Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 15:29:38 (3138)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þó að þetta mál sem hér er á dagskrá sé að sjálfsögðu veigamesta frv. sem tengist efnahagsaðgerðum og efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar og mætti fjalla um það í almennu samhengi þá ætla ég aðallega að halda mig við bein áhrif af hinum einstöku breytingum á skattalögum sem hér eru á ferðinni, enda er þar af nógu að taka. Í öðru lagi er það að þessar efnahagsráðstafanir hafa þegar verið ræddar í almennu samhengi og sjónarmið mín í þeim efnum hafa þegar komið fram, þar á meðal það að þessar ráðstafanir muni duga mönnum skammt, því miður, og gengisfellingaraðgerð hæstv. ríkisstjórnar með þessum viðhengjum muni ekki reynast varanleg aðgerð til lausnar aðsteðjandi vanda.
    Það er engu að síður svo, hæstv. forseti, að ég tel það ekki alveg vansalaust að hér skuli ekki vera fleiri hæstv. ráðherrar til að fylgjast með þessari umræðu. Ég hefði talið ærna ástæðu til að viðstaddir væru t.d. hæstv. forsrh. sem hann á að heita yfir efnahagsmálum ríkisstjórnar eða þannig hefur það a.m.k. verið í stjórnarráðinu fram að þessari ríkisstjórn, sem og hæstv. félmrh. og heilbrrh. sem tengjast þessum málum með ýmsum hætti þó þau séu á forræði hæstv. fjmrh. sem hér mælir fyrir frv. Ég vil því spyrja hæstv. forseta hvort það hafi verið athugað hvar þessir hæstv. ráðherrar haldi sig þegar þetta aðalfrumvarp efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar er til umræðu. Sömuleiðis teldi ég þarft fyrir hv. formann efh.- og viðskn. að heiðra okkur með nærveru sinni hér. Hann er að vísu upptekinn maður og gegnir víða skyldum, eins og kunnugt er, en ég tel það ekki til að greiða fyrir framgangi máls af þessu tagi að formaður viðkomandi nefndar, sem á fyrir höndum mikið starf við þetta, skuli ekki láta sjá sig við umræðuna og hlýða á þau sjónarmið ræðumanna sem hér koma fram og taka niður hjá sér athugasemdir eða spurningar sem vakna við yfirferð á málinu. Ef hv. formaður efh.- og viðskn., sem er hinn mætasti maður og dugnaðarforkur, hefur áhuga á því að spara sér tíma ætti endilega að gera honum viðvart um að þessi umræða sé hér á dagskrá og fari nú fram. ( Forseti: Forseti vill upplýsa að hæstv. forsrh. mun vera veikur. Forseti mun gera hv. formanni efh.- og viðskn. viðvart.) Það er spurning hvort hæstv. heilbrrh. er ekki sæmilega heilsuhraustur eins og þær konur sem eru að ala börn. Hann hefur gert það ódauðlegt að þær séu yfirleitt á besta aldri og heilsuhraustar.
    Ég hefði talið, hæstv. forseti, að það væri eðlilegt að byrja á ákveðnum umræðum um fáein grundvallaratriði varðandi skattastefnu í landinu þegar frv. birtist hér og það að gefnu tilefni, ekki bara nú á þessu þingi heldur líka frá síðasta þingi. Það sem ég vil ræða við hæstv. ríkisstjórn er í fyrsta lagi: Er það orðin alveg fastmótuð stefna hjá hæstv. ríkisstjórn að reka sértæka skattastefnu, að byggja fjáröflun sína á sértækri skattlagningu einstakra hópa í landinu en ekki almennum skattareglum? Það er auðvitað þannig að aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum eru með þeim endemum, ef svo má að orði komast, að þær eru sértækar í öfuga átt. Almennt er það þannig að ef fólki finnst yfir höfuð ástæða til að hafa sértæk ákvæði í skattalöggjöf og víkja frá hinum almennu, þ.e. að hverfa að einhverju leyti frá því að almennar prósentur gildi fyrir alla, er yfirleitt rökstuðingurinn fyrir þeim sértæku ráðstöfunum að það sé nauðsynlegt af tekjujöfnunarástæðum eða vegna þess að aðstæður fólks séu svo mismunandi að það þurfi að vega það upp með einhverjum hætti svo sem með persónufrádrætti og ýmsum slíkum ráðstöfunum gagnvart tekjulægri hópum en hátekjuþrepi gagnvart þeim tekjuhærri. En hvað er hæstv. ríkisstjórn að gera hér? Hún er að fara enn lengra út á braut sértækrar fjáröflunar fyrir ríkissjóð með viðbótarskattlagningu, álögum á barnafjölskyldur, á þá sem hafa verið að koma yfir sig húsnæði, á þá sem eru svo óheppnir að eiga börn utan hjónabands og þurfa að greiða með þeim o.s.frv. Ég held að það þurfi að fást einhver botn í það hvort það er meðvituð útfærð stefna hjá hæstv. ríkisstjórn að velja sér sérstaka markhópa af þessu tagi og skattpína þá eða er þetta bara einhver aulagangur og handabakavinnubrögð í hugsunarleysi? Ég held að það allra alvarlegasta við þessar ráðstafanir sé að þarna er ítrekað verið að þjarma svo mjög að sömu aðilunum, e.t.v. án þess að menn hafi gert sér grein fyrir heildaráhrifunum að það geti stefnt í mikið óefni.
    Ég hef, hæstv. forseti, aðeins reynt að átta mig á því hvernig þetta gæti komið út fyrir dæmigerða þolendur í þessu sambandi. Ég hef t.d. tekið barnafjölskyldu, hjón með meðaltekjur eða ríflega meðaltekjur sem þrjú börn og þar af eitt undir 7 ára aldri. Þau hafa nýlega ráðist í öflun íbúðarhúsnæðis og eru með allmikinn vaxtakostnað, kannski 300 þús. kr. Ég mun fara betur yfir þetta dæmi á eftir en til að gera langt mál stutt í byrjun er mín útkoma sú að þegar svona hópur er tekinn og þessar skattahækkanir og skertu bætur allar lagðar saman gagnvart honum sem og reynt að meta áhrif verðlagshækkana og kaupmáttarskerðingar á næsta ári, þ.e. minni ráðstöfunartekjur heimilanna sem stafa af öðrum ástæðum en skattabreytingum eru lagðar við, þá sé líklega á ferðinni 200--250 þús. kr. skerðing á slíkri dæmigerðri fimm manna fjölskyldu. Það þýðir 7--10% kjaraskerðingu á næsta ári sem af þessum ástæðum stafar. Ég mun síðar, þegar ég hef rennt yfir hinar einstöku skattabreytingar, gera grein fyrir þessu dæmi. Mér væri mikil ánægja að því ef hæstv. fjmrh. gæti sannað það fyrir mér að þetta væri ofmat en því miður óttast ég hið gagnstæða. Ég er með reiknivél í vasanum og við getum farið í þessa æfingu hér, ég og hæstv. fjmrh., ef á þarf að halda og forseti leyfir svona skoðanaskipti. Ég vil jafnframt upplýsa það að ég mun ekki taka þátt í afgreiðslu þessa máls út úr efh.- og viðskn. fyrr en nokkuð tæmandi upplýsingar hafa komið fram um það

hvernig þessar breytingar koma við hina einstöku tekjuhópa, barnafjölskyldurnar, þá sem hafa byggt eða keypt húsnæði o.s.frv. á síðustu árum.
    Það er gersamlega óþolandi að mál séu lögð fyrir Alþingi eins og hér er gert í frv. sem er handónýtt hvað fylgiskjöl snertir. Ef þetta eiga að kallast boðleg vinnubrögð við undirbúning skattlagningar í landinu, þá er illa komið fyrir mönnum. Það verð ég að segja. Ég þykist a.m.k. muna það að þegar menn voru að vinna hlutina við skapfelldari aðstæður en á endalausum næturfundum þegar klukkuna vantar eina mínútu í tólf voru menn stundum að fá hér þingskjöl þar sem nokkuð vandaðir útreikningar lágu til grundvallar þeim breytingum í skattprósentum, breyttum persónufrádrætti, vaxtabótum eða öðru slíku sem í hlut átti. Hvað er hér á ferðinni? Það er ein ræfilsleg tafla sem á að duga okkur sem fylgiskjal um það sem þarna er á ferðinni. Í mörgum tilvikum er ekki einu sinni reynt að slá máli á það hver áhrifin verða af breyttri skattlagningu gagnvart viðkomandi þolendum. Það er ekki reynt að slá á það t.d. hvað ríkissjóður hagnast eða tapar á mörgum af þessum breytingum, a.m.k. er það þá falið í einhverjum samtölum sem ekki er auðvelt að átta sig á.
