Ný staða í EES-málinu

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 14:06:37 (3098)

     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hæstv. utanrrh. að við samningsgerðina sjálfa um EES var gert ráð fyrir að eitthvert ríkjanna kynni að skerast úr leik. Í samþykkt sem tengist 129. gr. samningsins segir að við þær aðstæður skuli kalla saman ráðstefnu stjórnarerindreka til að meta áhrif fráviks frá fullgildingu samningsins og skoða möguleika á að samþykkt verði bókun um breytingar sem verða með fyrirvara um nauðsynlega meðferð innan lands. Skal halda slíka ráðstefnu jafnskjótt og ljóst er að einhver samningsaðili muni ekki fullgilda samninginn eða í síðasta lagi ef dagsetning gildistöku samningsins er ekki virt. Það er þetta ákvæði sem nú verður virkt og er ákaflega mikilvægt að fulltrúar Íslands, sem taka þátt í þeim fundum og ráðstefnum sem efnt verður til með vísan til þessa ákvæðis, sitji þar við sama borð og fulltrúar hinna ríkjanna sem þegar hafa formlega gengið frá heimildum til fullgildingar. Um þetta atriði var ítarlega rætt á fundi utanrmn. Alþingis í morgun.
    Ég lít þannig á að enginn þurfi að draga í efa umboð hinna íslensku stjórnarerindreka til að gæta íslenskra hagsmuna til hins ýtrasta. Úrslitin í Sviss gera þá kröfu til okkar þingmanna að við könnum til hlítar hvernig staðið skuli að afgreiðslu EES-mála hér á Alþingi. Úrslitin leiða ekki til þeirrar niðurstöðu að hér eigi menn að leggja hendur í skaut, en hitt er jafnnauðsynlegt og áður að reyna að ná sem víðtækastri samstöðu um málsmeðferð, enda verði tekið tillit til hinnar breyttu stöðu.
    Hér í þinginu hefur áður verið rætt um stjórnarhætti í Sviss og þá staðreynd að Svisslendingar þurfa hvað eftir annað að staðfesta samstöðu þjóðar sinnar með þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú hefur aðild að EES verið hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss og þar er eftir tómarúm sem svissnesk stjórnvöld þurfa að takast á við en hefur ekki þau áhrif hér á landi að neinar efnisástæður séu fyrir okkur að gera annað en að staðfesta EES-samninginn.