Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 13:38:37 (3136)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á skattamálum. Þetta er 286. mál þingsins og er að finna á þskj. 417.
    Frv. það sem hér er til umræðu er að hluta til flutt til þess að fylgja eftir tekjuáformum fjárlagafrv. sem lagt var fram í haust, að hluta vegna nýlegra aðgerða ríkisstjórnarinnar og loks sumpart vegna lagfæringar á skattkerfinu af ýmsum öðrum ástæðum.
    Fyrir nokkrum vikum efndi ríkisstjórnin til efnahagsaðgerða sem voru nauðsynlegar af ýmsum ástæðum. Má þar nefna mikinn óróa á gjaldeyrismörkuðum sem veikt hafði gengi íslensku krónunnar. Í öðru lagi var ljóst að samkeppnisstaða útflutnings- og samkeppnisgreina fór versnandi og loks áttum við við sérstök vandamál að etja í sjávarútvegi, aðallega vegna uppsafnaðs vanda en einnig vegna minni sjávarafla á síðustu árum. Markmið efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar er í fyrsta lagi að styrkja stöðu íslensks atvinnulífs, einkum útflutnings- og samkeppnisgreina, í öðru lagi að hamla gegn vaxandi atvinnuleysi og í þriðja lagi að leggja grunn að hagvexti á nýjan leik.
    Áhrif aðgerðanna til þess að efla atvinnulífið birtast með ýmsum hætti:
    1. Gengisfellingin bætir stöðu útflutnings- og samkeppnisgreina.
    2. Niðurfelling aðstöðugjalds mun lækka kostnað fyrirtækjanna og styrkja samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum fyrirtækjum.
    3. Lækkun tekjuskatts fyrirtækja mun styrkja samkeppnisstöðu þeirra og skapa grundvöll fyrir erlenda fjárfestingu hér á landi.
    4. Lækkun tryggingagjalds á ferðaþjónustu mun styrkja stöðu greinarinnar sem er í vaxandi mæli gjaldeyrisskapandi atvinnugrein.
    5. Gert er ráð fyrir vaxandi þátttöku lífeyrissjóða í fjármögnun fyrirtækja. Samkvæmt upplýsingum sem koma frá lífeyrissjóðunum er stefnt að því að þeir noti um það bil 5% af ráðstöfunarfjármagni sínu á ári til hlutafjárkaupa á næstu árum. Þetta jafngildir um 1.800 millj. kr. á næsta ári því að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna er talið verða um 36 milljarðar.
    6. Benda má á að bindiskylda banka hafi verið lækkuð en það stuðlar að lægri vöxtum og lengri lánstíma. Þá hafa dráttarvextir verið lækkaðir með lögum.
    7. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að stofna þróunarsjóð sjávarútvegsins til að greiða fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu í sjávarútvegi.
    Auk þessara aðgerða sem ríkisstjórnin ákvað í síðasta mánuði hafði ríkisstjórnin áður samþykkt að stefna að auknum framkvæmdum í vegamálum á næsta ári og viðhaldsverkefnum, einkum á opinberum byggingum. Einnig er gert ráð fyrir því að nýjum fjármunum verði varið til rannsókna og þróunarstarfsemi.
    Mikilvægustu aðgerðirnar eru að sjálfsögðu þær að aðstöðugjaldið verður ekki innheimt af fyrirtækjum eins og verið hefur, heldur verður sveitarfélögunum greitt framlag úr ríkissjóði í staðinn. Hér er um bráðabirgðafyrirkomulag að ræða þar til tekist hefur samkomulag um framtíðarskipan þessara mála.
    Annar mikilvægur þáttur í tillögum ríkisstjórnarinnar til að treysta atvinnulíf, eins og áður hefur komið fram, eru þau áform að lækka tekjuskattshlutfall lögaðila úr 45% eins og það er nú í 33% á árinu 1994.
    Þessar efnahagsaðgerðir sem ég hef hér lýst í örstuttu máli krefjast að sjálfsögðu sérstakra ráðstafana í ríkisfjármálum, enda er mikilvægt að þær verði ekki til þess að veikja stöðu ríkissjóðs þar sem slíkt vinnur gegn meginmarkmiðum aðgerðanna um að treysta atvinnulífið, m.a. með lækkun vaxta. Ég mun nú lýsa helstu þáttum aðgerðanna en þær eru eftirfarandi:
    1. Gert er ráð fyrir að tekjuskattshlutfall einstaklinga hækki úr 32,8% í 34,3% eða um 1,5%. Að meðtöldu útsvari sveitarfélaga hækkar innheimtuhlutfall í staðgreiðslu úr 39,85% í 41,35%. Næstu tvö ár verður auk þess lagður á sérstakur 5% hátekjuskattur utan staðgreiðslu. Enn fremur er áformað að lækka útgjöld ríkissjóðs vegna barnabóta um 500 millj. kr. á næsta ári. Þá verður dregið úr kostnaði vegna vaxtabóta, reglur um reiknuð laun einstaklinga í atvinnurekstri verða endurskoðaðar og loks er stefnt að sérstöku átaki í skatteftirliti.
    2. Undanþágum frá virðisaukaskatti verður fækkað og starfsemin felld inn í nýtt og lægra skattþrep sem verður 14%. Þessi breyting var boðuð í fjárlagafrv. samhliða lækkun á almenna skatthlutfallinu. Hér verður hins vegar sú breyting á að almenna skatthlutfallið helst óbreytt til að standa straum af auknum útgjöldum ríkissjóðs. Í tengslum við álagningu virðisaukaskatts á ferðaþjónustu verður tryggingagjald

á þá starfsemi lækkað úr 6% í 2,5%.
    3. Gert er ráð fyrir sérstakri hækkun bensíngjalds um 1,50 kr. til að afla viðbótartekna í ríkissjóð. Þessi hækkun er auk þeirra sem áformuð var samkvæmt fjárlagafrv. og birtist ekki í þessu frv.
    4. Nauðsynlegt er að grípa til enn frekari sparnaðar og aðhaldsaðgerða en fólust í fjárlagafrv. til þess að treysta stöðu ríkissjóðs. Efnahagsleg áhrif aðgerðanna koma fram í minni viðskiptahalla gagnvart útlöndum og þar með dregur úr erlendri skuldasöfnun. Þegar á heildina er litið hafa þessar sérstöku ríkisfjármálaaðgerðir lítil áhrif á verðlag. Á móti verðhækkunaráhrifum vegna fækkunar undanþága í virðisaukaskatti og hækkunar bensíngjalds vegur niðurfelling aðstöðugjalds og lækkun tryggingagjalds í ferðaþjónustu. Enn fremur má minna á að jöfnunargjald sem til skamms tíma gaf 1 milljarð í ríkissjóð var fellt niður 1. okt. sl.