    Þetta er að mínu mati, hæstv. forseti, langverst við þetta mál eins og það ber hér að. Nú veit auðvitað öll þjóðin að ríkisstjórnin var að klúðra þessu saman með ægilegum harmkvælum, sannkölluðum tangarfæðingum og á síðustu stundu. Mennirnir voru hálfruglaðir af svefnleysi við að berja þetta saman eftir miklar andvökur þannig að það er út af fyrir sig ekki von á góðu. Embættismannalið hefur sjálfsagt haft lítinn tíma og litlar forsendur til þess að meta þetta með einhverjum skynsamlegum hætti. Það verður þá að kosta það sem það kostar. Ég tel að Alþingi Íslendinga geti ekki staðið svona að afgreiðslu mála og það sé óhjákvæmilegt að efh.- og viðskn. fái allmarga daga til þess að vinna alla undirbúningsvinnu og útreikninga sem ekki hefur verið gert af hálfu frumvarpsflytjanda, þ.e. hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég ætla þá að renna yfir einstakar tillögur í frv. og staldra fyrst við breytta álagningu tekjuskatts sem hér er að finna fremst í bandorminum. Það er auðvitað ljóst að þar er á ferðinni annars vegar almenn hækkun tekjuskatts um 1,5%. Það þýðir að að meðtöldu útsvari sveitarfélaganna hækkar staðgreiðsla skatta úr 39,85% í 41,35%. Þetta er gert án þess að persónufrádrætti sé breytt. Þegar tekjuskattsálagning var afgreidd á síðasta þingi var það mjög harðlega gagnrýnt, m.a. af aðilum vinnumarkaðarins eða verkalýðshreyfingunni, að persónufrádrátturinn var þá ekki færður upp til verðlags. Ég sé ekki annað en nú eigi að endurtaka þann leik. Fyrsta spurningin sem vaknar í mínum huga varðandi tekjuskattinn er, hæstv. fjmrh., hversu mikið er á þessum tveimur árum búið að rýra hann að raungildi? Hversu mikið er búið að þyngja skattinn á tekjulægstu hópunum með því að persónufrádrátturinn hefur ekki verið færður upp til verðlags eins og eðlilegt væri?
    Síðan er þessi 5% tímabundni hátekjuskattur, sem svo er kallaður þarna af því að hæstv. forsrh. er á móti því að brjóta stefnu Sjálfstfl. lengur en tvö ár í senn. Hann gaf þá frægu yfirlýsingu í sjónvarpi að það væri í lagi að hverfa frá stefnu flokksins tímabundið. Svo kom skýringin: tímabundið er tvö ár. Það rúmast innan stefnuskrár Sjálfstfl. að hana megi brjóta, þó ekki lengur en tvö ár í senn. Þetta er mjög handhægt ákvæði og ég ráðlegg Alþfl. að taka þetta upp líka. Það mundi vera þægilegt fyrir þann flokk sem er að éta flest ofan í sig þessa dagana að hafa svona. Þetta mundi heita Ákvæði til bráðabirgða I í stefnuskrám Sjálfstfl. og Alþfl. ,,Stefnu þessa má þó brjóta tvö ár í senn.`` Þetta er skínandi gott og út á það kemur þessi óvera, þessi ræfill sem hátekjuskattur er kallaður upp á 5% og gefur auðvitað sáralítið eins og hann er útfærður þarna. ( ÖS: Hvernig hefðir þú viljað hafa það?) Ég hefði viljað hafa þetta þrep hærra. Ég hefði viljað hækka persónufrádrátt að hluta til á móti því og ég hefði viljað breyta skattstiganum þannig að þyngdin færðist yfir á efri hluta teknanna í meira mæli en nú er gert. Það er mín tilfinning fyrir því hvernig eigi að jafna lífskjörin, hv. þm. og formaður þingflokks Alþfl. Það er að láta þá borga meira sem hafa meiri tekjur. Það er sá sósíalismus sem ég lærði snemma inn á en hefur eitthvað skolast til í Jafnaðarmannaflokki Íslands upp á síðkastið eins og kunnugt er. Ég sé svo sem ekki ástæðu til að staldra öllu lengur við þessa álagningu tekjuskatts á einstaklinga. Það er alveg ljóst að eins og að þessu er staðið, þá nær kjaraskerðingin alveg niður úr. Þannig kemur það t.d. fram í töflu á bls. 17 í greinargerð með frv. að jafnvel einstæðir foreldrar með 60 þús. kr. mánaðartekjur fá tæplega 1% kjaraskerðingu út úr þessum aðgerðum. Það er fyrst og fremst vegna þessarar flötu hækkunar tekjuskatts án þess að persónufrádráttur sé hækkaður á móti. Ég óttast að inn í þetta vanti viðbótarskerðingu á þennan hóp vegna þess að persónufrádrátturinn sjálfur hafi ekki verið færður upp til verðlags. Það kæmi mér ekki á óvart þó að þessi kjaraskerðing væri í reynd yfir þessi tvö ár, 1992--1993, orðin ein 2,5--3%. Menn kunna að segja að 798 kr. séu ekki mikil upphæð fyrir einstætt foreldri með eitt barn en það er þó tæpt 1% af tekjum þessara aðila. Það er alveg ljóst að í töflunum, sem sýna einnig meðaltekjur sem eru taldar vera 90 þús. fyrir einstæða foreldra og 235 þús. fyrir hjón, er skerðingin orðin umtalsverð eða 1,3% í tilviki einstæðu foreldranna og 2,2% í tilviki hjónanna.
    Ég kem þá næst að barnabótunum, hæstv. forseti. Þar er auðvitað höggvið óþyrmilega í sama knérunn og gert var á síðasta ári. Þau merku tíðindi gerðust í umræðum hér, og ég tel rétt að þingmenn skrifi það hjá sér og jafnvel fréttamenn, að fjmrh. gaf það í skyn áðan í framsöguræðu sinni að það væri sennilega nóg komið í bili a.m.k. gagnvart barnafólkinu í landinu. Hvernig er þessi sértæka skattalagning ríkisstjórnarinnar á barnafólkinu orðin? Hún er orðin þannig að á tveimur árum hafa barnabæturnar verið lækkaðar samtals um á milli 1.250--1.300 millj., þ.e. ótekjutengdi hlutinn var í fyrra lækkaður um meira

en hálfan milljarð og er núna lækkaður um líklega 720 millj. Síðan er að vísu þriðjungur af þeirri upphæð færður yfir í barnabótaaukann. Það breytir ekki hinu að hinn ótekjutengdi hluti hefur þarna lækkað á tveimur árum eða á að lækka um 1.250--1.300 millj. kr. Það munar um minna. Þetta er vegna þess að ótekjutengdi hlutinn er á þessu ári 2,4 milljarðar kr. en hefði átt að vera 2,9 milljarðar ef hann hefði ekki verið skertur í fyrra. Þar með er í raun og veru búið að taka í burtu tæp 45% af ótekjutengdu barnabótunum á tveimur árum, ( Fjmrh.: Tæplega 50%.) Tæplega 50%, segir hæstv. fjmrh. og gerir nú betur en ég. Þyrfti ég að taka upp reiknivélina til þess að fá það staðfest að ég hafi vanreiknað þetta eins og venjulega því ég er svo varkár.
    Hvað þýðir þetta í reynd? Þetta þýðir að þessi hópur, markhópur ríkisstjórnarinnar, barnafólkið sem á annað borð kemst svo hátt í tekjum að tekjutengdi hlutinn fari að skerðast, ber þessa skattbyrði. Það er búið að taka á sig 1.250--1.300 millj. kr. eða á að gera á þessum tveimur árum samtals. Þetta er myndarlegur skattur sem þarna er búið að leggja á valinn hóp í þjóðfélaginu og er auðvitað með ólíkindum. Það kemur sömuleiðis fram í töflunum hvernig þetta getur komið út fyrir einstaka hópa. Það er auðvitað ljóst að þetta er afspyrnu ósanngjörn aðferð vegna þess að hún bitnar þeim mun þyngra á fjölskyldunum sem fleiri eru börnin og það dregur sífellt í sundur með þessum hópum. Eru einhver vísindi sem liggja til grundvallar því að afkoma barnafjölskyldna hafi verið hlutfallslega of góð miðað við aðrar stéttir í landinu? Hvaða útreikningar eru til grundvallar því að þyngja skattbyrðina á barnafólki á sama tíma og ekki er hróflað við hinum sem ekki eru með börn á framfæri? Auðvitað má velta því fyrir sér hvernig svona fjölskylda getur farið út úr hlutunum ef við hugsum okkur að fjölskyldufaðirinn eða annar aðilinn eigi þar fyrir utan 1--2 börn frá fyrra hjónabandi sem hann þarf að borga meðlög með. Þá fær hann enn einu sinni á kjaftinn í gegnum breytingar hæstv. heilbrrh. um að stórhækka meðlög. Ég er ansi hræddur um að svona dæmi muni fyrirfinnast í raunveruleikanum og vera ærið ljót ef þau væru dregin fram í dagsljósið. Kannski kemur það í Þjóðarsálinni að einhverjir grátandi einstaklingar á næstu mánuðum opni inn á sig og lýsi sínum dæmum. Er það aðferðin sem menn vilja fá til þess að draga svona hluti fram í dagsljósið? Ég segi nei. Ég vil heldur sjá vandaða sundurliðaða útreikninga, keyrslur á völdum dæmum til að skoða hvernig þetta kemur út.
