Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 16:54:45 (3143)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Frú forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingar í skattamálum, mikill bandormur sem ríkisstjórnin hefur lagt fram í 8 köflum og 58 greinum. Ég verð að taka undir það sem hefur komið fram í dag að þessi mikli lagabálkur er býsna seint fram kominn og mér segir svo hugur um að það eigi eftir að hitna verulega í kolunum út af ýmsum þeim tillögum sem hér er að finna.
    Frv. sama eðlis var lagt fram á síðasta þingi og sjálfsagt mörgum þingum þar á undan sem ég sat ekki á. Í frv., sem var til umræðu í fyrra, var einkum tvennt sem var mjög umdeilt. Annars vegar var það sjómannaafslátturinn, sem er nú látinn í friði, en hins vegar barnabætur, sem á að skerða enn á ný með þeim tillögum sem hér eru til umræðu, 500 millj. í fyrra, 500 millj. nú. Þetta gerist samhliða miklum niðurskurði á ríkisútgjöldum.
    Þetta frv. sem hér er til umræðu nær til margra þátta skattlagningar og kemur fram í ljósi þeirra efnahagsaðgerða sem ríkisstjórnin boðaði fyrir nokkrum vikum og hafa verið mjög til umræðu enda umdeildar. Í þessum tillögum skiptast á skin og skúrir. Sumt er hægt að taka undir, svo sem afnám aðstöðugjalds, hátekjuskattinn og hert skatteftirlit, en öðrum þeim aðgerum sem hér eru boðaðar held ég að ég geti fullyrt nú strax við 1. umr. að við kvennalistakonur munum mótmæla harðlega og vinna að því í hv. efh.- og viðskn. og síðar hér í umræðum að ná fram breytingum á þessum tillögum.
    Ekki verður hjá því komist, virðulegi forseti, að byrja á því að ræða nokkuð almennt um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem að sjálfsögðu tengist þeim aðgerðum sem hér er verið að ræða. Ég verð þá að byrja á því að rifja upp örlítil brot úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, Velferð á varanlegum grunni, sem ég tel nauðsynlegt að minna hæstv. ráðherra á öðru hverju. Í kaflanum um ríkisbúskap á bls. 17 segir, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin leggur áherslu á þann ásetning sinn að gerbreyta fjármálastjórn hins opinbera. Dregið verður úr umsvifum ríkisins og þannig búið í haginn fyrir hóflega skattheimtu í framtíðinni.`` Og síðar segir, með leyfi forseta:
    ,,Um leið og dregið verður úr hallarekstri ríkissjóðs árið 1992 með því að stöðva þau vaxandi ríkisumsvif sem viðgengist hafa undanfarin ár verða næstu skref til uppbyggingar og kerfisbreytinga í ríkisrekstrinum undirbúin. Ríkisvaldið mun beita nýjum aðferðum í ríkisrekstri til að tryggja hagkvæma en jafnframt hóflega og skilvirka skattheimtu.``
    Hér er að finna ýmis áform ríkisstjórnarinnar um skattheimtu, en það sem hér er að gerast bendir ekki til þess að þau áform komist til framkvæmda. Síðar segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:
    ,,Til þess að forðast neikvæð áhrif á atvinnulífið þarf skattkerfið að vera einfalt, skilvirkt og hlutlaust í þeim skilningi að það mismuni ekki framleiðsluþáttum og atvinnugreinum.``
    Þetta mun tengjast því sem síðar kemur þar sem fjallað verður nánar um þær tillögur sem hér er að finna.
    Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 er einnig að finna þau markmið sem ríkisstjórnin hefur sett sér en þar segir, með leyfi forseta, á bls. 241:
    ,,Hér á landi hafa efnahagsráðstafanir síðustu missira skilað umtalsverðum árangri. Þegar litið er til annarra landa sker Ísland sig úr, t.d. hvað snertir lítið atvinnuleysi og lága verðbólgu.`` Og síðar segir: ,,Enda þótt nokkur árangur hafi náðst í ríkisbúskapnum eru ýmis grundvallarvandamál óleyst, t.d. í heilbrigðis- og tryggingamálum. Þá eru vaxandi skuldir þjóðarbúsins mikið áhyggjuefni.`` Síðar segir, með leyfi forseta:     ,,Einn mikilvægasti þáttur efnahagsstefnunnar er að gengi krónunnar verði haldið stöðugu. . . .  Þannig mun raungengi krónunnar lækka og útflutningsgreinarnar verða samkeppnishæfari. Í samræmi við þessa stefnumörkun er í forsendum fjárlagafrv. gert ráð fyrir að laun samkvæmt kjarasamningum haldist óbreytt á næsta ári.``
    Þetta eru markmið ríkisstjórnarinnar og mætti vitna til fleiri hluta í því sambandi en það má alveg ljóst vera þegar farið er að glugga í þessi plögg, bæði stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, Velferð á varanlegum grunni og það sem sett var fram í fjárlögunum og væntanlega sett á blað nú í haust, að forsendur hafa þegar raskast mjög mikið. Það er auðvitað bæði vegna þeirra ytri aðstæðna sem við búum við, samdráttinn og ýmislegt sem verið hefur að gerast í efnahagslífi Evrópu og Bandaríkjanna, en ekki síður vegna þróunar innan lands og stefnu ríkisstjórnarinnar. Það eru því ástæður til þess að setja spurningarmerki við það sem er verið að gera og það sem á að gera og ég vil benda á að nú þegar er farið að segja upp kjarasamningum. Það er því mjög óljóst hvort þær forsendur sem ríkisstjórnin hefur sett fyrir efnahagsstefnu sinni, fjárlögunum og skattastefnunni, muni standast.
    Það má benda á þróunina í atvinnulífinu sem auðvitað segir til sín í ríkisbúskapnum og er nánast sama hvert litið er. Samdráttinn er alls staðar að finna. Ýmis þau áform sem menn hafa haft uppi um atvinnuþróun hafa orðið að engu. Stóriðjan, sem sumir hverjir bundu miklar vonir við, á í miklum erfiðleikum og þarf ekki annað en skoða skýrslu Seðlabankans fyrir árið 1992 um þróun og horfur í peningamálum, gjaldeyrismálum og gengismálum til þess að sjá þar samandregið hvernig staða hinna ýmsu atvinnugreina er. Allt hefur þetta áhrif á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og það hvernig takast mun til á næsta ári. Ef við reynum aðeins að átta okkur á meginforsendunum í stefnu ríkisstjórnarinnar þá er þar að finna nokkrar meginlínur. Þar er fyrst að nefna að það hefur verið stefna þessarar ríkisstjórnar að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Þar hefur verið gengið fram af miklu offorsi og skorið niður miskunnarlaust án þess að nokkurt heildstætt mat liggi þar að baki, án þess að spurt sé um þarfir, gæði eða á hverjum niðurskurðurinn bitnar. Enda þótt sjá megi á þeim tölum sem fyrir liggja að nokkuð hefur dregið saman í útgjöldum ríkisins þá ríkir algert stefnuleysi í þessum niðurskurði og ég vil meina að hann hafi komið sér afar illa á ýmsum sviðum og þá er mér ekki síst í huga menntakerfið.
    Önnur lína, sem gengur í gegnum stefnu ríkisstjórnarinnar, er einkavæðing ríkisfyrirtækja sem hún hyggst framkvæma með sölu ríkiseigna, en þar er skemmst frá að segja að sú einkavæðing hefur gengið heldur illa. Ætlunin var að selja ríkiseignir fyrir einn milljarð á þessu ári en hingað til, alla vega samkvæmt þeim tölum sem er að finna í frv. til fjárlaga, hefur verið selt fyrir hálfan milljarð. Ætlunin er að selja fyrir 1 1 / 2 milljarð á næsta ári en ég veit ekki hvað ætti að leiða til þess að árangurinn verði eitthvað betri þá en hann er á þessu ári jafnvel þótt menn ætli að bjóða sjálfan Búnaðarbankann til sölu. Maður spyr sig hverjir eiga að kaupa. Er einhver annar en kolkrabbinn sem hefur getu til þess að kaupa slík fyrirtæki?
    Í þriðja lagi hefur sú stefna við gegnumgangandi hjá ríkisstjórninni að láta almenning og fyrirtæki greiða í mun ríkara mæli en áður fyrir þá þjónustu sem ríkið veitir og það hefur verið gert með þjónustugjöldum. Það kemur fram í þeim bandormi, sem hæstv. heilbrrh. leggur fram, að þessi innheimta á þjónustugjöldum hefur gengið svona og svona og þær aðgerðir sem gripið var til í heilbrigðismálum hafa hvergi nærri skilað sér enda ganga flestar hans tillögur út á það að reyna að herða á bandorminum sem var samþykktur í upphafi þessa árs þannig að þær aðgerðir hafa mistekist að miklu leyti.
