Ný staða í EES-málinu

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 14:27:25 (3107)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég verð að ítreka að mér finnst það alveg út í hött að halda því fram að Ísland verði útilokað frá samningaborðinu vegna framhalds málsins eins og hæstv. utanrrh. reynir enn að gefa í skyn þó margbúið sé að hrekja það. Auðvitað verður Ísland ekkert útilokað frá frekari meðferð málsins á meðan fullgildingarferlið er hér í gangi. Ég held að það væri best fyrir hæstv. utanrrh. að hætta slíkum fullyrðingum.
    Það er alveg ljóst að EFTA er ekki lengur aðili að málinu og alveg fráleitt að halda því fram að það sé nóg að strika bara orðið Sviss út úr samningnum og þar með sé allt komið í lag. Það þarf auðvitað að gera miklu meira. Það þarf að semja um mál upp á nýtt. Það hefur greinilega komið fram hjá öðrum EFTA-ríkjum. Ég veit ekki hvers vegna hæstv. utanrrh. heldur slíku fram á Alþingi þegar ljóst er að gera þarf verulegar breytingar á þessum samningi.
    Hæstv. utanrrh. talar eins og það sé nægjanlegt fyrir Alþingi að samþykkja samninginn sem hér liggur fyrir sem er auðvitað alveg út í bláinn því sá samningur sem talað er um í þessu frv. er ekki lengur í samræmi við raunveruleikann. Svo gefur hann það í skyn að þar með þurfi ekki að leggja nýjan samning fyrir Alþingi. Hann talar eins þeir bíði með fullgildingarpappírana þangað til búið verði að semja upp á nýtt. Auðvitað þarf að leggja nýjan samning fyrir Alþingi ef aðilar komast að einhverju samkomulagi. Þá er auðvitað langbest að taka málið allt í einu í staðinn fyrir að gera það með þeirri aðferð sem hæstv. utanrrh. er að gefa í skyn að verði viðhöfð.
    Ég tel að það þurfi að ræða þetta mál og tek undir það sem hér hefur komið fram að það þarf að fara yfir þetta mál með öllum þingflokkum. Þá verður mönnum væntanlega ljóst að það þýðir ekkert annað en að fresta þessu máli þangað til það frv. sem við munum þurfa að taka afstöðu til liggur fyrir í lokaútgáfu.