    Í þriðja lagi, hæstv. forseti, ætla ég að ræða barnabæturnar --- og býð ég nú velkominn formann hv. efh.- og viðskn. sem var hér að góðu getið og er mættur til leiks. Auðvitað fagna allir komu hans, jafnt lærðir sem leikir. Þá um vaxtabæturnar, hæstv. forseti. Þar er mikill skaði að hæstv. félmrh. skuli vera fjarri góðu gamni, eins og brunamálastjóri sagði sinni þegar hann var ekki viðstaddur eldsvoða. Hvar er hæstv. félmrh. nú sem sór og sárt við lagði á sínum tíma, ekki bara þegar verið var að hækka vexti á húsnæðislánum á undanförnum missirum heldur þegar sjálft húsbréfakerfið var tekið upp og hefur svarið gegnum allan sinn feril sem félmrh., að það komi ekki til greina að hrófla við vaxtabótunum vegna þess að um það sé samkomulag að færa til stuðning ríkisvaldsins úr niðurgreiðslu vaxta í lánakerfinu yfir í vaxtabætur sem hægt væri að tekju- og eignatengja? Út af fyrir sig var það rétt hjá hæstv. félmrh. þá og væri rétt enn í dag, ef standa ætti við það, að það var að mörgu leyti skynsamlegri aðferð að koma þessum stuðningi til húsbyggjenda á framfæri í gegnum tekjuskattskerfið, vegna þess að þá er hægt að taka tillit til tekna, en ekki í gegnum blinda niðurgreiðslu á vöxtum á öllum íbúðarhúsalánum í landinu sem allir fengju jafnt án tillits til tekna. Síðan hafa menn gengið þessa götu og hækkað vexti í tvígang ef ég man rétt, á almennum lánum með rökstuðningi og vísan til þess að það væri ekki svo alvarleg aðgerð vegna þess að vaxtabæturnar kæmu á móti gagnvart þeim sem lægri hefðu launin og verr væru settir. Þetta er náttúrlega slík útkoma fyrir hæstv. félmrh. að hafi hún hótað því einhvern tímann í baksölum á undanförnum árum að segja af sér mundi ég spyrja hana, og það væri í fyrsta skipti sem ég mundi spyrja hæstv. félmrh. væri hann viðstaddur: Hefur hæstv. húsnæðismálaráðherra ekki dottið í hug núna að fara að skoða sín mál þegar þessi mikli svardagi á að vanefnast? ( ÖS: Við megum ekki missa hana.) Það er svo annað mál, hv. formaður þingflokks Alþfl., hvort krataflokkurinn megi við að missa hæstv. félmrh. út úr ríkisstjórninni.
    Ég verð að segja eins og er að þetta er mjög ömurleg útkoma vegna þess að hún er svo bersýnilega ósanngjörn og ranglát gagnvart því fólki, ef einhverjir fyrirfinnast þá hér í landinu sem leggja trúnað á yfirlýsingar stjórnvalda. Þetta eru svik við það fólk sem hefur á grundvelli gildandi lagaákvæða bundið sér byrðar, treyst því að það yrði ekki komið í bakið á því að það þarf að fara aftur til misgengisaðgerðarinnar 1993--1984 til að finna sambærilega svívirðu gagnvart þessum hópum. Þetta eru alger svik. Þegar það er skoðað að síðan hefur flest það brugðist sem lofað var að yrði í lagi með húsbréfin sem auðvitað fara að spila stærri og stærri rullu í þessu sambandi vegna þess að þau verða á komandi árum uppistaðan í útgjöldum einstaklinganna. Þegar afföllin þar eru tekin með í dæmið er útkoman þannig á þessum málum að næsta stórfár í greiðsluerfiðleikum í landinu eru bersýnilega í uppsiglingu í þessu kerfi. Við skulum hugleiða það hvernig þeir einstaklingar standa að vígi sem hafa gengið í gegnum greiðslumat. Þeir hafa lagt sín mál í dóm, ef svo má að orði komast, fengið það mat að þeir væru borgunarmenn fyrir tilteknum skuldum, fengið tiltekin lán út á það og svo kemur allt í einu á daginn að ekki bara lífskjörin í landinu versna og þeirra ráðstöfunartekjur minnka mikið bæði vegna ytri áfalla, sem ekki verður við gert, en líka vegna stjórnvaldsaðgerða. Það er ekki nóg að þeirra greiðslugrundvöllur raskist og hrynji af þeim sökum heldur ætla stjórnvöld til viðbótar að koma í bakið á þeim með rýtingsstungum af þessu tagi. Þetta er ömurlegt.

    Ég hélt að þær umræður sem urðu í kjölfar misgengishópsins og misgengissvívirðunnar á sínum tíma hefðu kennt mönnum eitthvað. Ég hef að minnsta kosti í einkasamtölum við menn, sem áttu aðild að þeim hlutum og ég nafngreini ekki af skiljanlegum ástæðum, heyrt þá játa að það sé eitt af því sem þeir sjái mest eftir á sínum stjórnmálaferli, þ.e. hvernig staðið var að aðgerðunum þá. En því miður virðist mér að sömu aðilar að einhverju leyti ætli nú að axla ábyrgðina af annarri eins útkomu. Þetta er hroðaleg niðurstaða, hæstv. forseti. Ég tel, þó að þetta sé kannski ekki stærsti liðurinn í tölum talið og eigi ekki að koma til framkvæmda fyrr en á árinu 1994, að þá breyti það engu um eðli aðgerðarinnar. Þótt þarna séu aðeins 400 millj. og þolendurnir finni ekki fyrir því fyrr en á árinu 1994 er þetta ömurleg útkoma.
    Við skulum líka hugleiða stöðu aðila sem eru að byggja sér hús í dag. Nýlegt dæmi hef ég undir höndum sem einstaklingur hefur lagt fyrir mig í formi skjala. Það er um mann sem er að byggja sér hús norður í landi og fór í gegnum þetta fína greiðslumat sem á að vera pottþétt trygging fyrir því að hann geti staðið undir sínum greiðslum. Út á hvað gengur það? Hans tekjur eru teknar og athugað hvað hann sé borgunarmaður fyrir miklu og hvað hann geti fengið mikið af húsbréfum til að byggja sitt hús. Útkoman var 4,5 millj. kr. Þessi maður er þannig í sveit settur að hann þarf að gera sér peninga úr þessum pappírum, hann getur ekki legið með þá eða með öðrum hætti fjármagnað sitt hús. Hann þarf að fara með þessi húsbréf út á markaðinn og selja þau og reyna að fá einhverja seðla í staðinn til að borga smiðum og iðnaðarmönnum og kaupa sement o.s.frv. Þegar hann kemur heim úr kaupstað með peningana sem hann fær fyrir húsbréfin, hvað er þá eftir? 3,5 millj. kr. Ein millj. kr. er farin í afföll, lántökukostnað, stimpilgjöld og allt það gúmmúlaði sem ríkið er að hirða. Hvernig er þá dæmi þessa manns? Hann verður frá byrjun skráður fyrir 4,5 millj. Hann skuldar það og borgar og einnig vaxtakostnað af því. En hann fékk aldrei nema 3,5 millj. í hendur. Eina milljón vantar. Hvar er hæstv. félmrh. sem fullyrti að það væri ódýrara að fjármagna húsbyggingar með húsbréfum en gamla fyrirkomulagið af því að menn fengju meiri fyrirgreiðslu í húsbréfakerfinu og þyrftu minna af óhagstæðum skammtímalánum? Getur það ekki hugsast að milljónina, sem þessi bóndi missir í afföll og vaxta- og lántökukostnað, verði að fjármagna með heldur ókræsilegum hætti? Hvernig gengur það upp að staða þessa manns sé betri þegar búið er að gera hvort tveggja í senn, að stytta lánstímann og hækka vextina? Svo er smiðshöggið rekið í þessa líkkistu með því að ráðast aftan að mönnum og skerða vaxtabæturnar.
    Þetta er slík útkoma, hæstv. forseti, að ræðumaður verður að játa að honum hitnar verulega í hamsi þegar hann fer yfir þessa hluti. Ég er svo sannfærður um að þarna er verið að ráðast á hóp sem er kannski sá aldurshópur í okkar þjóðfélagi sem allra síst má við álögum af þessu tagi. Það á við um þetta allt saman, barnabæturnar, vaxtabæturnar, meðlögin og auðvitað líka þungann af tekjuskattsgreiðslunum. Þetta lendir allt á því fólki sem er endalaust verið að vega að af hæstv. ríkisstjórn. Á sama tíma og t.d. næsti aldurshópur fyrir ofan sem er búinn að koma börnum af höndum sér og á orðið afskrifað húsnæði og hefur jafnvel fjármagnstekjur sleppur enn einu sinni með allt sitt á þurru. Það er verið að skapa hér slíka gjá milli kynslóðanna í landinu og breikka hana með þessum ráðstöfunum að mér óar við því. Er það virkilega ekki þannig að stjórnvöld hafi skilning á þessu? Þetta er kynslóðin sem kemur til eftir verðtryggingu lána, eftir að okurvaxtastigið heldur innreið sína, sem er að bogna undan öllum þessum byrðum á sama tíma og aðrir sleppa. Þetta kynslóðabil liggur eins og gaddavírsgirðing í gegnum íslenskt samfélag. Menn finna þessu væntanlega stað í sínum kunningjahópi eða sinni fjölskyldu. Stundum þarf ekki annað en að skoða aðstöðumun elstu og yngstu systkina í stórum systkinahópi. Það vill t.d. þannig til með ræðumann. Ef ég lít á aðstæður í minni fjölskyldu, en ég er í miðjum systkinahópnum sjálfur, þá er þetta dæmi borðleggjandi.
    Ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti að hugsa aðeins sinn gang. Ég vil segja áður en ég skil við þessa skattlagningu einstaklinganna því næst kemur að lögaðilum í frv., að ég væri tilbúinn til að skoða breytingar á þessu þótt þær kæmu út á sléttu gagnvart tekjuöflun ríkissjóðs. Það er miklu skárri aðgerð að mínu mati að hafa manndóm í sér til að hækka tekjuskattinn með almennri prósentu, hækka persónufrádráttinn á móti og sleppa þessari sértæku skattlagningu á barnafjölskyldurnar og húsbyggjendurnar. Hvernig líður hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni undir þessu? Er hann virkilega hreykinn af þessari jafnaðarstefnu ríkisstjórnarinnar? ( Gripið fram í: Hann drúpir höfði.) Hann er heldur hnípinn, það er auðséð. Hann þyrfti að ganga hér fram fyrir ræðustólinn og sýna áhorfendum Sýnar brosið á sér við þessar aðstæður. Það sæist þá skeifan.