    Næstu mánuði má þó búast við heldur meiri verðbólgu en verið hefur að undanförnu meðan áhrif gengisfellingarinnar eru að ganga yfir. Á síðari hluta ársins dregur aftur úr verðbólgunni. Af þessum ástæðum verður meðalhækkun verðlags á næsta ári ívið meiri en á þessu ári eða um 3,5--4%. Aðilar sem mæla verðbólgu hér á landi eru ekki allir sammála um verðlagsáhrif gengisfellingarinnar og aðgerða ríkisstjórnarinnar. Þar sjást tölur frá 3% og upp í 4,5%. Að áliti fjmrn. mun líklegt að verðbólgan verði einhvers staðar þarna mitt á milli.
    Vík ég þá næst að tekjuskatti einstaklinga, lögaðila og fleiri. Gert er ráð fyrir ýmsum breytingum á tekjuskatti einstaklinga. Tekjuskattshlutfallið hækkar úr 32,8 í 34,3% og næstu tvö ár verður sérstakur 5% hátekjuskattur lagður á tekjur einstaklinga umfram 2,4 millj. kr. á ári og árstekjur hjóna umfram 4,8 millj. kr. Barnabætur verða lækkaðar, dregið verður úr greiðslum vaxtabóta og reglur um reiknað endurgjald einstaklinga í atvinnurekstri verða endurskoðaðar.
    Þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að endurskoða á næsta ári gildandi lagaákvæði um barnabætur og vaxtabætur. Það þýðir ekki að draga eigi frekar úr þessum bótum á næsta ári en gert er ráð fyrir í þessu frv. en hins vegar er verið að opna fyrir þá möguleika að hægt sé að fara öðruvísi að en þær tillögur gera ráð fyrir sem liggja fyrir í frv. sem hér er mælt fyrir.
    Áætlað er að hækkun skatthlutfalls og álagning hátekjuskatts skili 3 milljörðum 150 millj. kr. í ríkissjóð á næsta ári. Þetta jafngildir um 1,4% hækkun á skattbyrði einstaklinga, þ.e. í hlutfalli við tekjur. Að teknu tilliti til lækkunar barnabóta um 500 millj. kr. er hækkunin tæplega 1,6%. Áhrif þessara breytinga koma misþungt niður, mest hjá þeim sem lenda í hátekjuskatti en minnst hjá hinum tekjulægstu. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að tæplega þriðjungur einstæðra foreldra og 15% hjóna eru undir skattleysismörkum og verða því ekki fyrir neinum búsifjum vegna frv. nái það fram að ganga.
    Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að útgjöld vegna barnabóta lækki um 500 millj. kr. á næsta ári eða rúmlega 10%. Heildargreiðslur barnabóta á yfirstandandi ári eru um 4,4 milljarðar kr. Þar af eru um 2 milljarðar kr. í formi barnabótaauka sem er tekjutengdur. Til þess að draga úr áhrifum á hina tekjulægstu er breytingin þannig gerð að almennar barnabætur, sem eru ekki tekjutengdar, eru lækkaðar um 30%. Um það bil þriðjungur þessarar fjárhæðar er síðan færður yfir í tekjutengda hluta kerfisins, þ.e. barnabótaauka. Með þessari breytingu er vægi barnabótaaukans orðið tvöfalt meira en það var árið 1991 og meiri hluti barnabótagreiðslna tekjutengdur.
    Sú breyting sem gert er ráð fyrir samkvæmt frv. er að stefnu til svipuð og gerð var vegna yfirstandandi árs. Vissulega skal viðurkennt að ýmsar leiðir eru til til þess að ná sama árangri. Ég tel fulla ástæðu til að þetta mál verði kannað en vil jafnframt láta koma fram að ég tel ekki ástæðu til að taka meiri fjármuni úr barnabótakerfinu á næstunni, þ.e. að hækka nettótekjuskatt með því að draga úr greiðslum barnabóta til fólks sem hefur börn á framfæri. ( Gripið fram í: Er virkilega nóg að gert?) Ég tek auðvitað á móti tillögum ef hv. frammíkallendur vilja ganga lengra. Sumir þeirra hafa aðgang að viðkomandi nefnd og ég er viss um að þeir geta komið tillögum sínum á framfæri við nefndina.
    Samkvæmt fjárlagafrv. fyrir árið 1993 eru heildargreiðslur vaxtabóta og húsnæðisbóta áætlaðar um 3,1 milljarður kr. á næsta ári. Þar af eru vaxtabætur tæplega 2,6 milljarðar en húsnæðisbætur tæpar 600 millj. kr. Í reynd má segja að stuðningur ríkisins við íbúðareigendur sé þríþættur. Í fyrsta lagi í formi niðurgreiddra vaxta í félagslega húsnæðiskerfinu. Í öðru lagi vegna ríkisábyrgða í húsbréfakerfinu, sem þýðir að vextir og ávaxtanakrafa í því kerfi er lægri en ella hefði orðið og loks með niðurgreiðslu á vöxtum í vaxtabótakerfinu.
    Á undanförnum árum hefur stuðningur ríkisins við íbúðareigendur í formi skattafsláttar aukist verulega eða um 65% að raungildi frá árinu 1988. Hér gætir að nokkru vaxandi skuldsetningar heimilanna. Margt bendir til að vaxtabótakerfið hvetji til lántöku miðað við gildandi reglur. Skattyfirvöldum er einnig ókleift að greina á milli skulda sem sannanlega er stofnað til vegna öflunar húsnæðis og skulda af öðrum ástæðum. Þá hefur óeðlileg uppsöfnun verðbóta einnig skekkt myndina.
    Í framhaldi af ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að draga úr greiðslum vaxtabóta hafa ýmsar útfærslur verið skoðaðar, m.a. hækkun tekjuskerðingar, lækkun hámarksgreiðslna vaxtabóta, skerðing framtalinna vaxtagjalda og aukin eignaskerðing. Hér er valin sú leið að skerða framtalin vaxtagjöld um 10% en auk þess eru hærri eignamörkin lækkuð um 20%, eða úr 9,8 millj. í 8 millj. kr. Þessi breyting er talin spara ríkissjóði um 400 millj. kr. og er gert ráð fyrir að sá sparnaður komi fram á árinu 1994.
