Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 16:46:58 (3139)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alltaf gaman að hlýða á hinar stuttu og kjarnyrtu ræður hv. þm. Steingríms Jóhanns Sigfússonar. Hann fór víða í ræðu sinni og það var gaman að hlusta á hann leggja ríkisstjórninni lífsreglurnar og raunar synd að honum skuli ekki hafa tekist betur upp þegar hann sjálfur var í ríkisstjórn. En þingmaðurinn hefur bersýnilega gott hjartalag. Hann hefur samúð með smælingjunum. Ég hjó til að mynda eftir því, virðulegi forseti, að hann hafði miklar áhyggjur af því að Sjálfstfl. væri að brjóta sína stefnu. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að stundum deili ég þessum áhyggjum með þingmanninum. Ég ætla þó ekki að ræða það núna en það var eitt smáatriði sem mig langar til þess að inna hv. þm. eftir. Hann fór víða í sinni ræðu og geisaði stundum yfir vonsku ríkisstjórnarinnar. M.a. kvartaði hann yfir því að persónufrádráttur væri ekki færður upp um leið og tekjuskattsprósentan væri hækkuð. Það vill svo til, virðulegi forseti, þó ég sé e.t.v. tekinn að reskjast og minni mitt farið að bila, en ég man ekki betur en að í fyrrv. ríkisstjórn þar sem þingmaðurinn átti sæti, hafi þáv. fjmrh., Ólafur Ragnar Grímsson, m.a. beitt þeim ráðum að hækka tekjuskattsprósentu án þess að hækka persónufrádráttinn Mig langar að spyrja virðulegan þingmann, Steingrím J. Sigfússon, hvort þetta sé rangminni hjá mér.