    Í fjórða lagi hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar fram til þessa að halda sköttum í lágmarki. Yfirlýst stefna Sjálfstfl. hefur verið að vera á móti skattahækkunum en nú bregður nýrra við. Hér eru boðaðar miklar skattahækkanir og niðurskurður á bótum til almennings og mér er auðvitað ljóst að þetta er Sjálfstfl. ekki ljúft, en aðstæður eru einfaldlega þannig að menn hafa neyðst til þess að beita sköttunum í ríkara mæli en áður, en spurningin er auðvitað hvernig það er gert. Ég mun koma að því síðar að ég er langt í frá sátt við þá leið sem hér er farin.
    Í fimmta lagi hefur stefna ríkisstjórnarinnar verið að draga úr halla ríkissjóðs sem að sjálfsögðu er eðlilegt takmark því að ég held að við séum öll sammála um að skuldastaða ríkisins er komin á býsna hættulegt stig og þarf að ná skuldunum niður. En að mínum dómi hefur ríkisstjórnin farið heldur geyst í því máli eins og öðrum. Hún ætlaði sér að ná ríkishallanum niður á tveimur árum og það var augljóst og við bentum á það strax í fyrra að þetta væri allt of hratt farið því að menn mega passa sig á samdrættinum og þeirri keðjuverkun sem hægt er að setja af stað með svona hröðum niðurskurði, enda hafa aðstæður orðið til þess að ríkisstjórnin hefur orðið að hægja á og hamingjan má vita hvenær tekst að ná niður þessum ríkishalla.
    Það má benda á það að í þeirri umræðu, sem átt sér stað um efnahagsmálin í Bandaríkjunum hefur það mjög verið gagnrýnt m.a. af þeim hagfræðingum sem eru í kringum nýkjörinn Bandaríkjaforseta, Clinton, að tilraunir bandarísku ríkisstjórnarinnar til þess að skera niður ríkishallann hafa verið bæði allt of fálmkenndar og svona eins og í líki trúarbragða. Það yrði að ná ríkishallanum niður sem fyrst en í raun hafi það leitt til meiri samdráttar og meiri stöðnunar en ella hefði verið. Þarna þarf að finna hinn gullna meðalveg. Því má segja að gengið hafi á ýmsu frá því að ríkisstjórnin lagði fram sitt fyrsta fjárlagafrv. í fyrra og þau frumvörp sem fylgdu í kjölfarið um skattheimtu og aðrar ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þó að þær tölur sem er að finna m.a. í fjárlagafrv. bendi til þess að niðurskurðinn hafi skilað sér að sumu leyti, þá hljótum við auðvitað að spyrja hvað felst á bak við þann niðurskurð.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fram til loka september á þessu ári kemur fram að nú hefur t.d. orðið mikil breyting á því að stöðugildum hefur ekki fjölgað hjá ríkinu eins og verið hefur um árabil, heldur hefur þeim fækkað um nánast 200 stöðugildi og við hljótum að spyrja hvernig stendur á þessu: Hvar er þessi niðurskurður? Er hann í skólakerfinu? Er hann í heilbrigðiskerfinu? Er

hann í ráðuneytunum eða hvar er hann að finna? Hvar kemur niðurskurðurinn niður? Við vitum auðvitað að þegar allt kemur til alls þá er það auðvitað almenningur í landinu sem borgar.
