Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 16:52:34 (3142)


     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Nú lenti hv. þm. gersamlega út af sporinu. Hann er í fyrsta lagi allt of fullyrðingaglaður og ætlar mönnum hvatir sem ekki eru fyrir hendi. Það er rangt að ég hafi verið að gagnrýna hæstv. núv. fjmrh. fyrir það sama og hafi átt sér stað í tíð fyrri ríkisstjórnar. Ég sagði það beinlínis. Það sem ég var að gagnrýna var að persónufrádrátturinn væri skertur að raungildi, hann lækkaði með því að

hann væri ekki færður upp til verðlags. Það gerðist aldrei í tíð fyrri ríkisstjórnar. Hann var ævinlega færður upp til verðlags og hélt raungildi sínu. Það kann hins vegar að vera að tekjuskattsprósentan hafi tekið breytingum án þess að raungildi persónufrádráttarins breyttist. Um það þori ég ekki að fullyrða. En hitt er alveg á hreinu að þetta skilur á milli og því er ómótmælt að persónufrádrátturinn er að skerðast á þessu ári vegna þess að hann var ekki færður upp til verðlags um áramót eins og áður hafði verið gert. Hagdeild Alþýðusambandsins reiknaði út við síðustu áramót og sýndi fram á það.
    Í öðru lagi er rangt, allt of mikil fullyrðing af hálfu hv. 17. þm. Reykv. að ég hafi eingöngu verið að gagnrýna það að þarna væri á ferðinni tilfærsla frá fyrirtækjum yfir á almenning. Ég var fyrst og fremst að gagnrýna hvernig skattlagningunni er háttað, hv. þm., og það höfum við alþýðubandalagsmenn allir gert og erum 100% sammála um það. Hv. þm. má fara í gegnum allar okkar ræður, allar okkar tillögur frá þessu hausti. Hann mun átta sig á því að þar er fullkominn samhljómur, enda erum við eini flokkurinn sem hafði mótað sér skýrar áherslur og sett fram tillögur sínar löngu áður en óbermi ríkisstjórnarinnar urðu til á næturfundum. Því fór hv. þm. einnig villur vega að þessu leyti en fór þó allra mest út af götunni þegar hann ætlaði mér einhverjar annarlegar hvatir og undirmál með slíkum málflutningi sem hann hafði lagt mér í munn og á sér ekki stoð í raunveruleikanum.