    Auðvitað er hægt að spyrja sig að því hvort ástæða sé til að setja þetta inn í frv. núna en þar sem

þessi skerðing virkar íþyngjandi fyrir þá sem njóta þessarar ívilnunar þótti rétt að láta þetta fylgja frv. þannig að þeir sem geta átt að njóta slíkra bóta gætu vitað frá upphafi árs hvaða reglur giltu fyrir næsta ár í þessu sambandi. Þessi mál þarf hins vegar að skoða betur að mínu áliti í heild ásamt húsnæðiskerfinu og ríkisstjórnin mun á næsta ári marka þá stefnu að smám saman falli ríkisábyrgðin af húsbréfakerfinu niður. Í öðru lagi er ljóst að nauðsynlegt er að vextir hjá Byggingarsjóði ríkisins taki mið af innlánum til Byggingarsjóðsins og rekstri Húsnæðisstofnunar. Það á ekki að þurfa að hækka vexti byggingarsjóðsins mikið. Loks minni ég á að sú ákvörðun var tekin fyrr á þessu ári að hækka vexti í félagslega kerfinu úr 1% í 2,4%. Ég tel ástæðu til að skoða þessi mál öll samhliða og nefni það ekki síst vegna þess að öllum er ljóst að þetta kerfi og vextirnir í því hafa verulega þýðingu fyrir vaxtastig í landinu, fyrir alla aðila, ekki síst atvinnulífið.
    Þá sný ég mér að tekjuskatti lögaðila. Fyrirtæki hér á landi sæta að mörgu leyti lakari skattmeðferð en fyrirtæki í öðrum löndum. Þannig er skatthlutfall fyrirtækja hér á landi býsna hátt miðað við mörg lönd Evrópu og sama gildir um eignarskatta. Auk þess hefur uppsöfnun aðstöðugjalds í rekstri mikil áhrif á kostnað fyrirtækja og þar með á innlent verðlag. Loks má minna á að gjaldið legst misþungt á einstakar atvinnugreinar. Skatthlutfall segir þó ekki alla söguna um endanlega skattbyrði. Nýleg athugun á vegum OECD, þar sem leitast er við að meta heildarskattbyrði fyrirtækja, leiðir í ljós að hið skattalega umhverfi hér á landi er óhagstætt nýjum fyrirtækjum og fjárfestingum. Samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum hefur versnað enn frekar upp á síðkastið þar sem þróunin erlendis hefur verið í gagnstæða átt, þ.e. að skatthlutfall hefur farið lækkandi. Innlendir aðilar hafa því leitað til erlendra fyrirtækja í vaxandi mæli. Ég bendi hv. þm. á að á bls. 18 í grg. með frv. er tekjuskattshlutfall lögaðila í aðildarríkjum OECD fyrir árið 1992--1993 reifað og hirði ekki frekar um að lýsa því hér. Það sem verið er að gera í þessu sambandi er að breyta skatthlutföllum í hátt við það sem gerist og gengur í samkeppnislöndum okkar. Mun ég nú lýsa þessum breytingum í stuttu máli.
    Í fyrsta lagi lækkar tekjuskattshlutfall hlutafélaga úr 45% í 33%. Í fjárlagafrv. var miðað við að þessi breyting kæmi til framkvæmda í einum áfanga um næstu áramót. Hækkun á tekjuskattshlutfalli einstaklinga skapar hins vegar ákveðin vandamál í skattlagningu félaga þar sem við það verður talsverður munur á skattlagningu lögaðila, þ.e. hlutafélaga og sameignarfélaga annars vegar og einstaklingsrekstrar hins vegar. Þess vegna er lagt til að lækkun tekjuskatts komi til framkvæmda í tveimur áföngum, þannig að á næsta ári lækki hlutfallið úr 45% í 38% og á árinu 1994 í 33%. Jafnframt er gerður munur á skattlagningu sameignarfélaga og hlutafélaga þannig skatthlutfall sameignarfélaga lækkar í 41% á næsta ári. Með þessu gefst færi á að endurskoða gildandi lög um skattmeðferð einstakra félagsforma.
    Í þessu sambandi ber þess að geta að þegar þetta mál var rætt við hina færustu endurskoðendur var að sjálfsögðu bent á að ýmsir þeir sem starfa nú sem sjálfstæðir atvinnurekendur með lítil fyrirtæki gætu sem hægast breytt fyrirtækjunum í sameignarfélög og þannig í senn ákvarðað sér laun, mánaðarlaun, og hins vegar notið besta skatthlutfallsins. Þegar ég segi ákveðið sér mánaðarlaun þýðir það ekki að það sé það sem endanlega skattleggst því eins og allir vita er skattlagning einstaklinga í atvinnurekstri með sama hætti og launþega, þ.e. að til skatts kemur nettóhagnaður rekstrarins við uppgjör en staðgreiðslan miðast við reiknaðar tekjur eins og kunnugt er.
    Lækkun tekjuskatts fyrirtækja verður mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf hér á landi. Þetta á við um fyrirtæki sem þegar eru í rekstri, enda bætir hún fjárhagsstöðu þeirra og auðveldar þeim að færa út kvíarnar auk þess sem lækkunin örvar ótvírætt nýja fjárfestingu í atvinnulífinu hvort sem hún er hjá innlendum eða erlendum aðilum. Um það bil þriðjungur lögaðila í landinu, eða 3.300 fyrirtæki, greiðir tekjuskatt. Af þessu má ráða að lækkun tekjuskatts kemur til með að hafa víðtæk áhrif á allan atvinnurekstur. Ég vek athygli á því að það er þriðjungur sem greiðir tekjuskatt. Mörg fyrirtæki borga ekki tekjuskatt og því miður er svo komið í flestum sjávarútvegsfyrirtækjum að ekki verður séð að þau borgi tekjuskatt á þessari öld. Aðallega vegna þess að þau hafa safnað upp yfirfæranlegu skatttapi og geta þannig ávallt, þótt sæmilega ári, dregið uppsafnað tap frá tekjum viðeigandi árs.
