Ný staða í EES-málinu

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 14:45:19 (3117)

     Ragnar Arnalds (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Þetta er satt að segja alveg makalaus umræða sem hér fer fram. Að hæstv. utanrrh. skuli koma hér og tala í eina mínútu og koma að tveimur ósannindum í svo stuttri ræðu. ( Gripið fram í: Hann getur betur.) Kannski getur hann samt betur, það má vera. En það er rétt sem kom fram hjá seinasta hv. ræðumanni, að það var aldrei búið að gera neinn samning um meðferð þingmála eftir að 2. umr. um EES-málið lyki þann 15. des. Það var talað um það að hefja hugsanlega þá 3. umr. daginn eftir en að öðru leyti hafði ekkert samkomulag verið gert um það hvenær og hvernig þinglok yrðu.
    Í öðru lagi verður að ítreka það að þetta var fyrirvari allra stjórnarandstöðuþingflokkanna að ef úrslitin í Sviss yrðu á þann veg að þar yrði EES-samkomulagið fellt þá yrði að taka málið til endurskoðunar.
    Það er að vísu rétt að í fundargerð, sem send var út eftir þennan fund, er þetta sérstaklega bókað sem fyrirvari Alþb. en á forsetafundi í morgun var það staðfest að þetta hefði líka verið fyrirvari hinna stjórnarandstöðuflokkanna, en að vísu munnlegur fyrirvari, en hann hefði komið skýrt fram.
    Ég vil svo bara taka undir það sem hér hefur komið fram að við verðum að nota næstu daga, bæði þingflokkar og þingmenn til að átta okkur til fulls á stöðu þessa máls, en þó virðist hæstv. utanrrh. alveg sérstaklega þurfa á þessum tíma að halda til þess að reyna að skilja í hvaða stöðu málið er komið.