Ný staða í EES-málinu

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 14:13:25 (3101)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Hæstv. forseti. Utanrrh. hefur lagt áherslu á nauðsyn þess að við afgreiðum samninginn um EES á fullnægjandi hátt þannig að við verðum aðilar að ráðstefnu þeirra EFTA-ríkja sem hafa ákveðið aðild og tökum þátt í ákvörðunum sem varða framhald málsins. Þessi skoðun hefur verið vefengd og því haldið fram að afstaða Alþingis þurfi ekki að liggja fyrir þar sem í samningum sé kveðið á um að undirritunaraðilar skuli endurmeta aðstæður.
    Það eru tvær bókarnir eins og hér hefur komið fram sem eiga við um 129. gr. en hún fjallar um fullgildingu eða samþykkt EES-samningsins. Fyrri bókunin á við ef tafir verða á að eitthvert landanna geti afgreitt samninginn en viðkomandi ríki sem samningsaðilar eru enn þá inni í myndinni og er þá talað um að undirritunaraðilar meti aðstæður. Seinni bókunin á við ef eitthvert EFTA-ríkjanna fullgildir ekki samninginn og á því við um Sviss sem hefur fellt það í þjóðaratkvæðagreiðslu að gerast aðili að EES og mundi eiga við um okkur ef við fullgiltum ekki. Ráðherra las hér síðari bókun um 129. gr. þar sem kveðið er á um ráðstefnu ef land fullgildir ekki og með leyfi forseta vil ég endurtaka síðasta málslið þeirrar bókunar:
    ,,Slík ráðstefna skal haldin jafnskjótt og ljóst er að einhver samningsaðili muni ekki fullgilda samninginn eða í síðasta lagi að dagsetning gildistöku samningsins er ekki virt.`` Veitum því athygli að í samningnum var ráð fyrir því gert að þessi staða gæti komið upp og þess vegna kveðið á um hvernig með skuli fara. Hugum líka að því í þessari umræðu að hvergi í samningnum er talað um EFTA sem stofnun, alls staðar EFTA-ríki.
    Fram hefur komið að það er fullur pólitískur vilji annarra samningsaðila fyrir því að Evrópska efnahagssvæðið verði að veruleika. Við eigum því að leggja áherslu á að vera fullgildir aðilar að þeirri ráðstefnu annarra EFTA-ríkja en Sviss sem meta mun áhrif fráviks frá fullgildingu samningsins og nauðsynlegar breytingar á honum.