    Í öðru lagi fellur niður heimild til að leggja 10% af hagnaði í fjárfestingasjóð. Jafnhliða lækkun skatthlutfalls hafa heimildir fyrirtækja til sjóðsmyndunar víðast hvar verið felldar niður í nágranna- og viðskiptalöndum okkar. Almennt er viðurkennt að þessar heimildir séu fyrst og fremst notaðar í skattalegu tilliti, þ.e. til að lækka eða fresta skattlagningum, og leiði jafnvel til þess að fyrirtæki ráðist í fjárfestingar án tillits til arðsemi. Því er eðlilegt að fella þessa heimild niður um leið og skatthlutfallið er lækkað. Gert er ráð fyrir að þetta komi til framkvæmda við álagningu 1993 en breytir ekki réttindum þeirra fyrirtækja sem þegar hafa lagt fjármuni í fjárfestingasjóði. Þess vegna fjarar þetta út á, að mig minnir, fimm árum frekar en fjórum.
    Í þriðja lagi lækkar frádráttur úthlutaðs arðs úr 15% í 10% af nafnverði hlutafjár. Skattaleg meðferð arðs er nokkuð breytileg samkvæmt gildandi skattalögum. Þannig er fyrirtækjum heimilt að draga allt að 15% af nafnverði hlutafjár frá tekjum áður en til skattlagningar kemur. Hlutfallið var reyndar hækkað úr 10% fyrir nokkrum árum til að greiða fyrir uppbyggingu hlutafjáreignar í fyrirtækjum.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta en þetta ákvæði var hækkað fyrir nokkrum árum. Sá sem hér stendur var reyndar flm. þeirrar tillögu og náði henni fram með ágætri hjálp forvera míns, hv. 8. þm. Reykn. En á þetta ásamt ívilnun vegna hlutafjárkaupa var ávallt litið sem tímabundna aðgerð á meðan verið væri að koma á verðbréfa- og hlutabréfamarkaði. Ljóst er að þegar slíkur markaður er kominn á ganga bréfin kaupum og sölum og þannig getur hagnaðurinn myndast hjá viðkomandi einstaklingum án þess að fjármunir séu teknir út úr viðkomandi fyrirtækjum. Reyndar tel ég ástæðu til að minnast á að heppilegt kynni að vera að breyta lögum jafnframt, þótt ekki sé gert ráð fyrir því í þessu frv., á þann veg að aðeins ný hlutabréf njóti frádráttarins en ekki gömul hlutabréf til að koma í veg fyrir að hlutabréf sem ganga aftur og aftur kaupum og sölum geti sífellt myndað skattfrádrátt við hverja sölu.
    Miðað við núgildandi reglur felst tiltekin ívilnun í tekjuskattslagningu arðs hjá einstaklingum. Eignarskattslagning hlutafjár dregur hins vegar verulega úr þessari ívilnun enda er þar um tvísköttun að ræða. Þótt nokkur rök hnígi að því að draga úr þessari ívilnun hjá einstaklingum er nauðsynlegt að skoða allar breytingar á þessu sviði í tengslum við hugsanlegar breytingar á skattlagningu eigna og/eða eignatekna. Þetta segi ég að sjálfsögðu vegna þess að í dag eru mismunandi reglur um skattlagningu arðs annars vegar og vaxta hins vegar. Þannig njóta þeir sem lána fyrirtækjum í gegnum banka þeirra fríðinda að vera skattlausir en hinir sem leggja fram áhættufé beint í fyrirtækin verða samkvæmt grundvallarreglunni að greiða skatta af arðinum þótt um skattfríðindi sé að ræða innan ákveðinna marka.
    Þá má nefna að heimildir einstaklinga til skattafsláttar vegna hlutabréfakaupa verða þrengdar í áföngum. Þessar heimildir voru upphaflega settar inn í skattalögin til að örva hlutabréfakaup. Verulegur árangur hefur náðst í þeim efnum. Í frv. er gert ráð fyrir að draga úr þessari ívilnun í áföngum á fimm árum.
    Svipaðar breytingar verða á heimildum sem verið hafa í lögum til að draga innlegg á húsnæðissparnaðarreikningum frá tekjuskatti. Þróunin í húsnæðislánakerfinu undanfarin ár hefur dregið úr gildi þessa fyrirkomulags sem sérstakrar sparnaðarráðstöfunar vegna íbúðarkaupa. Jafnframt eru þessir reikningar í vaxandi mæli notaðir sem almennt sparnaðarform sem óeðlilegt er að ívilna með þessum hætti.
    Einn kafli frv. fjallar um breytingu sem er gerð á embætti ríkisskattstjóra þar sem um er að ræða að skattrannsóknarstjóri verður sjálfstæður og kallast skattrannsóknarstjóri ríkisins.
    Á síðustu árum hafa kröfurnar um fullkominn aðskilnað úrskurðarvalds og framkvæmdarvalds aukist mjög eins og sýnir sig í lögfestingu aðskilnaðar dómsvalds og framkvæmdarvalds sem gildi tók 1. júlí sl. Sú staðreynd að skattrannsóknarstjóri stýrir deild sem heitir rannsóknardeild ríkisskattstjóra hefur m.a. valdið því að í huga almennings er ekki greint nægjanlega milli ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra. Þá gefur athugasemd í nýlegum dómi Hæstaréttar um að rannsóknardeild ríkisskattstjóra og embætti ríkisskattstjóra séu ein og sama ríkisstofnunin tilefni til að ætla að aðskilnaður milli ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra sé ekki talinn nægjanlega mikill. Af þessum sökum er nauðsynlegt að settar verði skýrari reglur um þennan aðskilnað.
    Af ýmsum ástæðum sem raktar eru mjög rækilega í athugasemdum með frv. virðist heppilegast að skatteftirlitshlutverk það sem skattrannsóknarstjóra er ætlað í lögum sé flutt frá honum til ríkisskattstjóra ásamt þeim verkefnum sem lúta að eftirliti með skatteftirlitsstörfum skattstjóra. Tillögur um það eru gerðar í frv. þessu.
    Nái þessar tillögur fram að ganga verður skatteftirlit í höndum skattstjóra undir verkstjórn og eftirliti ríkisskattstjóra. Settar verða nánari reglur um störf skattstjóra og ríkisskattstjóra en ekki er talið heppilegt að binda slíkar reglur í lögum. Þá er gerð tillaga um að rannsóknardeild ríkisskattstjóra verði lögð niður en í stað hennar sett á fót ný sjálfstæð stofnun með eigin fjárhag. Hið nýja embætti, skattrannsóknarstjóri ríkisins, fari samkvæmt þessu með rannsóknir út af brotum á skattalögum en um skatteftirlit fari eins og ég gat um áðan. Gert er ráð fyrir að fjmrh. setji nánari reglur um framkvæmd skattrannsókna.
