Tekjustofnar sveitarfélaga

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 18:22:40 (3135)


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég skal leitast við að svara þeim spurningum sem beint hefur verið til mín í þessari umræðu.
    Í fyrsta lagi það sem fram kom hjá hv. 2. þm. Vesturl. um hvaða tekjustofn sveitarfélögunum verður ákveðinn til frambúðar sem taki við af aðstöðugjaldinu, þá liggur það ekki fyrir. Hv. þm. veit að í nokkuð langan tíma hafa staðið yfir umræður um niðurfellingu á aðstöðugjaldinu og hvaða tekjustofnum sveitarfélögunum verður ætlað í staðinn en um það hefur einfaldlega ekki náðst samkomulag milli sveitarfélaganna. Ég hygg að mismunandi sjónarmið og skoðanir séu uppi um hvað eigi að koma í staðinn. Þess vegna er farin þessi leið til bráðabirgða varðandi árið 1993. Um þá leið varðandi útfærsluna og hvað komi í staðinn árið 1993 hefur verið haft fullt samráð við Samband ísl. sveitarfélaga.
    Þær spurningar sem hefur verið beint til mín eru í fyrsta lagi hvort sveitarfélögin verði á árinu

1993 jafnsett eftir eins og aðstöðugjaldið hefði verið lagt á óbreytt. Í annan stað er spurt um ráðstöfun á 120 millj. kr. til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Eins er spurt um Lánasjóð sveitarfélaga og áhrif skerðingar hans á útlán sjóðsins.
    Fyrst varðandi það hvort sveitarfélögin séu jafnsett eftir árið 1993. Með þeirri aðferð sem lögð er til í þessu frv. er ljóst að það fer fram álagning 1993 vegna ársins 1992 og 80% af þeirri álagningu rennur til sveitarfélaganna. Ef spurt er t.d. um meðaltalið sem rann til sveitarfélaganna vegna aðstöðugjaldsins árið 1991 var innheimtuhlutfallið um 84% samkvæmt útreikningum Sambands ísl. sveitarfélaga frá því í nóvember 1992 sem var bæði eftirstöðvar innheimta og innheimta ársins. Hvort tveggja gaf þetta að meðaltali um 84%. Hér er lagt til að 80% af álagningunni renni til sveitarfélaganna og þá er eftirstöðvainnheimtan ekki með talin. Eftirstöðvainnheimtan frá þessu ári, sem er sennilega að meðaltali um 10--20%, kemur því til viðbótar. Ég hygg þess vegna að sveitarfélögin verði ekki verr sett en ef aðstöðugjaldsálagning hefði farið fram með eðlilegum hætti.
    Varðandi ráðstöfun á 120 millj. kr. til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, þá kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl. að ekki sé víst að framlagið, 120 millj. kr., fari til að mæta tekjumissi af aðstöðugjaldinu, þ.e. að þau sveitarfélög sem hafa verið með betri innheimtuárangur fái þann missi bættan í gegnum þessar 120 millj. í tekjujöfnunarframlögum. Þegar um þetta var samið við Samband ísl. sveitarfélaga lá alveg fyrir hver vilji Sambands ísl. sveitarfélaga var og niðurstaðan er í samræmi við það sem Samband ísl. sveitarfélaga lagði til. Ég vil lesa bréf frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, dags. 7. des., vegna ráðstöfunar á þessu framlagi ur Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þar kemur fram, með leyfi forseta:
    ,,Sérstök samráðsnefnd skipuð fulltrúum Sambands ísl. sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar tók til umfjöllunar með hvaða hætti sveitarfélögum yrði bættur tekjumissir vegna niðurfellingar aðstöðugjalds á næsta ári. Í þeim viðræðum var gert ráð fyrir að af óskiptu framlagi, því sem sveitarfélögin fá á næsta ári úr ríkissjóði, verði teknar 120 millj. kr. er renni í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Það er skilningur fulltrúa sveitarfélaganna í samráðsnefndinni að þeim fjármunum verði varið til þess að greiða sveitarfélögunum jöfnunarframlög á næsta ári, samanber 14. gr. laga nr. 90/1990.``
    Það er því alveg ljóst að skilningur Sambands sveitarfélaga er að þetta renni til jöfnunarframlaga.
    Hv. 5. þm. Vestf. spurði hvort þetta ætti að renna til a- eða b-liðar 14. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, þ.e. til tekjujöfnunarframlaganna eða þjónustuframlaganna. Um það hefur ekkert verið ákveðið. Ég býst við að ákvörðun um það hvernig þessu verði ráðstafað verði tekin að höfðu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga.
    Varðandi Lánasjóð sveitarfélaga og áhrif á útlán sjóðsins, þá tel ég að þetta muni ekki hafa áhrif á útlánagetu sjóðsins frá því sem nú er. Á árinu 1991 voru 259 millj. kr. í tekjuafgang. Ég hygg að tekjuafgangurinn verði svipaður í ár, kannski heldur meiri af því að eigið fé sjóðsins hefur vaxið og útlánageta hans á næsta ári eykst því hlutfallslega við aukninguna á eigin fé sjóðsins. Ef sjóðurinn hefði átt 115 millj. meira til ráðstöfunar á næsta ári hefði útlánageta hans aukist sem því nemur en ég tel að ekki sé verið að skerða hana frá því sem nú er. Eigið fé sjóðsins er milli 3,1 og 3,2 milljarðar kr. Það er því ljóst að þetta er mjög öflugur sjóður og ég tel því réttlætanlegt miðað við þær aðstæður sem uppi voru að fara þessa leið á næsta ári. Frekar en skerða framkvæmdagetu annarra sjóða eins og Framkvæmdasjóðs fatlaðra, þá tel ég að þessi sjóður sé mun öflugri og raunverulega ekki hægt að bera saman við t.d. Framkvæmdasjóð fatlaðra. Að því leyti tel ég að þetta sé réttlætanlegt.
    Samband ísl. sveitarfélaga hefur mótmælt þessari skerðingu á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Það er alveg ljóst að þeir hafa gert það. Það lá ekki fyrir nein ákvörðun um skerðingu á þessum sjóði fyrr en sl. föstudag. Á laugardagsmorgun var haft samband við Samband ísl. sveitarfélaga og því kynntar þessar hugmyndir en að öðru leyti hefur verið haft fullt samráð við Samband ísl. sveitarfélaga um ákvæði þessa frv.
    Varðandi fyrirspurn frá Kristni H. Gunnarssyni um tekjuskatt einstaklinga, hvort hér sé um varanlega hækkun að ræða eða tímabundna hefur, eins og hér hefur komið fram, ekki verið ákveðið hvaða tekjustofna sveitarfélögin fá til frambúðar. Það er samkomulag um að skipuð verði nefnd af hálfu ríkisins og sveitarfélaga til þess að finna samkomulagsgrundvöll um hvað koma eigi í staðinn. Ég hygg að það ráðist af því hvaða tekjustofn sveitarfélögunum verður ákveðinn í framhaldi af því hvort þessi tekjuskattur einstaklinga verði lengur en næsta ár eða ekki. Tekjuskattshækkun er sérstaklega til komin vegna þess að það þarf að bæta sveitarfélögunum upp niðurfellingu aðstöðugjaldsins með þessum hætti. Það hangir því saman við hvaða ákvörðun verður tekin um framhaldið á þessari tekjuskattshækkun einstakinga.
    Ég held að ég hafi svarað flestum þeim spurningum sem til mín var beint. Varðandi landsútsvarið sem hv. 2. þm. Vesturl. spurði um þá hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um það í ríkisstjórninni hvort eða hvenær það verður fellt niður.