Ný staða í EES-málinu

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 14:33:38 (3109)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það liggja fyrir þinginu nokkur frv. sem byggja á því að EFTA sem stofnun sé aðili að ákvarðanatöku í þeim málum. Það er alveg ljóst að þessi hálftíma umræða sem hér hefur farið fram, sérstaklega í ljósi síðustu ræðu hæstv. utanrrh., er á engan hátt tæmandi. Ég vil þess vegna mælast til þess hér að hæstv. utanrmn. taki aftur að fjalla um staðfestingarfrv. ríkisstjórnarinnar um EES-samninginn, þannig að innan utanrmn. geti á næstunni farið fram umræða og skoðun á málinu öllu og menn hafi þá tækifæri til að skila framhaldsnefndaráliti ef menn vilja. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt sérstaklega í ljósi þessara röngu fullyrðinga hæstv. utanrrh. áðan að nefndin fari rækilega yfir málið.
    Hæstv. utanrrh. sagði að EFTA kæmi þessu máli ekkert við. Það er ekki þannig. Ég nefni sem lítið dæmi að fjórði hluti fylgisamningsins um dómstólinn og eftirlitsstofnunina fjallar um EFTA-dómstólinn sérstaklega. ( Forseti: Má ég biðja hv. þm. að halda sig við gæslu þingskapa.) Já, ég er að koma að því, virðulegur forseti. Í öðrum lið staðfestingargreinarinnar er vikið að því að það eigi að staðfesta þessa samningstexta sem ekki geta með nokkrum hætti verið í gildi.
    Þar að auki, virðulegi forseti, liggur á borðum þingmanna í dag og sjálfsagt til áframhaldandi afgreiðslu næstu daga, þskj. 401 um frv. til samkeppnislaga. Þar er kominn inn XI. kafli sem heitar umræður urðu um hér fyrir helgina þar sem hvað eftir annað er vikið að dómstóli EFTA og eftirlitsstofnun EFTA. Það stendur ekkert EFTA-ríkjanna, hæstv. utanrrh. Það stendur bara dómstóli EFTA á bls. 10 í þskj. og eftirlitsstofnun EFTA. Ég sé því ekki hvernig þingið getur afgreitt frv. á þskj. 401 við 3. umr. í óbreyttu formi eftir að Sviss hefur ákveðið að EFTA er ekki lengur aðili að þessu máli sem stofnun.
    Þess vegna vil ég biðja virðulegan forseta að skoða meðferð þskj. 401 áður en það verður sett á dagskrá á nýjan leik, því ég sé ekki að hægt sé að afgreiða samkeppnislögin frá þinginu í þeim búningi sem þau eru nú eftir þennan atburð og svo kann að vera um fleiri frv. Ég vil leggja fram þá formlegu ósk að utanrmn. taki staðfestingarfrv. aftur til umfjöllunar í ljósi þess sem hér hefur komið fram í dag.