    Það hefur verið afar athyglisvert að fylgjast með þróun mála á undanförnum mánuðum og þeim vinnubrögðum sem ríkisstjórnin hefur beitt því að það var ljóst þegar í upphafi ársins að um verulegan samdrátt yrði að ræða í efnahagslífi Íslendinga og honum var spáð. Eftir að aflaspá Hafrannsóknastofnunar kom fram síðla sumars þá mátti öllum ljóst vera að það varð að grípa til frekari efnahagsaðgerða. Svo undarlega brá við að ríkisstjórnin sat mánuð eftir mánuð með hendur í skauti og lét í ljós þá stefnu sína að það væri best að gera ekki neitt, markaðurinn ætti að jafna sveifluna. Og vikurnar liðu. Ríkisstjórnin horfði miklum aðdáunaraugum á það sem gerðist í Svíaríki þar sem ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan náðu samkomulagi um ákveðnar aðgerðir sem kallaðar hafa verið kostnaðarleiðin. Þetta fannst íslensku ríkisstjórninni mikið snjallræði og vildi leita sömu leiðar. Kostnaðarleiðin fólst í því að lækka skatta á fyrirtækjunum og velta þeim yfir á almenning í Svíþjóð en munurinn er bara sá að Svíar höfðu af mun meira að taka en við. Sænska velferðarkerfið er ólíkt öflugra en það sem við búum við og því er afar villandi þegar menn eru að jafna saman stöðu launafólks í Svíþjóð og á Íslandi, bæði hvað varðar laun og réttindi. Þar er t.d. veikindafrí og fæðingarorlof mun lengra en hér og munar auðvitað minna um þó að einn eða tveir dagar séu skornir af veikindaleyfi. En þessi leið vakti mikla aðdáun íslensku ríkisstjórnarinnar, eins og ég sagði áðan. Síðar kom í ljós að sænska krónan stóðst ekki ástandið þrátt fyrir þessar efnahagsaðgerðir og varð að fella hana eins og reyndar varð raunin með íslensku krónuna.
    Þar kom, virðulegi forseti, að aðilum vinnumarkaðarins var nóg boðið og þeir hófu mikinn þrýsting á ríkisstjórnina til að komið yrði í veg fyrir mikla gjaldþrotahrinu sem öllum sýndist blasa við í kjölfar hins mikla samdráttar og aflabrests. En niðurstaðan varð sú að rás örlaganna tók völdin. Gengislækkanir fóru af stað úti í Evrópu og má segja að ríkisstjórnin hafi brugðist við þeim, hvort sem það var nauðsyn eða ekki. Það er umdeilt mál hvort þeir hafi verið heldur fljótir á sér, en alla vega varð niðurstaðan sú að ríkisstjórnin tók loks af skarið eftir margra vikna setu með hendur í skauti, enda má segja að þeim hafi ekki litist að öllu leyti á þær tillögur sem ASÍ og VSÍ boðuðu eftir þeirra löngu og ströngu viðræður.
    Hinn 25. nóv. sl. litu tillögur ríkisstjórnarinnar dagsins ljós, en það frv. sem hér er til umræðu er sá skattaormur sem skreið út úr þeirri tillögugerð. En svo langt er nú ríkisstjórnin komin frá stefnu sinni og upphaflegum tilgangi og markmiðum að hún hefur framkvæmt gengisfellingu, er komin í sjóðasukkið, sem hún fordæmdi svo harðlega, m.a. í stefnuræðu forsrh. sl. haust og er komin á það stig að framkvæma hér hverja skattahækkunina á fætur annarri.
    Virðulegi forseti. Við skulum þá víkja að frv. sjálfu sem, eins og ég nefndi, er í 58 greinum. Hér kennir margra grasa. Til að byrja með er hér að finna tillögur um að heimildir til þess að draga arð frá skatti eru þrengdar úr 15% í 10%. Sama gildir um frádrátt vegna fjárfestinga í atvinnulífi hvort sem þar er um að ræða einstaklinga eða fyrirtæki. Þetta rifjar upp fyrir mér að í fyrra voru þessar heimildir líka þrengdar og það var mjög harðlega gagnrýnt af vinnuveitendum hvernig þá var staðið að verki. Þeir töldu að þetta mundi hafa mjög slæm áhrif á hlutafjármarkað og möguleika fyrirtækja til að afla sér aukins fjár. Væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hvað gerðist í kjölfar þrengingarinnar í fyrra og hvort ríkisstjórnin hefur eitthvað kynnt sér hvaða áhrif breytingin þá hafði. Allavega er svo komið að hún er aftur að beita sömu aðferð og við hljótum að spyrja hvort þetta sé viturlegt miðað við þær aðstæður sem ríkja í atvinnulífinu. En þetta munum við að sjálfsögðu kanna rækilega í efh.- og viðskn. eins og önnur þau mál sem hér eru til umræðu.
    Næst í þessu frv. er að finna hin stóru og alvarlegu atriði sem eru annars vegar hækkun á tekjuskatti um 1,5% á einstaklinga og hjón og hins vegar skerðing barnabóta. Báðar þessar tillögur, hækkun á tekjuskatti og skerðing barnabóta, munu fyrst og fremst bitna á almennu launafólki. Hér er um það að ræða að skerða hlut meðaltekjufólksins, fólksins sem á börn og fólksins sem er að koma sér upp húsnæði því að hér bætist við einn liður í viðbót sem er skerðing á vaxtabótum í húsnæðiskerfinu.