    Um skattlagningu lögaðilanna eða fyrirtækjanna ætla ég ekki að hafa mörg orð. Hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að velja einmitt þessar aðstæður til að lækka tekjuskattsprósentur á fyrirtækjum sem er auðvitað nokkuð sérkennilegt því að hinum megin er verið að fella niður aðstöðugjaldið. Hefði maður þó ætlað að íslensk fyrirtæki gætu kannski þolað sömu tekjuskattsprósentu í eins og eitt ár, þau örfáu sem á annað borð borga tekjuskatt. Ekki mundi það íþyngja mikið íslenskum sjávarútvegi því þau eru fá fyrirtækin þar sem borga tekjuskatt. En það eru nokkrar gróðaholur sem væri kannski eitthvað út úr að hafa með því að halda þessari prósentu óbreyttri. Þó að ég viðurkenni fúslega þau rök að íslensk fyrirtæki í umhverfi vaxandi samkeppni þurfi að búa við sem sambærilegastar aðstæður, t.d. á meðan nokkrar aðrar þjóðir eru með sína prósentu í 50% og alveg upp undir 60% --- 49%, 48%, 50%, ekki ómerkari lönd en Þýskaland og Japan sem ekki þykja standa neitt illa að málum í sambandi við sitt efnahags- og atvinnulíf eru þó með hærri prósentu en við --- að nákvæmlega og einmitt við þessar aðstæður sé ég ekki að okkur sé nauðsynlegt að

lækka tekjuskattshlutfall fyrirtækjanna þegar það er á sama tíma hækkað á einstaklingunum. Stjórnin hefur þó aðeins séð að sér í þessum efnum eins og sést á því að nú er búið að ákveða að taka þessa lækkun í tveimur þrepum og fara í fyrstu umferð einungis niður í 38% en ekki 33% eins og upphaflega stóð til.
    Ég hef ekki margt um það að segja að afnema reglu til að draga 10% frá vegna fjárfestingarsjóða. Ég held að sú framkvæmdin hafi verið heldur amböguleg og ég gagnrýni ekki í sjálfu sér að þetta sé þá fellt niður enda mun þetta ekki vera mikið notað. Þau fyrirtæki eru kannski ekki óskaplega mörg sem hafa stórkostlegan hagnað til að leggja inn og koma sér þannig undan skatti þó það sé í einhverjum mæli.
    Þriðja atriðið, að lækka á nýjan leik frádráttarheimild vegna úthlutaðs arðs, tel ég arfavitlaust. Það er alveg ótrúlegt, satt best að segja, að um leið og Sjálfstfl. kemst í fjmrn. rýkur hann til og dregur úr ráðstöfunum sem aðrir voru búnir að gera til að reyna að greiða götu nýs fjármagns inn í atvinnulífið. Þetta á bæði við um arðinn og líka um frádrátt vegna hlutafjárkaupa í fyrirtækjum. Hvernig kunna þessir menn svo við að koma hér upp og halda sínar helgislepjuræður um frjálst framtak og einkaframtak o.s.frv.? Halda menn virkilega að þeir slái lengi ryki í augun á almenningi í landinu með svona fígúruskap, að tala um einkavæðingu á þvottahúsi Ríkisspítalanna sem stórkostleg tíðindi í kapítalismanum á Íslandi? Á sama tíma eru þeir að gera ráðstafanir í skattalegum efnum sem skipta miklu meira máli og hafa áhrif. Hitt er auðvitað argasta sýndarmennska að það skipti einhverju máli hvort tauið á Landspítalanum er þvegið af einkaframtaki eða ríkinu, að það séu einhver óskapleg tíðindi í þessum efnum eða pólitík. Heyr á endemi. Ríkisstjórninni er sem sagt að takast annað árið í röð að draga úr ráðstöfunum sem fyrri ríkisstjórn með aðild Alþb., míns flokks, náði samstöðu um að gera til að reyna að greiða götu nýs fjármagns inn í íslenskt atvinnulíf sem sannarlega er þörf á. Örlög hæstv. fjmrh. sem var einhvern tímann framkvæmdastjóri í klúbbi hér í bænum, gott ef það heitir ekki Fjárfestingarfélagið eða . . .  ( Gripið fram í: Stjórnunarfélagið.) Stjórnunarfélagið, enn fínni klúbbur, þau eru alveg makalaus í þessum efnum. Þetts var skrautfjöður í hatti frjálshyggjunnar og einkaframtaksins í landinu og stendur fyrir námskeiðum í kapítalisma. Hæstv. fjmrh. var forstjóri þar um tíma. Svo dæmast þessi örlög yfir hann. Þetta er heldur dapurlegt, hæstv. fjmrh. Ég verð því að segja alveg eins og er að ég tel þetta heldur óskynsamlegt. Ég veit ekki betur en samvinnuhreyfingin sé að byrja á því reyna að koma sér inn á þennan markað og styrkja stöðu sína með hlutafé (Gripið fram í.) í gegnum Kaupfélag Eyfirðinga eða samvinnufélag a.m.k. Þar var mótuð sú stefna að borga 15% arð. Hún er slegin niður með þessu, ég sé ekki annað. Þetta verður væntanlega skattlagning sem gildir yfir arðgreiðslur þeirra sem leggja fé í hlutabréf samkvæmt samvinnulögunum ( Gripið fram í: Í B-deildunum.) Í B-deildunum að sjálfsögðu. Þar með er þetta dautt því 5% af þessum 15% yrðu ekki frádráttarbær hjá kaupfélaginu. Er það ekki rétt? Þetta er auðvitað ekki mjög gæfulegt. Ég verð að segja alveg eins og er að þetta eru slík vinnubrögð. Þetta eru nýsett lög, ekki veit ég betur, sem verið er byrja að framkvæma, t.d. með hlutafjárútboði Kaupfélags Eyfirðinga. Það er bara slegið af með þessari aðgerð. Ég segi það kannski ekki, það er of mikið sagt en það er augljóst mál að þetta torveldar aðgerðir fyrirtækja af því tagi til að reyna að styrkja stöðu sína með því að laða til sín fármagn.
    Það eru furðuleg örlög, hæstv. forseti, fyrir ræðumann að þurfa að standa hér og halda þessa fyrirlestra yfir Sjálfstfl. Það er dálítið merkilegt hvernig hlutirnir geta snúið í pólitíkinni. ( Gripið fram í: Þeir hafa gott af því.) Þeir hafa gott af því og þurfa að fá að heyra þetta og líka Alþfl. Því það er eins og venjulega þegar þessir flokkar komast til valda sem hæst tala um frjálsa samkeppni slá þeir skjaldborg um forréttindaaðalinn og fyrirtækjanet hans í viðskiptalífinu. Það má ekki hrófla við því eins og sást í atkvæðagreiðslu um kolkrabbann fyrir nokkrum dögum. Þá vakna þeir til lífsins en varðandi almennar ráðstafanir og pólitík af þessu tagi eru aðgerðirnar þvert ofan í það sem talað er. Var það kynnt í kosningastefnuskrá Sjálfstfl. að það ætti í senn að draga úr heimildum manna til að leggja hlutafé í fyrirtæki og fá það frádráttarbært frá skatti og draga úr heimildum fyrirtækjanna til að fá arðgreiðslur frádregnar frá tekjuskatti? Ég man ekki eftir að heyra mikið um þetta talað í apríl 1991. Ætli það standi ekki eitthvað annað í stefnuskrá Sjálfstfl.? Það er sennilega með þetta eins og fleira að bráðabirgðaákvæði I í stefnuskrá Sjálfstfl. á hér við --- heimilt er þó að brjóta stefnuna tvö ár í senn --- eins og komið er í ljós með hátekjuskattinn að er útskýring og túlkun hæstv. forsrh. Mun ætlunin að hann flytji brtt. á næsta landsfundi flokksins og komi með þetta bráðabirgðaákvæði þá inn í stefnuna. ( EgJ: Þið eruð nú varla á móti því.) Nei, hv. frammíkallandi, það er svo annað mál hverjir gráta það minnst eða þurrustum tárum að stefna Sjálfstfl. sé brotin. Það er auðvitað yfirleitt til bóta að sem minnst sé farið eftir henni eins og við vitum, ég og hv. þm. Egill Jónsson. Hitt er svo annað mál, sem við gætum orðið sammála um að ræða þó að við séum ósammála um stefnuna, að það er nauðsynlegt að koma sæmilega heiðarlega fram við kjósendur og fólkið í landinu. Menn eiga ekki að hegða sér svona í hverju málinu á fætur öðru. Hvernig í ósköpunum á almenningur að bera virðingu fyrir stefnuskrám stjórnmálaflokkanna, orðum þeirra og yfirlýsingum þegar við höfum kippurnar af loforðum, af stefnuskráratriðum sem er verið að virða að vettugi? Það er verið að svíkja margendurtekna svardaga um vaxtabætur í þessu frv. Hæstv. félmrh. hefur sennilega hundrað sinnum lofað því að ekki yrði komið aftan að húsbyggjendum með því að skerða vaxtabæturnar. Ætli Sjálfsfl. hafi ekki einhvern tímann hjalað upp í eyrun á sínum mönnum, að auðvitað yrði ekki farið að torvelda mönnum að leggja fé í atvinnulífið o.s.frv. ef þeir kæmust til valda. En niðurstaðan er þessi. Ég sé ekki t.d. hvað þetta arðsákvæði varðar að það þjóni einhverjum tilgangi. Svo hafa menn ekkert upp úr þessu. Ég spyr sjálfstæðismenn: Fyrst þeir eru að brjóta stefnu sína á annað borð af hverju reyna þeir þá ekki að

hafa eitthvað upp úr því ef þeir eru að taka á sig þessi pólutísku óþægindi hvort sem er? Mér finnst það aumingjalegt að leggja það á sig að brjóta stefnuna fyrir einhverjar nokkrar milljónir. Ég mundi skilja það frekar að menn settu sér það mark að í hvert sinn sem þeir brytu stefnu flokksins hefðu þeir a.m.k. hálfa milljón upp úr krafsinu, en það er nú ekki. Menn eru stundum að leggja lykkju á leið sína bara fyrir hreina smáaura eins og ég tel að eigi við í þessu arðsákvæði.
