTA-ríkin lengur aðilar að málinu. Þar með er hreint út í bláinn að ætla að afgreiða þennan úrelta samning á Alþingi. Auðvitað hefði eðlilegast verið að hætta við allt málið og fara aðrar og skynsamlegri leiðir í samskiptum við EB.
    Í viðræðum við fjölmiðla í gær hélt utanrrh. því fram að Ísland yrði útilokað frá viðræðum um breyttan samning ef hann yrði ekki staðfestur nú fyrir jólin á Alþingi. Þetta eru fráleitar fullyrðingar miðað við frv., sem liggur fyrir og skýringar með því, enda hefur ráðherrann nú étið ofan í sig fyrri fullyrðingar í viðtali við fréttamann Ríkisútvarpsins í hádeginu í dag. Í 129. gr. samningsins segir í 3. tölul., með leyfi forseta:
    ,,Samningur þessi öðlast gildi 1. janúar 1993 að því tilskildu að allir samningsaðilar hafi afhent fullgildingar- eða samþykktarskjöl sín til vörslu fyrir þann dag. Eftir þann dag skal samningurinn öðlast gildi fyrsta dag annars mánaðar eftir síðustu tilkynninguna. Lokafrestur varðandi þá tilkynningu skal vera 30. júní 1993. Eftir þann dag skulu samningsaðilar boða til ráðstefnu stjórnar erindreka til að meta stöðu mála.`` Í athugasemdum við greinina sem utanrrn. hefur sett hér í frv. eða þskj. segir einnig, með leyfi forseta: ,,Í samþykkt vegna þessarar greinar er gert ráð fyrir að um leið og ljóst er að einhver samningsaðili er ekki tilbúinn að fullgilda samninginn geta undirritunaraðilar metið aðstæðurnar. Ef einhver aðili fullgildir ekki samninginn innan tímamarka, þ.e. ef ekki er komin tilkynning um fullgildingu frá öllum samningsaðilum eftir 30. júní 1993 skulu hinir samningsaðilarnir boða til ráðstefnu stjórnarerindreka til að skoða möguleika á að samþykkja bókun með nauðsynlegum breytingum til að samningurinn geti öðlast gildi á milli þessara samningsaðila.``
    Hvernig er hægt að túlka þetta þannig að þar sem fullgildingarferillinn er í gangi eins og t.d. hér á landi sé verið að útiloka þá sem ekki hafa undirritað samninginn frá viðræðum um breytingar á honum? Gildir þá ekki dagsetningin 30. júní 1993 lengur? Er ekkert að marka það sem segir í samningnum og skýringum við stjfrv. sem liggur hér fyrir Alþingi? Það er alvarlegt mál þegar ekki er hægt að taka mark á yfirlýsingum ráðherra eins og í þessu tilviki þar sem þær stangast á við framlögð frv. þeirra á þinginu.
    Ráðherra fullyrðir einnig að aðeins verði um tæknilegar breytingar að ræða á samningnum. Gjalda verður varhug við slíkum fullyrðingum enda ljóst að breytingarnar þurfa ef af verður að taka til þýðingarmikilla efnisþátta. Hvað verður t.d. með EFTA og hvað með kostnaðinn? Hvað gera t.d. hin 9 Evrópuríkin þar sem þjóðþingin hafa ekki enn þá staðfest samninginn? Nú á Alþingi að taka sér tíma til þess að yfirvega allt þetta mál og fylgjast með hver verða viðbrögð annarra samningsaðila. Við eigum að sjá til hvaða hugmyndir koma fram um breytingar á samningnum frá þeim ríkjum sem enn eru aðilar að málinu, þar á meðal frá íslensku ríkisstjórninni og fyrst taka afstöðu til samnings sem í raun og veru er ætlað að gilda fyrir Evrópskt efnahagssvæði. Þingflokkarnir á Alþingi eiga nú að taka höndum saman um að ljúka þeim verkum sem þörf er á að Alþingi fjalli um fyrir jólahlé en eyða ekki dýrmætum tíma okkar í að fjalla um úrelt mál eins og þennan dæmalausa samning.