    Samhliða þessum breytingum á lögum um tekjuskatt og eignarskatt varðandi skattrannsóknarstjóra eru lagðar til breytingar á virðisaukaskatti, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um yfirskattanefnd til að samræmi sé í lögunum. Ég vísa að öðru leyti til athugasemda með frv.
    Þá kem ég næst að breytingum sem lagt er til að gerðar verði á lögunum um virðisaukaskatt. Helstu breytingar á virðisaukaskatti sem felast í frv. eru annars vegar fækkun undanþága frá skatti og hins vegar það að taka upp sérstakt 14% skattþrep. Hér er að verulegu leyti fylgt þeirri stefnu sem fólst í fjárlagafrv. þó með þeirri breytingu að nú er gert ráð fyrir að almenna skatthlutfallið verði óbreytt til að standa straum af auknum útgjöldum ríkissjóðs vegna greiðslna til sveitarfélaga, framlaga til framkvæmda o.fl.
    Ef lýst er núgildandi kerfi kemur í ljós að verulegar breytingar hafa orðið á íslenska virðisaukaskattskerfinu frá því sem stefnt var að í upphafi. Upphaflegar hugmyndir voru að taka upp almennan skatt í einu þrepi með sem fæstum undanþágum. Með því móti var talið unnt að lækka skatthlutfallið frá því sem gilti í söluskattskerfinu. Þegar skatturinn var lagður á í ársbyrjun 1990 höfðu þessar hugmyndir tekið verulegum breytingum sem fólu í sér fráhvarf frá því sem gildir í flestum nágrannalöndum að þrennu leyti.
    Í fyrsta lagi var skatthlutfallið hér á landi mun hærra en upphaflega var áformað, eða 24,5%, en það er næsthæsta hlutfall í Evrópu á eftir Danmörku og Svíþjóð þar sem hlutfallið er 25%.
    Í öðru lagi eru undanþágur hér á landi víðtækari og skattstofninn því rýrari en að var stefnt. Þannig eru bækur, blöð, húshitun, afnotagjald útvarps og sjónvarps, menningarstarfsemi, tómstundaiðkun, hótelgisting, vinna við íbúðarhúsnæði og fólksflutningar undanþegin skatti hér á landi en skattlögð víða annars staðar. Þetta leiðir til þess að hér á landi eru aðeins tveir þriðju hlutar af útgjöldum heimilanna með virðisaukaskatti en hlutfallið er mun hærra í flestum ríkjum Evrópubandalagsins, eða yfirleitt 80--90%.
    Í þriðja lagi jafngildir mikill fjöldi undanþága innan kerfisins því að um tvö skatthlutföll sé að ræða

í dag, þ.e. 0% annars vegar og 24,5% hins vegar. Ég vil taka það fram að þótt hér sé talað um 14% þá felst ekki önnur stefna í því en þessi ákvörðun ein og sér. Síðan verður það að ráðast af framhaldinu og síðari tímum hvort menn vilja einhvern tímann síðar stefna að einu skatthlutfalli í framtíðinni. Ég vil þó geta þess að mér sýnist þróunin til að mynda í Evrópubandalagslöndunum vera sú að skatthlutföllin séu tvö.
    Öll þessi atriði sem ég nefndi fyrr vinna gegn upphaflegum markmiðum enda almennt viðurkennt að hátt skatthlutfall, mikill fjöldi undanþága og víðtækar endurgreiðslur dragi úr skilvirkni skattsins, torveldi skatteftirlit og stuðli að undanskotum. Jafnframt er það viðhorf enn í fullu gildi að frá sjónarhóli skatteftirlits og skilvirkni er heppilegast að hafa einungis eitt skattþrep líkt og var í upphaflegu tillögunum.
    Rétt er að vekja athygli á því að í núgildandi kerfi eru tvenns konar undanþágur. Annars vegar eru atvinnugreinar sem liggja alveg utan kerfisins eins og t.d. menningarstarfsemi og hótelgisting. Þessar greinar verða ekki skattskyldar og njóta ekki frádráttar vegna virðisaukaskatts, þ.e. innskatts, sem þær greiða af rekstrinum. Hins vegar eru greinar sem í senn eru skattfrjálsar en njóta jafnframt frádráttar vegna innskatts. Þar nefni ég hitaveitur, blöð og útvarp sem dæmi. Þessar greinar eru þess vegna í reynd í núllskatti í dag. Afnám undanþága kemur því mismikið við starfsemi þessara atvinngreina.
    Þá er rétt að hafa í huga að í gildandi kerfi er víða blandaður rekstur þar sem hluti af starfsemi einstakra fyrirtækja er skattskyldur en annað ekki. Dæmi eru flugfélög þar sem vöruflutningar eru skattskyldir en fólksflutningar ekki. Reyndar get ég bætt ferjum við í þessu sambandi.
    Annað dæmi eru hótel þar sem veitingastarfsemin er skattlögð en gisting ekki. Við ríkjandi aðstæður er að sjálfsögðu mjög erfitt að skilja á milli þessara þátta og það torveldar allt skatteftirlit.
    Af þessu má ráða að gild rök eru fyrir því að fækka verulega undanþágum. Þar með koma fleiri aðilar til skattlagningar en áður sem aftur getur stuðlað að betri skilum á öðrum sviðum, t.d. í tekjuskatti. Einnig aukast möguleikar á eftirliti með innskattsfrádrætti í blönduðum rekstri. Helstu breytingar sem felast í frv. eru þessar:
    Undanþágur virðisaukaskatts af bókum, blöðum, tímaritum, húshitun og afnotagjöldum útvarps og sjónvarps falla niður. Þessar greinar hafa hingað til ekki innheimt virðisaukaskatt af seldri þjónustu en hafa engu að síður fengið endurgreiddan innskatt af aðföngum. Greinar, sem hingað til hafa legið utan virðisaukaskattskerfisins, svo sem hótel, gistihúsarekstur og fólksflutningar, fara í 14% þrepið. Með þessari breytingu fá þessar greinar endurgreiddan innskatt sem þær fá ekki í dag. Vinna iðnaðarmanna við íbúðarhúsnæði verður áfram skattskyld en endurgreiðslur virðisaukaskatts miðast við 60% af skattgreiðslu í stað 100% áður. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að þessar breytingar komi til framkvæmda í áföngum. Með þessu er tekið tillit til athugasemda við fyrri hugmyndir þar sem miðað var við gildistöku um áramótin. Þetta á sérstaklega við um ferðaþjónustu en einnig að nokkru leyti um bækur, tímarit og aðra fjölmiðla.
