Ný staða í EES-málinu

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 14:22:39 (3105)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er vissulega alvarlegt mál þegar ekki er hægt að treysta orðum ráðherra,

ekki einu sinni um formsatriði varðandi mál sem þeir hafa verið að fást við árum saman. Það gerðist frammi fyrir alþjóð í gærkvöldi að hæstv. utanrrh. sagði ósatt um stöðu málsins gagnvart Alþingi. Það er mjög alvarlegt mál. Það liggur fyrir að ekkert bindur okkur Íslendinga við að lögfesta frv. sem þegar er úrelt á Alþingi Íslendinga fyrir jól eins og ráðherrann staðhæfði. Ekkert slíkt liggur fyrir. Það hefur komið fram hjá einum kappsamasta manni um þennan samning, Dinkelspiel, utanríkisviðskiptaráðherra Svía, að hann gerir ekki ráð fyrir að þessi samningur gangi í gildi fyrr en um mitt næsta ár og skortir hann þó sannarlega ekki viljann. Svo lætur hæstv. utanrrh. að því liggja að hér sé bara um tæknileg atriði að ræða sem þurfi að breyta. Það er nú önnur firran frá. Því sama var haldið fram af hálfu Evrópubandalagsins og talsmanna EFTA í desember 1991 þegar dómstóll Evrópubandalagsins sló samninginn af eins og hann lá þá fyrir og menn væntanlega minnast. Þá voru þetta bara einhverjar smábreytingar sem þurfti að gera. Nú er bara að strika út nafnið Sviss og strika út nafnið EFTA, segir ráðherrann, og þá er þetta komið.
    Þetta er satt að segja alveg dæmalaus málflutningur og við það bætist að ráðherra flutti þau skilaboð á Alþingi á dögunum að Sviss væri sæmst að hypja sig úr EFTA til að bjarga formsatriðum. Þetta lét hann fulltrúa sinn, hæstv. heilbrrh., flytja á Alþingi. Þannig er hugarfarið á þeim bæ.
    Ég verð að segja að það er satt að segja langt gengið þegar hæstv. ráðherra og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir eru að vitna í fundargerðir en styðjast ekki við lögskýringarnar, sem þau reiða fram sjálf, við 129. gr. sem kveður skýrt á um þessi efni. Það þýðir ekki að vera að vitna í einhver minnisatriði á viðræðufundum til að bjarga sér í þessu máli. Það hlýtur þá að vera eitthvert frv. sem stjórnin lagði hér fram. En við getum gleymt því í bili sem betur fer og væntanlega hugsar allt Alþingi sitt ráð í þessu máli. Til þess gefst nú ráðrúm.