Lánsfjárlög 1992

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 14:58:45 (3124)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. v. og formanni efh.- og viðskn. að nefndinni barst bréf frá félmrn. og fjmrn. sameiginlega þar sem óskað var eftir því að gera þessa breytingu á gildandi lánsfjárlögum og fyrir því voru færð þau rök, að heimild á yfirstandandi ári til útgáfu húsbréfa upp á 12 milljarða mundi ekki nægja vegna þess að eftirspurnin eftir húsbréfum mundi fara upp undir 1 milljarð fram úr áætlun.
    Þetta á sér ýmsar skýringar eins og hér kom reyndar fram að hluta til hjá hv. formanni efh.- og viðskn. og í sjálfu sér vorum við í minni hlutanum, eða a.m.k. sá sem hér talar ekkert efnislega ósáttur við hvernig þær skýringar voru fram reiddar og það er ekki af þeim sökum sem niðurstaðan varð engu að síður sú að hv. þm. meiri hlutans flyttu frv. en ekki öll nefndin. Það er fremur vegna þess að þegar við óskuðum eftir ýmsum viðbótarupplýsingum um stöðu húsnæðismála, húsbréfaútgáfu, vaxtamál, afföll og fleiri slíka hluti þá varð lítið um svör. Með vísan til þeirrar óvissu, m.a. sem uppi kvað vera um útgáfu húsbréfa á næsta ári, meðferð þeirra hluta í stjórnarsamstarfinu töldum við rétt að það væri þá á ábyrgð meiri hlutans að leggja fram þetta frv.
    Það er á hinn bóginn svo að við sjáum ekki ástæðu og engin efnisleg rök til að leggjast gegn þessu frv. eða leggja sérstaklega stein í götu þess. Það má segja að þetta sé tiltölulega einföld tæknileg aðgerð fremur en efnisleg. Og þó svo að ýmsum kunni að bregða í brún þegar þeir sjá að það færast yfir á lánsfjárlög þessa árs 4 milljarðar kr. þannig að heimild til útgáfu húsbréfa verður 16 milljarðar á þessu ári, þá er auðvitað ljóst með þeim skýringum sem fylgja og því að ekki er ætlunin að nota nema 1 milljarð á þessu ári að hér er ekki um mjög stórvægilega breytingu að ræða.
    Ég vil hins vegar við þetta tækifæri, hæstv. forseti, m.a. til þess að greiða götu þessa máls eða lengja ekki um það umræður, láta mér nægja að vísa í að það er að mínu mati óhjákvæmilegt að veruleg vinna verði lögð í það á næstu mánuðum að afla miklu ítarlegri upplýsinga um ýmsa þætti húsnæðismálanna þar á meðal þróun vanskila í húsbréfakerfinu sem eru greinilega að byrja að hlaðast upp og horfurnar í þeim efnum. Og ég get ekki látið, hæstv. forseti, þetta tækifæri algerlega fram hjá mér fara þó að ég vilji greiða götu þessa máls eða sjái ekki neina ástæðu til að leggja stein í götu þess að lýsa þessari skoðun minni. Það munu vissulega gefast fleiri tækifæri hér á þessu þingi, hinu 116., því að þegar er komið inn til að mynda frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins og væntanlega einnig í tengslum við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga næsta árs o.s.frv. gefast betra tækifæri til að fara betur ofan í saumana á þessum húsnæðismálum en gefst til að þessu sinni og það er m.a. með vísan til þess sem ég treysti mér ekki til að vera einn af flm. þessa frv.
    Ég held að það sé alveg ljóst að aðstæður fjölmargra einstaklinga, hundraða og þúsunda, sem átt hafa viðskipti við Húsnæðisstofnun ríkisins á síðustu missirum og fengið hafa húsbréf að undangengnu greiðslumati, hafa breyst, því miður í stórum stíl til hins verra og það mun kalla á aðgerðir, það mun þýða vandamál á næstu árum sem óhjákvæmilegt verður að horfast í augu við. Það þarf auðvitað ekki annað en að taka sem dæmi fjölskyldu sem fékk greiðslumat segjum á árinu 1990 við aðrar aðstæður þegar afföll voru önnur á þessum bréfum, þegar ráðstöfunartekjur þeirrar fjölskyldu voru hærri en þær eru í dag og síðan stendur hún núna frammi fyrir greiðslubyrði með skertum kaupmætti og skertum ráðstöfunartekjum sem slík dæmigerð fjölskylda ræður ekki við. Þetta mun óhjákvæmilega fara að sýna sig í auknum vanskilum því miður við húsbréfadeildina. Þær litlu upplýsingar sem við fengum í efh.- og viðskn. eftir að hafa beðið um yfirlit yfir þetta í liðinni viku benda tvímælalaust til þess að árið 1992 stefni í mikil óefni í þessu efnum borið saman við það sem var á árinu þar á undan. Vanskil frá fyrra ári voru mjög óveruleg en ef marka má þetta yfirlit stefnir þegar í verulega breytingu til hins verra á þessu ári.