    Fyrsti áfangi kemur til framkvæmda 1. jan. 1993 og tekur til sölu á heitu vatni, rafmagni og olíu til hitunar húsa. Til þess að draga úr áhrifum virðisaukaskatts á húshitunarkostnað verður hluti skattsins endurgreiddur þannig að skatturinn fari aldrei fram úr tilteknu hámarki sem tekur mið af meðaleiningarverði í húshitun á landinu öllu. ( Gripið fram í: Er það til?) Það er spurt að því hvort það sé til og því er til að svara að í iðnrn. hefur frá --- ég ætlaði nú að segja frá ómunatíð en um nokkurra ára bil hefur verið safnað saman nokkuð góðum upplýsingum um það hvert orkuverð er í landinu og þá er miðað við krónur á kílóvattstund. Þetta er eins og margir vita erfiður útreikningur því að vatn er auðvitað misheitt og ýmislegt annað sem gerir það að verkum að það er erfitt að samræma einingarnar í þessu sambandi. Ástæðan fyrir þessum útreikningi, sem hefur átt sér stað nokkuð mörg ár, er sú viðmiðun við olíuhitun sem notuð hefur verið vegna niðurgreiðslna á raforku til húshitunar. Ég vil hins vegar segja að það kerfi sem hér er notað til jöfnunar orkuverðs er sama kerfi og er notað þegar söluskattur er endurgreiddur vegna matvæla sem framleidd eru hér á landi, svo sem búvara, dilkakjöts, mjólkur, fisks og fleiri vörutegunda. Þetta gerist með þeim hætti að til þess að tryggja að þeir sem greiða hæstan grunnkostnaðinn í orkuverðinu greiði ekki að sama skapi háan skatt. Niðurstaðan sem er í frv. er á þá leið að engin hitaveita né rafmagnsveita greiðir hærri skatt miðað við núverandi verðlag en 13,2 aura á kílóvattstund. Þetta kemur auðvitað mjög misjafnlega niður en til þess að lýsa þessu má geta þess að allar ódýrari hitaveiturnar bera skattinn að fullu, þar á meðal Hitaveita Reykjavíkur og greiða þess vegna þeir sem eru á hitaveitusvæði Reykjavíkur 14% ofan á það gjald sem þeir greiða fyrir heitt vatn í dag, en til samanburðar má geta þess fyrir Orkubú Vestfjarða, ef það er tekið allt saman, þá er verið að tala um alla rafhitasöluna í einu lagi, mun skatthlutfallið vera 4,47% ofan á orkuverðið. Með öðrum orðum munu þeir sem búa við rafhitun á Vestfjörðum, ekki við kynntar veitur, greiða 4,47% á sama tíma og Reykvíkingar greiða 14%. Þetta er auðvitað gert vegna þess að grunnkostnaðurinn víðast hvar þar sem ekki er um að ræða ódýrar hitaveitur er mun hærri heldur en á svokölluðum heitum svæðum. ( Gripið fram í: Þýðir það á báðum stöðum 13,2 aurar?) Það þýðir í reynd á báðum stöðum 13,2 aurar. Það vill svo til án þess að ég skýri það frekar.
    Til þess að taka einhver dæmi þá hygg ég að í íbúðarhúsnæði eins og einbýlishúsi sem er t.d. rúmlega 120 fermetrar, tæplega 500 rúmmetrar, þá gæti ég ímyndað mér að meðalhitakostnaður á Vestfjörðum sé tæplega 100 þús. Þá yrði árleg viðbót um 4.400 kr. til þess að nefna einhverja viðmiðunartölu og svo deilist það auðvitað niður á mánuðina. Þetta er gert til þess, eins og augljóst er, að koma í veg fyrir það að þeir sem búa við hæst orkuverð greiði hlutfallslega jafnháan skatt og aðrir. Þótt auðvitað sé hér um að ræða hækkun á orkuverði er þó um nokkra jöfnun að ræða og sem gamall iðnrh. þekki ég vel til

þess hve viðkvæmur samanburðurinn er í þessum efnum.
    Þá vil ég geta þess að strax við upphaf árs er gert ráð fyrir því að endurgreiddur virðisaukaskattur vegna vinnu iðnaðarmanna við íbúðarhúsnæði verði lækkaður úr 100% í 60%.
    Næsti áfangi kemur til framkvæmda samkvæmt frv. 1. júlí 1993 og þá er gert ráð fyrir að afnotagjöld útvarps- og sjónvarpsstöðva verði skattskyld með 14% virðisaukaskatti. Frá sama tíma verði sala tímarita, dagblaða, landsmálablaða og héraðsfréttablaða, svo og sala bóka á íslenskri tungu felld undir 14% virðisaukaskatt. Með þessu eru útvarps- og sjónvarpsstöðvar jafnsettar gagnvart öðrum fjölmiðlum, svo sem dagblöðum.
    Þriðji áfangi kemur til framkvæmda 1. jan. 1994. Þá verður 14% virðisaukaskattur lagður á ferðaþjónustu, þ.e. hótelgistingu og fólksflutninga. Með þessari tímasetningu er ferðaþjónustu gefinn nokkur aðlögunartími. Jafnframt er einstökum fyrirtækjum í þessum greinum gefinn kostur á að koma fyrr inn í kerfið ef þau óska sérstaklega eftir því, t.d. í því skyni að fá endurgreiddan innskatt vegna fjárfestingar o.fl. Til þess að draga úr áhrifum þessarar skattlagningar á ferðaþjónustu hefur jafnframt verið ákveðið að lækka tryggingagjald af ferðaþjónustu eins og ég hef áður sagt úr 6% í 2,5% á sama tíma. Með þessu er dregið verulega úr áhrifum álagningar virðisaukaskattsins.