    Þá ætla ég, virðulegur forseti, að koma lítillega að virðisaukaskattsálagningunni. Það er alveg eins með það að auðvitað er það til skammar að hæstv. utanrrh., matarskattsráðherrann skuli ekki vera viðstaddur umræðuna þegar að því kemur. Hv. síðasti ræðumaður fór að vísu ágætlega yfir það hvernig þróunin hefur orðið t.d. varðandi virðisaukaskatt á mat. Ríkisstjórninni er að takast að gera að engu þá endurgreiðslu á hluta af virðisaukaskattinum sem þó komst inn í tíð fyrri ríkisstjórnar og gerði það að verkum að stærstu flokkar innlendrar matvöru báru ekki nema 12% virðisaukaskatt. Hvað er að gerast í dag? Virðisaukaskatturinn er að fara upp í 20% á hvíta kjötinu og auðvitað er hann að hækka á ýmsum öðrum liðum sem ég kem hér að. --- Hvar er svo hæstv. utanrrh. sem hélt ekki ófáar ræður á Alþingi 1987 og 1988 um algjöra nauðsyn þess að leggja virðisaukaskatt á í einu þrepi? Hvar er sá hæstv. ráðherra? ( Gripið fram í: Úti í löndum.) Er hann floginn nú þegar? Þeim væri það rétt í rass gripið hæstv. ráðherrum að lesa svolítið upp úr þeirra eigin hugarverkum frá þeim tímamótum þegar sem harðastar hríðir stóðu á Alþingi um matarskattinn og stjórnarandstaðan á þeim tíma bauð upp á það að reyna að taka þátt í afgreiðslu þess máls ef samkomulag yrði um að breyta skattlagningunni og taka upp annað og lægra þrep á matvæli og barnafatnað og aðrar slíkar nauðsynjavörur fjölskyldnanna. Um þetta hefði að mínu mati á þeim tíma getað skapast samkomulag. ( Fjmrh: Stjórnarandstaðan kom í stjórnina eftir það.) Nú skal hæstv. fjmrh. gæta sín alveg sérstaklega. Það vill svo til að ég man þessa daga nokkuð vel, dagana frá og með 7. des. þegar við héldum sérstakan neyðarfund á sunnudegi í þinghúsinu. Við foringjar stjórnarandstöðuþingflokkanna á þeim tíma vorum boðaðir til þess að ræða við hæstv. ríkisstjórn. Ég man þetta mjög vel. Þá var verið að leita eftir samkomulagi um afgreiðslu skattamála á þingi eins og stundum áður hefur gerst og á e.t.v. eftir að gerast í þessum mánuði að menn átti sig á því þegar nær dregur jólunum að helst þyrfti að ná einhverju samkomulagi um hlutina. Þá var það boðið fram af okkar hálfu í stjórnarandstöðunni, a.m.k. Alþb. sem var þá stærsti þingflokkur stjórnarandstöðunnar, að skoða mögulega útfærslu á þessari skattlagningu þannig að matvælin yrðu tekin í lægra þrepi og e.t.v. nokkrar fleiri nauðsynjavörur heimilanna eins og sums staðar er gert. Í Bretlandi sem dæmi eru barnaföt og ýmsar slíkar vörur á lægra þrepi. Hæstv. ríkisstjórn tók þetta til athugunar og kom síðdegis þennan sama sunnudag með glæsilegt tilboð sem síðar kom í ljós að hún var þegar búin að selja öðrum. Hún lofaði endurgreiðslu á fisk. Að helminga virðisaukaskattinn á ýsu og það átti að nægja stjórnarandstöðunni til að samþykkja alla súpuna. Þessu var hafnað. Í hönd fór mjög hörð orrahríð hér á þingi sem stóð ekki bara fram að jólum, heldur milli jóla og nýárs og út janúarmánuð eins og menn muna. Sú ríkisstjórn kembdi reyndar ekki hærurnar öllu lengur eins og síðar varð frægt. Kannski hefur eitthvað reynt á þolrifin í henni þessa skammdegisdaga, það skal ósagt látið. ( Fjmrh.: Sú næsta kom og lækkaði matarskattinn.) Sú næsta komst til valda við erfiðar aðstæður haustið 1988 og gerði þetta að veruleika í formi stóraukinna endurgreiðslna og niðurgreiðslna á innlendu búvöruna sem leiddu til þess, hv. þm., eins og sanna má með tölum, að kindakjöt, mjólkurvara, brauð og fiskur báru á næsta ári þar á eftir 12% virðisaukaskatt. Síðan hefur sigið á ógæfuhlið, eins og ég var að nefna dæmin um áðan og hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson sýndi m.a. fram á að vegna skerðinga á síðasta ári og boðaðra skerðinga á hinu næsta mun svo til fullur virðisaukaskattur á nýjan leik leggjast á t.d. hvíta kjötið.
    En nú er sem sagt öldin önnur og hvað er það sem hæstv. ríkisstjórn dettur í hug að gera í sambandi við virðisaukaskattinn núna? Jú, það er að afnema þær undanþágur á virðisaukaskatti sem gilt hafa um bækur, blöð, tímarit, húshitun, afnotagjöld útvarps og sjónvarps og ferðaþjónustu. Þetta er satt best að segja ótrúleg útkoma þegar ekki er lengra síðan en --- hvað er það? Það nær ekki þremur árum eða eru tvö ár síðan Alþingi sameinaðist um við mikil húrrahróp að fella niður skatt á bækur og þóttu mikil gleðitíðindi í íslenska menningarheiminum. Ég sé ekki að þjóðinni hafi reitt svo illa af að hún hafi ekki efni á því áfram, að styðja við bakið á íslensku máli og íslenskri bókaútgáfu og íslenskri menningu með því að hafa hana undanþegna þessum skatti og prentiðnaðinn þar með talinn sem sumir telja að muni flæmast að verulegu leyti úr landi við þessa aðgerð.
    Það er auðvitað ákaflega óskynsamleg aðgerð í öllu tilliti að skattleggja húshitun. Bæði mun það enn draga úr hvatningu til þess að nýta innlenda orku í landinu. Þetta mun gera samkeppnisstöðu hennar verri miðað við það sem áður var, rafmagn og heitt vatn. Svo veldur þetta auðvitað hækkuðum húshitunarkostnaði og er hann þó nógu hár fyrir. Svo koma miklir snillingar úr stjórnarliðinu, eins og hv. 3. þm. Suðurl., og ég gratúlera Suðurlandskjördæmi með að eiga svona snilling á þingi, og finnur út þá formúlu að í raun og veru sé verið að jafna húshitunarkostnaðinn. Að vísu bara upp á við. Þetta er jöfnun upp á við. Með því að hækka þetta á öllum þá er þetta í lagi. Þá jafnast kostnaðurinn. Þetta er fín stærðfræði. ( Gripið fram í: Það þyrfti að spyrja hann hvað þurfi að hækka hann mikið til að það yrði alger jöfnun.) Já, það væri gaman að fá það út úr formúlunni hjá hv. 3. þm. Suðurl. hvort ekki mætti ná enn meiri jöfnuði með því að hækka þetta bara aðeins meira. Kannski er hann að leggja það til með þessari merku grein í Morgunblaðinu í dag. (Gripið fram í.) Það er svo aftur annað mál hvort menn séu alltaf sjálfum sér samkvæmir. Ég hef með sjálfum mér ákveðnar efasemdir í þessu tilviki, en ætla ekki að fara lengra út í þá sálma.
    Nei, þetta er heldur dapurleg niðurstaða þó svo að ríkisstjórnin eða einhverjir sæmilega hugsandi menn í stjórnarflokkunum náðu á síðustu stundu að klóra aðeins í bakkann og gera það að verkum að þetta varð ekki önnur eins ójafnaðaraðgerð og til stóð í upphafi að því er virðist og ber að sjálfsögðu að virða það að einhverjir menn hafa verið að reyna að koma að einhverju leytinu vitinu fyrir menn --- klóra í bakkann, eins og það heitir. En það breytir ekki því að þetta verður 5.000 kr. skattur ofan á það sem menn borga fyrir í húshitunarkostnað á dýrustu svæðum landsins. Þó svo að aðrir borgi eitthvað meira bætir það ekki úr því að þeir sem þegar bera byrðar af þungri húshitun fá þetta viðbótarhögg á sig.
    Þá er ég kominn að ferðaþjónustunni og spyr enn að því: Er til of mikils mælst að hæstv. samgrh. láti sjá sig við þessa umræðu? Finnst mönnum virkilega eðlilegt að svona grundvallaratriði sem varðar þeirra atvinnugreinar séu rædd að þeim fjarstöddum? Hvar er formaður samgn.? Er hann ekki til enn þá í þinginu? Hvar eru þeir menn sem eiga að láta sig þessa málaflokka varða? Þeir láta ekki sjá sig hér. Það er auðvitað skiljanlegt. ( Gripið fram í: Fjármálaráðherrann.)
