Ný staða í EES-málinu

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 14:52:12 (3121)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Austurl. bar fram fyrirspurn til forseta um það hvaða ríki innan EB hefðu ekki staðfest EES-samninginn enn þá. Mér er ekki alveg ljóst hvort virðulegur forseti Alþingis býr yfir þessum upplýsingum. Þess vegna vil ég svara því hér og nú að það kom fram á fundi utanrmn. í morgun að allt benti til þess að a.m.k. þrjú ríki Evrópubandalagsins myndu ekki staðfesta EES-samninginn fyrir áramót. Holland myndi líklega ekki staðfesta samninginn fyrir áramót, Grikkland myndi líklega ekki heldur staðfesta samninginn og Ítalía líklega ekki heldur. Þannig að það liggur fyrir að af hálfu Evrópubandalagsins verður samningurinn ekki heldur staðfestur fyrir áramót því það þarf staðfestingu allra EB-ríkjanna til þess að samningurinn taki gildi. Allt rennir þetta auðvitað stoðum undir það að menn hafa góðan tíma til þess að skoða þetta í rólegheitum og vega það og meta eins og hér hefur komið fram hjá ýmsum þingmönnum. Ég vil taka undir það sjónarmið sem fram kom hjá hv. þm. Geir Haarde að það er skynsamlegast að bíða skýrslu utanrrh. frá fundi EFTA-ráðherranna á fimmtudag og föstudag í þessari viku og skoða síðan framhaldið og fá síðan endanlega staðfestingu á því hvort það er ekki rétt sem ég hef hér frá greint, að Evrópubandalagið muni ekki heldur vera búið að ljúka sinni staðfestingu fyrir áramót.