    Áfram verða ýmsar greinar undanþegnar skattlagningu, svo sem íþrótta- og menningarstarfsemi, heilbrigðisþjónusta, ýmis félagsleg þjónusta, skólar, fjármálaþjónusta, getraunastarfsemi og vátryggingastarfsemi. Þær tillögur sem hér eru lagðar fram eru að þrennu leyti frábrugðnar þeim hugmyndum sem kynntar voru með efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar.
    Í fyrsta lagi er gert er ráð fyrir skattlagningu afnotagjalda útvarps- og sjónvarpsstöðva sem komi til framkvæmda um mitt ár á sama tíma og hjá öðrum fjölmiðlum í stað áramótanna.
    Í öðru lagi hefur gildistaka skatts á ferðaþjónustu verið færð frá september 1993 til áramótanna 1993--1994.
    Í þriðja lagi er gert er ráð fyrir nokkru hærri fjárhæð til jöfnunar húshitunarkostnaðar en fyrr var reiknað með.
    Með þeim breytingum sem felast í þessu frv. er stigið veigamikið skref í átt til þess sem upphaflega var áformað með því að undanþágum verði fækkað verulega í virðisaukaskattskerfinu. Það hefði verið æskilegast að skattleggja allar vörur og þjónustu að mínu viti í einu og sama þrepinu og ná skatthlutfallinu niður í 20% en ekki var eins og ég hef áður sagt ástæða til þess að taka svo stórt skref. Reyndar er ég ekki að tala þar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar þegar ég lýsi því sem persónulegri skoðun að það væri heppilegra skattkerfisins vegna að hafa eitt skatthlutfall.
    Næst mun ég víkja að tryggingagjaldinu. Í þessu frv. eru lagðar til þrenns konar breytingar á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald. Tryggingagjald er lagt á í tveimur gjaldflokkum, sérstökum og almennum. Tryggingagjald í sérstökum gjaldflokki er 2,5% af gjaldflokknum og í sérstökum gjaldflokki eru atvinnugreinar sem flokkast undir fiskveiðar, iðnað og landbúnað. Í almennum gjaldflokki er gjaldið 6%. Í almennum gjaldflokki eru allar aðrar gjaldskyldar atvinnugreinar, þar á meðal ferðaþjónusta. Hér er lagt til að tiltekin ferðaþjónusta verði felld undir sérstaka gjaldflokkinn. Með ferðaþjónustu í þessu sambandi er átt við hótel- og gistiþjónustu, þjónustu ferðaskrifstofa, veitingastarfsemi og fólksflutninga, þar með eru taldar bílaleigur. Hins vegar mun önnur starfsemi tengd ferðaþjónustu áfram falla í almenna gjaldflokkinn og þess skal getið að leigubílar falla utan kerfisins samkvæmt þessu frv. þannig að sama kerfið gildir áfram um þá. Þeir borga hvorki útskattinn né fá notið innskattsins.
    Í öðru lagi er lagt til að skattstofn tryggingagjalds verði breikkaður með því að gera greiðslur vinnuveitenda í lífeyrissjóð umfram 6% af launum tryggingagjaldsskyldar og í þriðja lagi að greiðslur ökutækjastyrkja séu einnig gjaldskyldar. Þetta hefur ekkert með skattlagningu einstaklinga að gera heldur er verið að breikka lítils háttar tryggingagjaldsstofninn sem er laun vegna þess að nokkur brögð eru að því, sérstaklega í hálaunahópunum, að atvinnurekandi tekur að sér að greiða meira en 6% í lífeyrissjóð og oft í þá frjálsu lífeyrissjóði sem í raun og veru eru bankabækur til elliáranna sem hægt er að taka að fullu út úr þá. Það þótti eðlilegt að slíkar greiðslur féllu undir tryggingagjaldstofninn þegar fyrirtækin standa skil á tryggingagjaldi til ríkissjóðs.
    Þá kem ég að ákaflega miklu uppáhaldi mínu sem er sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði var lagður fyrst á 1979. Skatturinn hefur síðar verið lagður á árlega samkvæmt sérstökum lögum. Í endurskoðaðri tekjuáætlun fyrir 1992 er áætlað að innheimtar tekjur af skattinum verði 440 millj. kr. en í frv. til fjárlaga 435 millj. kr. á næsta ári. Í þessu frv. er lagt til að ákvæði laganna verði að mestu efnislega samhljóða en þó er sú breyting gerð að opinberir fjárfestingarlánasjóðir eru gerðir skattskyldir í samræmi við breytingar þær sem gerðar voru fyrr á árinu á lögum nr. 65/1982, um skattskyldu innlánsstofnana. Þess skal getið að í fyrra þegar þetta mál var rætt, þá lýsti ég því yfir að þessi skattur mundi hverfa þegar fjármagnstekjuskattur yrði tekinn upp. Á því er frestur þannig að þetta mál frestast, en þess ber að geta að þau fyrirtæki, sem greiða hæst aðstöðugjald, eru sömu fyrirtækin og borga verslunar- og skrifstofuhúsnæðisskatt þannig að sú lækkun sem verður til fyrirtækjanna af því er margfalt meiri en nemur þessum skatttekjum.
    Þessu næst vil ég víkja að húsnæðissparnaðarreikningunum. Í frv. er lagt til að þær breytingar verði gerðar að skattafslátturinn verði færður niður í þrepum og afnuminn á árinu 1997.

    Í þessu frv. er loks ákvæði um yfirskattanefnd þar sem slakað er nokkuð á kröfu þeirri sem gerð var í lögum, sem sett voru fyrr á þessu ári, um yfirskattanefnd og teygt á þeim fresti sem yfirskattanefnd var gefinn. Ég vísa til greinargerðarinnar um það en þess ber þó að geta að það hefur saxast mjög á bunkann hjá yfirskattanefnd en þar biðu mörg hundruð mál, má telja í þúsundum mála sem höfðu safnast upp og nú er gengið mjög á þann stafla sem betur fer.