    Útkoman á þessu er þannig varðandi ferðaþjónustuna að það er í raun og veru verið að leggja þarna 300--400 millj. kr. nettóskatt á ferðaþjónustuna. Menn hafa að vísu farið í ótrúlegar skógarferðir og reynt að sýna fram á að af því að ferðaþjónustan fái fellt niður aðstöðugjald, sem allir fá, og af því að hún fái í raun og veru löngu réttmæta lagfæringu á tryggingagjaldi sem útflutningsgrein, þá sé þetta ekki svo djöfullegt fyrir hana. Ég tel að það megi færa nokkur rök fyrir því að draga frá þessari skattlagningu það sem ferðaþjónustan fær í staðinn í gegnum lægra tryggingagjald, en ég hafna því að almenn niðurfelling aðstöðugjalds fyrir allar atvinnugreinar í landinu verði sérmerkt ferðaþjónustunni. Og þar með er þetta 400 millj. kr. nettóskattlagning á ferðaþjónustuna. Fyrirtæki eins og Flugleiðir munu borga tugi milljóna, jafnvel upp undir 100 millj. kr. vegna þessara aðgerða.
    Hvernig er upplitið á stjórnarþingmönnum á landsbyggðinni þegar þeir koma til með að fá fyrsta farseðilinn í hendur í innanlandsfluginu með virðisaukaskatti ofan á. Hlakka ekki hv. þm. til, eins og hv. þm. Egill Jónsson? Hann telur sem sagt að flugförin séu ekki nógu dýr nú þegar fyrir fólkið t.d. á Neskaupstað, sem hefur einna lengstu flugleið innan lands eða þá á Þórshöfn, sem þarf að skipta um flugvél á Akureyri ef það ætlar að komast suður og borgar hátt á annan tug þúsunda til að komast í bæinn og fá svo virðisaukaskatt ofan á þetta. Þetta er gáfuleg aðgerð. Ég verð að segja alveg eins og er að ég skil ekki hvað menn eru að fara í þessum efnum. Er það virkilega svo að ekki sé til einhver skynsamlegri tekjuöflunarleið fyrir ríkið?
    Menn kunna að segja að þetta sé ekki alvarlegt fyrir þessa innlendu þætti því menn verða að ferðast hvort sem er og ekki geti menn hætt því. Einhverjir eru jú þannig settir að þeir eiga ekki annan kost en að borga þessi fargjöld. En ég er alveg sannfærður um að þetta mun t.d. draga úr nýtingu landsmanna sjálfra á ferðaþjónustunni. Þetta veikir samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu, ekki bara varðandi samkeppnina um útlendinga hingað heldur líka að bjóða upp á ferðalög um eigið land. Það er alveg jafnmikill gjaldeyrissparnaður fólginn í því eins og að fá útlendinga inn í landið, eins og menn hafa löngu áttað sig á. Þetta mun að sjálfsögðu valda því að samkeppnisstaða ferðaþjónustunnar versnar. Það verður eitthvað breytilegt eftir fyrirtækjum. Einstaka fyrirtæki sem eru í fjárfestingum og hafa talsverðan innskatt á móti til frádráttar geta tímabundið komið þolanlega út úr þessu. Í heildina tekið þýðir ekkert að fjasa um það. Það liggur ljóst fyrir að þarna er verið að leggja skatt á grein sem slapp við hann áður.
    Það er alveg með ólíkindum að þetta skuli gerast í desemberbyrjun á því herrans ári 1992 því það er ekki lengra síðan en eitt og hálft ár að hér uppi í hinni efri deild sálugu stóð núv. hæstv. samgrh. í ræðustólnum og barðist þar eins og ljón fyrir því að drepa við 2. umr. í seinni deild heildarendurskoðun á lögum um ferðaþjónustu. --- Vegna hvers? Vegna þess að hæstv. núv. samgrh. og þáv. hv. þm. Halldór Blöndal sagði: Það er ekki nóg gert í því að bæta samkeppnisskilyrði ferðaþjónustunnar.
    Hv. þm. taldi ótækt að afgreiða þessa heildarlöggjöf fyrir greinina nema það næðist meiri árangur í því að bæta samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar. Var þó í þeirri löggjöf verið að taka á ýmsum hagsmunamálum greinarinnar og það var óumdeilt að margt í þeim breytingum var henni til hagsbóta. Síðan hefur ekki mikið heyrst af nýjum lögum fyrir ferðaþjónustu. Þegar hæstv. samgrh. var spurður að þessu af fjölmiðlamönnum fyrir ekki löngu síðan, þá svaraði hæstv. ráðherra því að þeir hefðu dottið ofan á það snjallræði, hann og hæstv. fjmrh., að skipa starfshóp til þess að endurskoða skattlagningu á ferðaþjónustu og kanna hvort ekki mætti létta af henni álögum. Nú ætla ég að spyrja hæstv. fjmrh. eftirtalinna spurninga:
    1. Hverjir sitja í starfshópi hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh. um að létta sköttum af ferðaþjónustu? Hverjir eru fulltrúar fjmrn. og hverjir eru fulltrúar samgrn.?
    2. Hvernig miðar starfi nefndarinnar? Er nefndin með í huga einhverja sérstaka skattstofna sem létta eigi af ferðaþjónustunni?
    3. Hvenær er þess að vænta að nefndin skili niðurstöðum?
    4. Hvernig tengjast nýlegar ákvarðanir hæstv. ríkisstjórnar starfi þessarar nefndar um bætt starfsskilyrði ferðaþjónustu?
    Ég spyr samhengisins vegna, hæstv. fjmrh., og ég vona að mér fyrirgefist því það er ágætt að hafa samræmi í hlutunum og mikið hlakka ég til að lesa þessa skýrslu þegar hún kemur.

    Þetta er auðvitað svo dapurlegt, hæstv. forseti, eftir alla umræðuna um ferðaþjónustuna sem hefur hafist til nokkurs vegs í umræðum hér á landi hin síðustu ár og vill nú meira að segja ræðumaður leyfa sér það steigurlæti að eigna sér ákveðna hlutdeild í því því þannig var að á þeim tíma sem þessi mál heyrðu undir hann var talsvert unnið að því að kynna málefni þessarar greinar. M.a. var þá í fyrsta sinn tekin saman tölfræðileg úttekt á því hver væri stærð ferðaþjónustunnar í þjóðarbúskapnum og í fyrsta sinn komu fram í dagsljósið almennilegar upplýsingar um hreinar gjaldeyristekjur Íslendinga af ferðaþjónustu. Menn urðu rjúkandi hissa þegar það kom í ljós að ferðaþjónustan var þá komin í tæpa 10 milljarða kr. í gjaldeyrissköpun, stefnir í 12, ef ég man rétt, á þessu ári, ef ekki 13, og síðan er útkoman þessi.
    Svo er hér á blaðsíðu 26 alveg dásamleg setning eða hitt þó heldur um þennan virðisaukaskatt. Hvað stendur þar? Næst á eftir því að farið er yfir á breytingarnar á virðisaukaskattinum þar sem verið er að boða mönnum þau gleðitíðindi að sérstakur lestrarskattur, eða íslenskuskattur mætti kalla hann, skattur á íslenskt mál verði lagður á bækur, blöð og tímarit, sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að reisa sér níðstöng með, og skattur á afnotagjöld fjölmiðlanna og ferðaþjónustuna, kemur alveg óborganleg setning, hæstv. fjmrh. Ég vil spyrja um höfund að þessum texta. Samdi ráðherra þetta sjálfur eða einhver nafntogaður embættismaður sem gæti þá fengið höfundarlaun og kæmist e.t.v. í heiðurslaunaflokk listamanna á næsta ári?
    ,,Áfram verða ýmsar greinar undanþegnar skattlagningu, svo sem íþrótta- og menningarstarfsemi, heilbrigðisþjónusta,`` --- það er ekkert annað --- ,,ýmis félagsleg þjónusta, skólar,`` --- ég er svo aldeilis hissa, þvílíkt örlæti af hæstv. ríkisstjórn --- ,,fjármálaþjónusta, getraunastarfsemi og vátryggingarstarfsemi.``
    Hér er það beinlínis tíundað sem mikil tíðindi, væntanlega til marks um gæsku ríkisstjórnarinnar, að bæði heilbrigðisþjónusta og skólar verði áfram undanþegin virðisaukaskatti. Maður býst bara við því í næstu setningu að lesa: og væri æskilegt að ríkisstjórninni yrði þakkað að verðleikum að láta þetta kyrrt liggja.
    Það skortir ekki á hugarflugið í hugmyndaheimi þeirra manna sem semja svona texta. ( Gripið fram í: En kirkjan, ætli hún sleppi ekki?) Það er farið nákvæmlega út í það og kemur ekki fram hvort að þjóðkirkjan, ásatrúarsöfnuðurinn eða aðrir slíkir borgi virðisaukaskatt. Þeir eru a.m.k. ekki taldir upp í þessum undanþágutexta hæstv. ríkisstjórnar.
