Tekjustofnar sveitarfélaga

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 15:49:58 (3130)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Í frv. sem hér liggur fyrir er lagt til að á næsta ári verði aðstöðugjald lagt á samkvæmt þeim álagningarstuðlum sem notaðir voru á þessu ári en ekki innheimt af greiðendum. Þess í stað muni ríkissjóður leggja fram framlag til sveitarfélaganna sem nemur 80% af álögðu aðstöðugjaldi.
    Ég vil fyrst segja um þetta áður en ég fer út í efni frv. að mér finnst vanta í frv., sem ég hygg að ég muni rétt að eigi að fylgja með frumvörpum, greinargerð um fjárhagsleg áhrif frv. á ríkissjóð. Það eru engar upplýsingar í frv. um þær fjárhæðir sem þarna er lagt til að greiða úr ríkissjóði til sveitarfélaga og ekki er heldur að finna neinar upplýsingar um áætlun um álagningu aðstöðugjalds. Við lestur frv. verður maður litlu nær um það hvaða fjárhæðir er verið að fjalla um. Það tel ég skaða. Greinargerð frá fjmrn. hefur að jafnaði fylgt með stjórnarfrumvörpum. Þó að þær greinargerðir séu ekki ávallt merkilegar þá eru þær samt betri en engar. Ég hef talið eðlilegt í þessu tilviki að gerð væri grein fyrir þessum fjárhæðum, sérstaklega þar sem um svo miklar fjárhæðir er að ræða fyrir ríkissjóð og einn af gildustu tekjustofnum sveitarfélaga.
    Þá vil ég segja það um aðstöðugjaldið sem skattstofn að ég hef verið fylgjandi því að leggja það niður. Mér hefur fundist það óréttlátt, ekki vegna þeirra ástæðna sem hér voru fram talin í framsöguræðu, m.a. að hér væri um að ræða veltuskatt. Þeir eru fleiri veltuskattarnir í þjóðfélaginu sem lifa góðu lífi og ekki eru nein áform um að leggja af. Ég nefni einn veltuskatt sem er í eðli sínu sami skattur og aðstöðugjaldið. Það er tryggingagjald sem leggst á brúttóveltu af tiltekinni tegund, rétt eins og aðstöðugjaldið. Enginn eðlismunur er á milli þessara tveggja gjalda heldur er munurinn einungis sá að aðstöðugjaldið nær yfir breiðara svið rekstrarútgjalda fyrirtækja.
    Ég hef því ekki fallist á þau rök að leggja ætti aðstöðugjaldið niður vegna þess að það væri veltuskattur. Það hafa ekki verið rök sem hafa dugað fyrir mig. Mér hefur fundist skatturinn ranglátur vegna þess að hann mismunar sveitarfélögum. Hann færir sumum sveitarfélögum meiri tekjur en þau ættu að hafa af þessum viðskiptum. Ég hef verið þeirrar skoðunar að breyta ætti eða jafnvel að leggja þennan skatt niður því hann mismunar sveitarfélögunum.
    Því er það mín skoðun að þegar menn taka sig til og ætla sér að leggja þennan skatt niður eigi menn að gera það í þeim tilgangi að eyða þessum misjöfnunaráhrifum aðstöðugjaldsins. Það er hins vegar ekki gert í frv. heldur er lagt til að viðhaldið verði hinum skekkjandi áhrifum aðstöðugjaldsins á milli sveitarfélaga. Ég er andvígur því. Ég sé engin rök til þess að eitt sveitarfélag, t.d. Reykjavík, sé að raka saman fé vegna viðskipta sem eru í rauninni upprunnin annars staðar. Ef menn vilja velja þessa leið til millilendingar, þar sem menn hafa ekki komið sér saman um hvað við á að taka, eiga þeir að nota greiðslurnar úr ríkissjóði til að jafna á milli sveitarfélaga en ekki að viðhalda mismuninum. Ég mun því leggja áherslu á það að ríkisgreiðslurnar muni taka mið af þeim sjónarmiðum en ekki af fortíðarálagningu aðstöðugjalds. Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess að hugsa sérstaklega um hagsmuni Reykjavíkurborgar sem lætur sig hafa það að eyða milljörðum króna í fjárfestingar sem varla er hægt að tala um að nokkur þörf sé fyrir í stað þess að snúa sér að því að nýta sína miklu tekjustofna til þess að búa því fólki betra líf sem býr við eymd og örbirgð hér á höfuðborgarsvæðinu. Það eru rangar pólitískar áherslur í Reykjavíkurborg. Menn fara að mörgu leyti illa með fé og ég get ekki verið stuðningsmaður þess að ríkissjóður fari að taka upp á því að greiða fé til þessa sveitarfélags í sama hlutfalli og aðstöðugjaldið hefði skilað því. Ég tel það ekki rétt. Ég tel líka mjög vafasamt að menn taki upp á því að leggja niður einn af gildustu tekjustofnum sveitarfélaga án þess að vita hvað á að taka við. Það er mjög varhugaverð braut sem ég hef miklar efasemdir um að sé rétt.
    Það er fleira varðandi aðstöðugjaldið sem er ástæða til að huga að áður en hrapað er að því að

ljúka málinu með þessum hætti sem hér er lagt til. Ég vil í fyrsta lagi nefna greiðsluhlutfallið. Hér er því slegið föstu að ekkert sveitarfélag eigi að fá nema 80% af álagningu. Það er mál sem þarf að skoða og getur ekki verið á þessu stigi máls samstaða um að eigi að vera hin almenna regla. Það þarf að skoða miklu nánar. Við þurfum að fá upplýsingar um innheimtuhlutfall í einstökum sveitarfélögum og sjá hvernig það er um landið allt. Við skulum líka gæta að því að álagningarstuðlarnir eru misjafnir og af þeim sökum skila þeir sveitarfélögum mismiklum tekjum. Það var lögbundið fram til 1990 að fiskveiðar og fiskvinnsla bæru lægri aðstöðugjaldsstofn en t.d. verslun. Þrátt fyrir að þessi þrep hafi verið afnumin hefur sveitarstjórnum ekki tekist á þessum fáu árum að jafna álagningarstuðulinn yfir atvinnugreinar. Það þýðir að sveitarfélög á landsbyggðinni sem eru sjávarútvegspláss fá minna í tekjur af aðstöðugjaldi en sveitarfélag sem er verslunarpláss. Er það rétt að miðað við þá forsendu, sérstaklega í ljósi þess að mörg sjávarútvegspláss eða sjávarútvegsfyrirtækin í þeim plássum eiga í verulegum erfiðleikum? Sveitarfélög þar hafa þurft að leggja til gríðarlega mikla peninga í atvinnurekstur í formi beinna fjárframlaga, ábyrgða eða lána. ( Forseti: Forseti vill grennslast um það hjá hv. þm. hvort hann á langt mál eftir eða hvort hann óskar eftir að gera hlé á ræðu sinni.) Það gætu verið 5--10 mínútur eftir. ( Forseti: Ætli það sé ekki rétt að hv. þm. fresti máli sínu þar til síðar á fundinum.)