    Ég kemst ekki hjá því að segja að gefnu tilefni að í frv. er ákvæði þess efnis að fjmrh. getur sett reglur um það að sambærileg verðlaun Norðurlandaráðsverðlaununum geti verið skattfrjáls enda séu þau verðlaun Norðurlandaverðlaun. Ég vil nefna sem dæmi um þetta þegar Thor Vilhjálmsson rithöfundur fékk verðlaun sænsku akademíunnar fyrir þau verk sem hann hefur unnið í gegnum tíðina. Engin lagaákvæði eru í íslenskum skattalögum sem gefa tilefni til þess að ráðherra geti veitt undanþágu heldur verður að flytja frv. í hvert skipti og ná þessu fram með lögum. Með þessari breytingu gefst tækifæri til þess að semja reglugerð sem næði til slíkra verðlauna og við það er auðvitað miðað að sama gildi um þessi verðlaun annars staðar á Norðurlöndum.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, segja nokkur orð almennt um frv. og efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Eins og öllum er kunnnugt hafa þessar efnahagsaðgerðir verið talsvert gagnrýndar af Alþýðusambandi Íslands og nokkrum öðrum aðilum á undanförnum vikum. Mér þykir þess vegna ekki úr vegi að rifja upp í fáeinum orðum þær tillögur sem voru til umræðu á vegum aðila vinnumarkaðarins en þær hugmyndir má m.a. rekja til Alþýðusambandsins. Í þeim hugmyndum var lagt til að aðstöðugjald af fyrirtækjum yrði lagt af en skattbyrðin færðist yfir á einstaklinga. Þá var lagt til að hækka reiknaðar tekjur sjálfstæðra atvinnurekenda, einnig að leggja á hátekjuskatt, að efla þróunar- og rannsóknarstarf, lækka bindiskyldu banka, lækka dráttarvexti og að lokum að taka á vanda sjávarútvegs. Öll þessi atriði er að finna í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar en til viðbótar var rætt um það á vegum aðila vinnumarkaðarins og þá sérstaklega að tilhlutun Alþýðusambandsins að færa tryggingagjald niður og lækka hafnagjöld. Jafnframt skyldi lagður 15% skattur á vexti og bifreiðagjöld hækkuð verulega eða um 50%. Þessum tillögum var ýtt út af borði ríkisstjórnarinnar, einkum og sér í lagi í ljósi þess að gripið var til gengisfellingar til þess að styrkja útflutningsgreinarnar. Þessu til viðbótar má benda á að í hugmyndum Alþýðusambandsins var lögð áhersla á aukið skatteftirlit. Komið er verulega til móts við þessi sjónarmið í frv. en jafnframt vil ég geta þess að starfandi er nefnd stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem vinnur að því að gera tillögur um það hvernig koma megi í veg fyrir skattsvik hér á landi.
    Við fyrstu sýn virðast skattar hækka verulega í efnahagstillögum ríkisstjórnarinnar. Þegar hins vegar er litið á heildarskattheimtu ríkissjóðs og tekið er tillit til endurgreiðslna til sveitarfélaganna vegna tekjumissis þeirra og nýrra útgjalda til viðhaldsverkefna verða áhrif aðgerðanna á niðurstöðutölur fjárlaganna mjög litlar. Þetta stafar m.a. af veltuáhrifum aðgerðanna. En samvæmt spá Þjóðhagsstofnunar mun minnkandi útflutningur draga verulega úr viðskiptahalla. Þannig mun einkaneysla draga úr tekjum ríkissjóðs á sama tíma og útgjöld ríkissjóðs munu aukast vegna hærra innflutningsverðlags. Enginn vafi er á því að efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar munu styrkja samkeppnisaðstöðu íslenskra fyrirtækja og hamla einnig gegn auknu atvinnuleysi. Ég kemst þó ekki hjá því að benda á að fram undan eru hættuboðar sem full ástæða er til að varast.
    Í fyrsta lagi vil ég láta koma fram að þrátt fyrir allan niðurskurðinn, allan hávaðann sem hefur orðið vegna sparnaðartilrauna ríkisstjórnarinnar er ljóst að samneyslan mun vaxa á næsta ári. Þessu valda aðallega aukin framlög til málefna fatlaðra, til dómstóla og vegna aukinna útgjalda í heilbrigðis- og tryggingakerfinu og þá virðist vöxtur vera talsverður í rekstri sveitarfélaganna.
    Í öðru lagi vil ég láta koma fram að mér sýnast nýjar aðstæður gera það að verkum að áætluð útgjöld í fjárlagafrv., eins og það var lagt fram í haust, munu verða heldur meiri en ráð var fyrir gert.
    Í þriðja lagi hlýtur það að vera öllum hugsandi mönnum áhyggjuefni hve miklar ríkisábyrgðir hafa hlaðist upp á undanförnum árum, einkum í sjóðakerfinu og ber að minnast á það að þessar ríkisábyrgðir hafa haft það í för með sér að ýmsar skuldbindingar, sem hafa hvílt á þessum sjóðum, hafa verið að færast yfir á ríkissjóð og mynda auðvitað smám saman stokk af skuldum sem skattgreiðendum er ætlað að greiða. Í yfirstandandi efnahagserfiðleikum er viðbúið að verulegar fjárskuldbindingar muni falla á ríkissjóð á næstu árum.
    Í fjórða lagi ber að benda á að samkvæmt reynslu nágrannaþjóðanna í erfiðu efnahagsárferði er hætta á að fjárveitingavaldið og stjórnvöld vanmeti áhrif erfiðleikanna á ríkissjóð. Slík dæmi eru nærtæk hjá frændum okkar Færeyingum og þeim fjarskyldari í Svíþjóð og Finnlandi.
    Þrátt fyrir allt sýnist mér augljóst að áfram verðum við að takast á við sívaxandi útgjöld ríkissjóðs og megum hvergi slaka á í þeim efnum. Ár eftir ár var hagvöxtur ör hér á landi. Þrátt fyrir það söfnuðust upp erlendar skuldir. Nú þegar landsframleiðsla dregst saman, ekki í eitt ár heldur tvö eftir stöðnunartímabil er auðvelt að missa ríkisfjármálin úr böndum. Samþykkt fjárlaga rétt fyrir jól ár hvert markar auðvitað tímamót í átökunum við ríkisfjármálin en við verðum að gera okkur ljóst að baráttan verður að standa allt árið. Ef við gefumst upp þýðir það einfaldlega að við erum að ýta vandamálunum á framtíðina án þess að hafa nokkra vissu fyrir því að börn okkar og barnabörn hafi betri tök eða meiri efni á að leysa vandann sem við skópum með umframeyðslunni. Þetta bið ég hv. þm. að hafa í huga við umræður um málið og eins við afgreiðslu í hv. nefnd.

    Að svo mæltu, hæstv. forseti, legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.