    Ýmislegt fleira heyrir þarna undir sem mætti taka til að slepptum virðisaukaskattinum. Aðrir hafa nefnt hér hinn gamla kunningja skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Ég nenni ekki að stríða hæstv. fjmrh. á því, það er orðið svo þreytt að vera að sarga á því. ( Gripið fram í.) Maður nennir ekki að vera að sparka í liggjandi menn, hv. þm. Það er bara þannig að það hefur ekkert upp á sig. Auðvitað er þetta eins og dapurleg örlög sem hæstv. fjmrh. hefur ratað í, að það sem helst hann varast vann og allt það. Maðurinn sem hélt allar ræðurnar hér og stóð fyrir linnulausu málrófi um þessa svívirðilegu skattlagningu á sínum stjórnarandstöðuárum, dögum saman ef ekki sólarhringum, skuli nú dæmast til þess að framlengja þetta ár eftir ár. Eftir að hafa þó svarið að þetta mundi hann aldrei gera oftar í fyrra, ef ég man rétt. ( Fjmrh.: Nei, það er ekki rétt.) Það skyldi nú vera. Hins vegar mun væntanlega hv. 1. þm. Vestf. greiða atkvæði gegn þessu, trúr þeirri skoðun sinni að svona oft sé ekki hægt að svíkja gefin loforð og komast upp með það.
    En ég ætla aðeins að nefna útkomuna hjá Vegagerðinni af því að það tengist þessu máli. Hæstv. ríkisstjórn tilkynnti okkur með efnahagsráðstöfunum sínum að eitt í þeim yrði að leggja enn 1,50 kr. á bensínlítrann til þess að afla ríkissjóði tekna. Þá er það þannig að skerðing á mörkuðum tekjum Vegasjóðs er komin í 1 milljarð og 24 millj. kr. Skerðing á mörkuðum tekjum Vegagerðarinnar, sem í raun og veru er brot á vegalögum, því þar stendur að tekjur sem koma inn gegnum hina mörkuðu tekjustofna skuli fara til vegagerðar og til vegagerðar eingöngu, er nú komin í 1 milljarð og 24 millj. eins og þetta stendur í dag hjá hæstv. ríkisstjórn. Þ.e. 350 millj. kr. núna samkvæmt nýjustu ákvörðunum. Inni í forsendum fjárlagafrv. eru 344 millj. í skerðingu ríkissjóðs og útgjöld vegna ferju- og flóabáta eru áætlaðar 330 millj. á næsta ári. ( ÖS: Er ekki rétt að reikna þetta aftur til öryggis?) Þetta er alveg hárrétt reiknað og nú skal ég reikna enn fyrir hv. þm. Til viðbótar er í þál. um framkvæmdir við jarðgöng á Vestfjörðum, í gildandi vegáætlun og í drögum að langtímaáætlun gert ráð fyrir því að flýtingarkostnaðurinn vegna hröðunar framkvæmda þar verði tekinn að láni og stórverkefnaflokkurinn endurgreiði svo þann kostnað á árunum eftir 1996. Þessu hefur verið fallið frá og sá kostnaður færður yfir á almenna vegagerð. Þar eru á ferðinni 350 millj. í viðbót, ef ég man rétt. Þá versnar nú í því. Annaðhvort eru það 250 eða 350 millj. Þá erum við komin í 1.374 millj. kr., ef hærri talan er tekin, sem í raun og veru er minna til ráðstöfunar í almennri vegagerð í landinu á næsta ári af hinum mörkuðu tekjum en ella hefði orðið.
    Hver er þá orðinn glæsileikinn yfir þessum ráðstöfunum hæstv. ríkisstjórnar í vegamálum? Hann er orðinn sá að þó svo að Vegagerðin slái sér lán og fari í framkvæmdir sem þessu nemur er munurinn sá að eftir árið 1993 skuldar hún 1.374 millj. kr. meira en ella hefði orðið. Þær skuldir þarf að borga með lántökukostnaði. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég er orðinn þreyttur á því að menn skuli koma í ræðustól og endurtaka vitleysuna um að þetta sé eitthvað sem beri að gleðjast yfir fyrir hönd samgöngumálanna í landinu. Þetta er því miður að snúast upp í algera andhverfu sína og er að mínu mati að verða með meiri áföllum sem sá málaflokkur hefur orðið fyrir á síðari árum.
    Hver er útkoman úr þessu öllu, hæstv. forseti? Hún er ekki mjög glæsileg. Ég ætla að koma aftur að dæminu sem ég nefndi í upphafi. Það sem ég tel að við þurfum að gera á næstu dögum er að fara

ofan í saumana á því, af því að ekki gerir ríkisstjórnin það, hvernig þetta kemur við fólkið í landinu. Hvernig birtist þetta gagnvart hinum einstöku þolendum. Ég hef verið að reyna að setja saman dæmi um um hjón sem eiga þrjú börn, þar af eitt yngra en 7 ára, eru með tekjur um eða rétt ofan við meðaltekjur hjóna, þ.e á bilinu 2,6--3 millj. kr., skulda ekki óvenjulega upphæð vegna íbúðahúsnæðis og eru með vaxtakostnað um 300 þús. Þetta nægir í raun og veru sem helstu forsendur þessa dæmis. Hvernig lítur það þá út?
    Þessi hjón geta í fyrsta lagi misst 30--40 þús. kr. í gegnum minni vaxtabætur þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda. Nú er það að vísu ekki strax á árinu 1993 þannig að hér verður að hafa þann fyrirvara á að útreikningar eru miðaðir við að þetta verði allt komið að fullu til framkvæmda, við getum þá sagt á árinu 1994. 30--40 þús. kr. skaðast þessi hjón vegna breytinga á vaxtabótum, 25--30 þús. vegna breytinga á barnabótum, 30--40 þús. vegna hærri tekjuskatts, 10--15 þús. kr. vegna meiri tannlæknakostnaðar, 10--15 þús. vegna meiri lyfjakostnaðar og annarrar gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu, 5 þús. kr. vegna hærri húshitunarkostnaðar og síðan er ég svo hógvær að ég áætla 5 þús. kr. í viðbót vegna annars. ( Gripið fram í: Hvar býr fólkið?) Fólkið gæti búið á Akureyri en það þarf þess ekki með því að í gegnum hina frægu jöfnun Árna Johnsens upp á við mun þetta eiga að koma svipað út fyrir menn hvað húshitunarkostnaðinn snertir. Ef við ætlum ekki nema 5 þús. kr. vegna annars, þá er ég að tala um vegna annarra skatta, hér er eingöngu verið að taka skatta og bótagreiðsluhlutann af þessu, erum við komin í 115--140 þús. kr. sem lífskjör þessarar fjölskyldu skerðast um beint vegna skattahliðarinnar.
    Síðan er ekki hægt að horfa fram hjá því að samkvæmt mati bæði Þjóðhagsstofnunar, sem að vísu er varkár, og hagdeildar Alþýðusambandsins munu ráðstöfunartekjur fólks á næsta ári vegna verðhækkana, vegna hækkunar á framfærsluvísitölu annarra en skatta, skerðast um 3--5%. 4,4% stendur í mati Þjóðhagsstofnunar og samkvæmt munnlegum upplýsingum er um helmingur af því vegna verðhækkana og helmingur vegna skatta. Það gæfi þá 2,2% vegna verðhækkana. Hagdeild Alþýðusambandsins er með mun hærri tölu. Ég hef þess vegna reiknað með að ráðstöfunartekjur fjölskyldunnar skerðist um 4% vegna annarra verðhækkana á næsta ári. Það eru 100 þús. kr. í viðbót vegna gengisfellingarinnar og vegna verðhækkana af ýmsu tagi sem þegar eru farnar að dynja yfir og munu miðað við kaupforsendur fjárlaganna bitna á þessu fólki í formi skertra ráðstöfunartekna. Þá er kjaraskerðing þessarar fimm manna fjölskyldu með 2,6--3 millj. kr. í tekjur orðin yfir 200 þús. kr., 215--240 þús. kr. ( Fjmrh.: Af hvaða tölu reiknar ræðumaður 4%?) Það má auðvitað velta þessu á alla enda og kanta, hæstv. fjmrh. ( Fjmrh.: Þetta er einföld spurning gamals reiknikennara.) Ég er ekki að taka ýmislegt inn í þetta dæmi, hæstv. fjmrh., þannig að ég skal viðurkenna að ég leyfði mér að taka hærri viðmiðun en kannski mætti strangt til tekið. ( Fjmrh.: Af hvaða tölu?) Ég tók af ráðstöfunartekjum fólksins að frádregnum sköttum og áætlaði síðan að vísu nokkuð háa viðmiðun vegna þess að ég veit að í dæminu er vanreikningur. Ég veit t.d. að í dæminu er vanreikningur vegna þess að ég tíndi ekki til ýmsa smærri liði eins og hækkun á bensíngjaldi og annað því um líkt sem auðvitað bitnar á þessu fólki að einhverju leyti eins og öðrum. Ég hef ekki gert ráð fyrir því að einhver hluti af þessum fjölskyldufeðrum borgi meðlög svo dæmi sé tekið. Ef hæstv. fjmrh. vill fara út í aukastafina er það guðvelkomið.
    Ég tel að þegar allt annað er tekið sé því miður ekki hægt að horfa fram hjá því að af samanlögðum öðrum ástæðum skerðist ráðstöfunartekjur fjölskyldunnnar um upp undir annað eins vegna verðhækkana og annarra ótalinna áhrifa sem ég hef ekki tekið með. Mér þykir það í raun og veru alveg nóg að þetta skuli komið yfir 200 þús. kr., kannski 220--240 þús. Það þýðir að lífskjaraskerðingin hjá dæmigerðri barnafjölskyldu er að nálgast 10%, 7--10%.