    Þetta er annað aðalatriðið, hæstv. forseti, sem gerði það að verkum að ég --- og ég vænti þess að það eigi einnig við hin í minni hlutanum --- kaus að vera ekki flm. að þessu frv. Hitt er svo það að hæstv. ríkisstjórn eða talsmenn stjórnarflokkanna gátu ekki miklu svarað um áform ríkisstjórnarinnar á næsta ári varðandi útgáfu húsbréfa. Vegna þeirrar tilfærslu, sem hér er að fara fram og er auðvitað í beinum tengslum við umfang þessarar starfsemi á næsta ári, þá fannst okkur ekki eðlilegt við svo óljós svör að fara að standa að því eða bera ábyrgð á því með hæstv. ríkisstjórn hvernig að þessum málum yrði staðið. Nú hafa að vísu komið fram í fjölmiðlum, ef marka má það á síðustu sólarhringum, óljósar fréttir af því að niðurstaða hjá hæstv. ríkisstjórn hafi orðið sú að hrófla ekki við útgáfu húsbréfanna á næsta ári en þó er þar eitthvert orðalag á ferðinni um að þar eigi að fylgjast náið með þróuninni o.s.frv. Hvort sjálfkrafa verður einhver samdráttur í eftirspurn á næsta ári, og þá væntanlega sérstaklega vegna þess að nýbyggingar eru með allra mesta móti og minnkandi, þ.e. þær sem eru að verða lánshæfar nú og á næsta ári og e.t.v. verður einnig hægagangur á fasteignamarkaði í viðskiptum með notað húsnæði og allt mun það þá bera að sama brunni. Á móti þessu gætu svo komið vaxandi greiðsluerfiðleikar almennings og þá kemur auðvitað upp sú spurning: Munu menn þurfa að bregðast við eða vilja menn bregðast við því með einhverjum þeim hætti sem haft gæti áhrif á þörfina fyrir útgáfu húsbréfa? Þessu er e.t.v. ótímabært að reyna að svara og sérstaklega ótímabært þegar óvissan vegna samkomulags stjórnarflokkanna í þessum málum er höfð í huga.
    Ég vil svo aðeins taka fram að lokum vegna þess sem hv. formaður efh.- og viðskn. greindi frá með nýbyggingar að það var eitt af þeim atriðum sem við óskuðum eftir upplýsingum um í efh.- og viðskn. og sú skýring var þá gefin sem er svo sem skiljanleg þegar betur er að gáð að aukin þörf fyrir lán á þessu ári væri að sjálfsögðu afleiðing af auknum nýbyggingum sem hófust við allt aðrar og betri aðstæður í efnahagsmálum þjóðarinnar, aðallega á árinu 1990 en er nú að koma fram í þörf fyrir aukin húsbréf. Þessar aðstæður hafa eins og allir landsmenn því miður vita gjörbreyst til hins verra og nú er miklu minna í gangi. Nú minnkar lánsþörf sem mun lýsa sér í minni þörf fyrir húsbréf til nýbygginga á komandi einu til tveimur árum þannig að þessi tímabundni kúfur, sem hér er að koma fram og veldur lítillega aukinni þörf á útgáfu húsbréfa nú á síðari hluta ársins 1992, er því miður augljóslega tímabundinn og það mun draga strax úr þessari þörf á næsta ári og e.t.v. enn frekar á árinu 1994.
    Ég sé, hæstv. forseti, með vísan til aðstæðna ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð þó svo sannarlega sé margt í sambandi við stöðu húsnæðismálanna sem vert og þarft væri að ræða en það bíður þá betri tíma.