Ný staða í EES-málinu

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 14:04:12 (3097)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég hefði talið það eðlilegra að þessi umræðu færi fram í kjölfar yfirlýsingar frá utanrrh. og rýmri tími gæfist til að ræða málið. Ég tel að staða málsins sé gjörbreytt og það sér hver maður. Hugmyndin um aðild EFTA að Evrópsku efnahagssvæði er með atkvæðagreiðslunni í Sviss dauð. Hugmyndin um tveggja stoða lausn þar sem EFTA væri önnur stoðin er að sjálfsögðu líka dauð og það er alger fásinna að ætla Alþingi að lögfesta samning sem fyrirsjáanlega verður aldrei að veruleika. Þaðan af fráleitara er af ríkisstjórninni ef hún ætlast til þess af forseta Íslands að hann fari að undirskrifa og staðfesta lög sem er fyrirsjáanlegt að aldrei koma til framkvæmda. Frekari umræður að sinni eru þýðingarlausar um þetta mál. Þetta er eins og að ætla að fara að gifta dauðan mann.
    Röksemdir hæstv. utanrrh. hér áðan eru mjög léttvægar. Það er talað um undirritunaraðila sem eigi að setjast niður. Auðvitað eru það þeir sem undirrituðu í Óportó sem eiga að setjast niður. Það verður að gjörbreyta þessum samningi, bæði lagatextanum og samningnum að innihaldi og formi. Ég hef engar áhyggjur af því að hæstv. utanrrh. komi ekki til með að bera sig vel á mannamótum erlendis hér eftir sem hingað til hvað sem Alþingi gerir og honum verður vafalaust ekki hent á dyr, a.m.k ekki vegna afstöðu Alþingis. Ég tel að það sé þýðingarlaust að eyða meiri tíma hér á Alþingi að sinni í að ræða fylgifrumvörp EES-samningsins eða sjávarútvegssamninginn sem er afleiðing af þessum gjörningi öllum. Ríkisstjórnin hefur að mínu mati við annan vanda að glíma og réttara að snúa sér að fjárlagagerð og efnahagsöngþveiti ríkisstjórnarinnar.