    Ég held að menn verði að horfast í augu við það að í grófum dráttum er dæmið svona. Ég skal vera fyrstur manna til að viðurkenna að þetta er tilbúið dæmi og geta verið einhverjar veilur í því en þær geta verið á báða vegu. Þær geta alveg eins verið upp á við og niður á við. Það má líka velta því fyrir sér ef við horfum á meðaltalsskerðinguna upp á 4,4% og höfum svo í huga að það liggur alveg fyrir að aðgerðirnar bitna mjög misjafnlega á fólki eftir því hvort um barnafólk eða húsbyggjendur er að ræða, þá tel ég ekki mikið að þessi tala fyrir einstaka þolendur sem verst koma út sé orðin 7--10% því það liggur ljóst fyrir að skerðing þeirra sem best sleppa er mjög lítil. (Gripið fram í.) Það vantar inn í þetta alveg heilmikið meira. Það er alveg ljóst. En ég tel að þessi útreikningur, svo grófur sem hann er, sýni það í fyrsta lagi að þarna er farið út á ákaflega hættuleg braut og í öðru lagi að þörf er á því að gera vandaða útreikninga og keyra út þessa hópa til að skoða hvernig þeir koma út úr dæminu.
    Ég held að menn verði að horfast í augu við það að við erum að ganga mjög hættulega götu með sívaxandi tekjutengingu bæði bótagreiðslna og skattlagningar sem gjarnan verður virk á sama launabilinu hjá viðkomandi hópum. Það er þannig að hjá hjónafólkinu kemur tekjuskatturinn, skerðing barnabótanna, skerðing vaxtabótanna o.fl., inn á sama launabilinu. Það þýðir í grófum dráttum að ráðstöfunartekjukúrfan hjá þessum hópum á ákveðnu tekjubili er orðin mjög flöt, þ.e. það sem fólkið heldur eftir þegar búið er að draga allt frá. Menn vinna og vinna ef þeir eiga þá kost á yfirvinnu og brúttólaunin hækka en það sem eftir verður í vasanum breytist sáralítið á ákveðnu tekjubili þrátt fyrir aukinn þrældóm.
    Þetta er vont kerfi og mjög hættulegt. Við erum að búa til að mínu mati hóp sem mun lenda miklum erfiðleikum á komandi árum og það vantar rannsóknir á því hvernig þetta er að leggjast. Það má kalla þetta hina þrautpíndu eða margbörðu ungu miðtekjustétt barnafólks og húsbyggjenda, finna eitthvert heiti

á það, en væntanlega skilja menn hvað er verið að fara. Þetta er mikið áhyggjuefni.
    Hæstv. fjmrh. mun að sjálfsögðu verða skattakóngur Íslandssögunnar á næsta ári. Um það er ekki að fást. Það liggur alveg fyrir og ég veit að jafnvel hæstv. fjmrh. mun ekki reyna að bera á móti því. Ég skal fúslega viðurkenna að það gagnrýni ég ekki mest í þessu í sjálfu sér, þ.e. skattstigið. Það er hins vegar hvernig teknanna er aflað og hvernig byrðunum er dreift. Þar á ég ekki bara við þá nöturlegu staðreynd að menn gáfust upp á því að láta fjármagnseigendur borga sitt og þessi hátekjuskattur er óvera. Það er ekki það versta að mínu mati. Það versta er sú ójöfnun sem er að gerast í gegnum niðurskurð á samneyslunni og gegnum tekjutengingu ýmiss konar stuðningsgreiðslna. Það er miklu verra mál vegna þess að það er auðvitað þannig þegar við förum ofan í saumana á því að tekjujöfnunin gerist ekki fyrst og fremst í gegnum skattgreiðslurnar. Það er ekki þar sem lífskjörin jafnast aðallega heldur er það í gegnum þjónustuna, samneysluna og það sem mönnum hefur fram að þessu staðið til boða. Það er það tillit sem fram að þessu hefur verið tekið í skattkerfinu til barnafólks til þess að jafna lífskjör þeirra fjölskyldna sem eru með þunga framfærslubyrði af börnum og hinna. Þessi jöfnun er að hverfa. Er einhver skynsemi í því að barnlaus hjón skuli sleppa miklu léttar þegar þessir erfiðleikar ganga yfir landið en hin? Ég svara því alveg hiklaust neitandi.
    Ég er alveg sannfærður um að ef eitthvað er þá hefur hallað á barnafjölskyldurnar á undanförnum árum vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að það sé að verða dýrara og erfiðara og að mörgu leyti útgjaldasamara að reka börn, ef svo má að orði komast, í nútímaþjóðfélagi en það var áður. Ég er alveg viss um að menn þekkja það úr eigin umhverfi, hvort sem það er framfærslan sjálf, sem auðvitað skiptir þarna miklu máli, eða ýmiss konar aukaútgjöld sem leiða af þátttöku barna t.d. í félagsstarfi, íþróttum, tómstundum eða öðru slíku. Ég er alveg sannfærður um að á síðustu árum hefur hallað á þann hóp í þjóðfélaginu sem er að koma börnum til manns. Það er alveg í þveröfuga átt að gera skattlagninguna sértækari með þessum hætti og færa hana yfir á herðar barnafjölskyldnanna. Það er heigulsháttur og aumingjadómur að þora ekki að horfast í augu við það að ef menn afla tekna þá eiga þeir að gera það með öðrum og mannborlegri hætti en þeim að læðast aftan að tilteknum hópum í þjóðfélaginu með þessum hætti vegna þess að þeir þora ekki að afla tekna í ríkissjóð með almennum ráðstöfunum. Það er aumingjalegt.
    Mér fannst svo að lokum, hæstv. forseti, að hæstv. fjmrh. mætti ekki fara lengra út á þann ís að reyna að bera saman ráðstafanir ríkisstjórnarinnar annars vegar og hugmyndir sem voru í vinnu á vettvangi aðila vinnumarkaðarins hins vegar. Hvað á sá leikur að þýða? Er verið að reyna að læða því að mönnum að í raun og veru sé þetta alveg það sama og Alþýðusamband Íslands var að vinna með? Til hvers þegar það er svo í ofanálag blekking? Það er auðvitað hreinasta fölsun að leggja að jöfnu þær tillögur sem þar voru á borðum og voru m.a. kynntar okkur foringjum stjórnarandstöðunnar á fundi daginn sem sænska krónan féll sællar minningar. Það lá auðvitað ljóst fyrir að þar var í fyrsta lagi verið að tala um fjáröflun með allt öðrum sniði, fjármagnstekjuskatt og umtalsverðan hátekjuskatt, en það var líka verið að tala um enga gengisfellingu. Það var verið að tala um að verja lífskjörin þeim megin. Það er auðvitað mergurinn málsins sem gerir það að verkum að aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar eru ósambærilegar vegna þess að í gegnum gengisfellinguna og kostnaðarhækkanirnar er búið að skerða lífskjör þessa fólks sem ætlunin var að reyna að forðast með kostnaðarlækkunarleið aðila vinnumarkaðarins að óbreyttu gengi. Hins vegar geta svo menn rætt hvort það var raunhæft eða ekki. Það er annað mál. En þeirra vinna byggði á því.
    Þetta er ófyrirleitinn samanburður og hæstv. fjmrh. bætist nú í hóp hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. sem hafa verið með þessa útúrsnúninga. Ég held að hæstv. ráðherrar ættu að hætta þessu. Hæstv. ráðherrunum veitir ekki af, ef ég má leyfa mér að orða það svo, hæstv. forseti, að reyna að leggja eitthvað annað til málanna en svona málfundaæfingar gagnvart verkalýðshreyfingunni ef þeir eiga að ná einhverju stjórnmálasambandi við hana á næstu vikum eftir þessar aðgerðir.
    Hæstv. forseti. Ég held að ég láti þessari yfirferð minni lokið enda á ég væntanlega eftir að vinna í þessu eitthvað í hv. efh.- og viðskn. Ég vil endurtaka það sem ég sagði reyndar í upphafi og það er gott að hv. formaður heyrir það. Ég tel gersamlega óverjandi að afgreiða þetta mál á eins veikum staðreyndalegum grunni og það stendur í dag miðað við þessa aumu grg. með frv. Það kann að eiga sér réttmætar skýringar að menn hafi ekki haft tíma til að gera mikla útreikninga eða afla mikilla gagna varðandi bakgrunn málsins. En það verður þá að gerast og Alþingi verðar að hlutast til um að verði gert. Ég mun því fara fram á það að vandaðir útreikningar verði framkvæmdir gagnvart dreifingu þessara byrða á hina einstöku tekjuhópa og einstöku markhópa, barnafólk, húsbyggjendur og aðra í þjóðfélaginu. Sú vinna verður að fara fram þannig að hægt sé að afgreiða málið, svo bölvað sem það er, að lokum ef það verður þá gert vitandi vits hvað það þýðir fyrir þá sem þar eiga hlut að máli.
    Ég endurtek svo að lokum tilboð mitt, sem að vísu skal tekið fram til að fyrirbyggja allan misskilning að er persónulega frá mér og hefur ekki verið rætt í mínum flokki, að ég er tilbúinn til að leggja í það vinnu á vettvangi efh.- og viðskn. eða annars staðar að skoða breytta útfærslu á þessari tekjuöflun þó svo að ríkissjóður kæmi út á sléttu ef eitthvert samkomulag gæti tekist um að afla teknanna með skynsamlegri og réttmætari hætti, t.d. með meira almennri innheimtu gegnum tekjuskattinn, hækkuðum persónufrádrætti á móti í einhverjum mæli og að hverfa helst alveg eða að a.m.k. verulegu leyti frá þessari sértæku skattahækkun á barnafjölskyldur og húsbyggjendur. Það er mikið óráð og mun koma í bakið á mönnum. Menn munu á næstu missirum og árum sjá mikla erfiðleika skapast hjá þessum hópum og væri

mun gáfulegra að forðast það slys en að rata í þær raunir síðar.