Tekjustofnar sveitarfélaga

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 15:26:00 (3128)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 90/1990. Meginefni og tilgangur frv. er niðurfelling aðstöðugjaldsins.
    Um langt árabil hefur verið í gangi umræða um niðurfellingu þessa gjalds. Ég ætla ekki að rifja upp við þessa umræðu það sem átt hefur sér stað áður varðandi þetta mál enda veit ég að hún er öllum

hv. alþm. vel kunn. Engu að síður tel ég rétt að rifja upp nokkur rök fyrir niðurfellingu aðstöðugjaldsins.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að skattlagning fyrirtækja og neyslu verði samræmd því sem gerist með samkeppnisþjóðum. Í stefnu- og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar segir að lög um tekjustofna sveitarfélaga verði endurskoðuð með það fyrir augum að samræma skattlagningu fyrirtækja því sem gerist í nágrannalöndum. Aðstöðugjaldið á sér ekki hliðstæðu hjá nágrannalöndunum eða meðal helstu samkeppnisþjóða okkar. Yfirlýstu markmiði ríkisstjórnarinnar í þessu efni verður ekki náð án niðurfellingar aðstöðugjaldsins. Skattstofn aðstöðugjaldsins er óheppilegur þar sem gjaldið er lagt á heildarrekstrarkostnað fyrirtækja og tekur því í raun ekkert mið af afkomu þeirra.
    Álagning aðstöðugjaldsins stuðlar að óeðlilegri verðmyndun vegna uppsöfnunaráhrifa og veikir stöðu íslenskra atvinnugreina, bæði innbyrðis og gagnvart erlendum keppinautum. Aðstöðugjaldið veldur ákveðnum ójöfnuði einnig milli sveitarfélaga. Þannig ráðast tekjur af aðstöðugjaldi frekar af eðli atvinnustarfseminnar á hverjum stað en raunverulegum umsvifum. Álagningarstofn er í mörgum tilvikum óviss sem veldur oft umtalsverðum afföllum frumálagningar við kærur og endurúrskurði. Þá er skatturinn lagður á eftir á sem veikir innheimtu hans, ekki síst í ljósi síbreytilegra aðstæðna í íslensku efnahagslífi.
    Aðstöðugjaldið var tekið upp árið 1962 í stað veltuútsvars. Meginmarkmiðið með álagningu þess var tvíþætt: Annars vegar að mæta tekjuþörf sveitarfélaganna í stað veltuútsvarsins. Hins vegar þótti eðlilegt að fyrirtæki greiddu í einhverju formi fyrir þá þjónustu eða aðstöðu sem sveitarfélög veittu þeim. Álagning aðstöðugjaldsins hefur frá byrjun sætt verulegri gagnrýni. Framan af kom sú gagnrýni einkum frá forsvarsmönnum atvinnulífsins en á seinni árum hefur þessi gagnrýni orðið almennari og háværari. Ástæðan fyrir því að ekki er þegar búið að fella gjaldið niður er einkum tvíþætt. Astöðugjaldið hefur verið sveitarfélögunum mjög misgóður tekjustofn. Í fyrsta lagi hafa þau sveitarfélög sem best hafa verið sett í þessu efni barist gegn niðurfelllingu aðstöðugjaldsins og í öðru lagi hefur ekki verið samkomulag milli sveitarfélaganna um það hvaða tekjustofn ætti að koma í stað aðstöðugjaldsins.
    Í tengslum við undirbúning að efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar og aðgerðum til að styrkja stöðu íslensks atvinnulífs og sporna gegn auknu atvinnuleysi fór fram mikil umræða um hvernig stuðla mætti að bættum starfsskilyrðum atvinnuveganna. Þá náðist sá þýðingarmikli áfangi að samkomulag tókst um það milli ríkisstjórnarinnar og fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga að aðstöðugjaldið verði fellt niður á árinu 1993 og sveitarfélögunum verði bætt upp tekjutap til bráðabirgða á því ári með hlutdeild í tekjum ríkisins. Afnám aðstöðugjaldsins hefur veigamikil áhrif á fjárhag sveitarfélaga þótt fyrir liggi ýmsar tillögur um það hvernig bæta megi sveitarfélögunum tekjutapið til frambúðar. Þó þykir ekki rétt að ákveða leiðir í því efni fyrirvaralítið.
    Fyrirkomulagið 1993 er hugsað til bráðabirgða og er gert ráð fyrir að á því ári verði lög um tekjustofna sveitarfélaga endurskoðuð með það að markmiði að finna sveitarfélögunum varanlegan tekjustofn í stað aðstöðugjaldsins. Stefnt verður að því að nýtt tekjuöflunarkerfi sveitarfélaganna verði tekið upp í ársbyrjun 1994. Í bráðabirgðaákvæði I í frv. er lagt til að aðstöðugjaldið verði á árinu 1993 lagt á með sama hætti og verið hefur. Þó skal ákvörðun sveitarstjórna um gjaldstig og gjaldflokka gilda óbreytt frá 1992. Gjaldið fellur hins vegar niður við innheimtu. Til að bæta sveitarfélögunum tekjutapið er lagt til að ríkið greiði þeim 80% af álögðu aðstöðugjaldi 1993 vegna rekstrar 1992 með þeim breytingum sem kunna að verða gerðar við yfirferð framtala og úrskurði á kærum. Þar til álagning aðstöðugjaldsins liggur fyrir er gert ráð fyrir að að ríkið greiði sveitarfélögunum sem fyrirframgreiðslu 40% af álögðu aðstöðugjaldi 1992 vegna rekstrar á árinu 1991. Greiðsla þessi fari síðan fram á fimm gjalddögum. Þegar álagning liggur fyrir verði eftirstöðvarnar einnig gerðar upp á fimm gjalddögum.
    Í tengslum við samkomulagið um niðurfellingu aðstöðugjaldsins tókst einnig um það samkomulag að af greiðslum ríkisins til sveitarfélaganna óskiptum rynni nokkur upphæð til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Er það til að mæta fyrirsjáanlegri aukinni þörf fyrir jöfnunarframlög 1993.
    Aðstöðugjaldsstofn er í nokkrum tilvikum grundvöllur útreiknings annarra gjalda. Í bráðabirgðaákvæði III er það undirstrikað að framkvæmd á ákvæðum laga um þetta efni standi óhögguð 1993 þrátt fyrir niðurfellingu aðstöðugjaldsins. Einnig verða engar breytingar varðandi landsútsvör.
    Bráðabirgðaákvæði IV gerir ráð fyrir að í tengslum við niðurskurð ríkisútgjalda á árinu 1993 skerðist framlag ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um 110 millj. kr. og þetta komi einungis niður á framlagi Jöfnunarsjóðsins til Lánasjóðs sveitarfélaga en hafi ekki áhrif á önnur framlög Jöfnunarsjóðsins. Lánasjóðurinn er mjög öflugur sjóður með mikið eigið fé sem um sl. áramót var 3 milljarðar 157 millj. kr. og árlegan tekjuafgang sem á sl. ári var 259 millj. kr. Þessi tímabundna breyting ætti því ekki að hafa nein veruleg áhrif á útlánagetu sjóðsins.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.