    Eins og ég nefndi áðan voru barnabætur skertar og tekjutengdar í fyrra. Þá var um það að ræða að ná sömu upphæð, 500 millj. kr. Nú á að ná öðrum 500 millj. kr. sem þýðir að á tveimur árum er búið að skera barnabæturnar niður um heilan milljarð. Við hljótum að spyrja okkur: Hver er tilgangur barnabóta? Hvers vegna er verið að greiða fólki barnabætur? Svarið er auðvitað að þetta er framlag samfélagsins, bæði til þess að styðja við bakið á barnafólki og líka hugsaðar sem jöfnunaraðgerð til þess að hjálpa þeim sem verr standa að vígi til að koma sínum börnum til manns, en það má líka hugsa barnabæturnar sem hvetjandi aðgerð til þess hreinlega að fólk leggi í að eignast börn. Eins og hefur komið fram í umræðunni í dag er dýrt að ala upp börn. Það er dýrt að afla meiri tekna til þess að geta alið upp börn. Barnagæsla er dýr hér á landi og skortur á henni. Barnafatnaður er dýr og matur er dýr. Það er hreinlega dýrt og erfitt að eiga stóra fjölskyldu enda hefur barneignum fækkað hlutfallslega. Þetta er reyndar þróun sem átt hefur sér stað út um hinn vestræna heim og reyndar gerist það æ algengara að fólk kýs að eiga ekki börn. Ég var t.d. nýlega að heyra að það er að verða algengt fyrirbæri í því mikla ríki Kína að ungt fólk vill ekki eignast börn til þess að geta notið lífsins á annan hátt. Ég held að það hljóti að vera markmið allra samfélaga að það sé eðlilegt að fólk eignist börn og að samfélagið taki á sig þá ábyrgð sem fylgir því að ala upp ungviðið og að sjá til þess að það búi við góð uppeldisskilyrði. Þess vegna hlýtur maður að spyrja:

Hvað býr á bak við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að skerða barnabætur aftur og aftur? Þá rifja ég það enn upp sem kom fram í umræðunni í fyrra að þegar matarskatturinn var settur á voru barnabæturnar styrktar á móti. Við reiknum það út að barnabæturnar, sem komust á um sama leyti og matarskatturinn, samsvöruðu í fyrra 500 millj. Það var sem sagt tekið til baka í fyrra sem átti að vera uppbótin á móti hækkandi matarverði. Nú eru teknar aðrar 500 millj. og ég spyr: Hver er fjölskyldustefna ríkisstjórnarinnar? Hver er fjölskydustefnan? Telur ríkisstjórnin að það sé verjanleg aðgerð að skerða barnabæturnar með þessum hætti ár eftir ár?
    Ef við lítum á þær tölur sem hér er verið að miða við og hvenær barnabótaaukinn fer að skerðast, þá er það miðað við hlægilega lág laun. Barnabótaaukinn hjá einstæðu foreldri fer að skerðast við mánaðarlaun sem eru 57.916 kr. samkvæmt þessum tölum. Hjá hjónum fer barnabótaaukinn að skerðast við 86.916 kr. Telur ríkisvaldið virkilega að ekki sé ástæða til þess að styðja foreldra sem hafa svona lág laun og þurfa að ala önn fyrir börnum sínum? Það er því ekki að ástæðulausu að ég spyr: Hver er eiginlega fjölskyldustefna þessarar ríkisstjórnar?
    Við munum væntanlega biðja um ýmsa útreikninga varðandi barnbæturnar í efh.- og viðskn. en þegar allt er saman lagt: hækkun á tekjuskatti, skerðing barnabóta og svo vaxtabæturnar, þá er þetta auðvitað alvarleg tekjuskerðing sem venjulegar fjölskyldur með börn á sínu framfæri verða fyrir. Og ég hlýt að mótmæla öllum þessum breytingum og ekki síst því síðasttalda, vaxtabótunum. Þegar verið var að koma húsbréfakerfinu á á sínum tíma voru lögin um vaxtabæturnar einmitt sett í leiðinni til að mæta aukinni greiðslubyrði fólks og létta undir með meðaltekjufólkinu og þeim sem eru í lægri kantinum. Það var ein af forsendunum fyrir stuðningi Kvennalistans við húsbréfakerfið á sínum tíma að vaxtabætur fengju að vera í friði vegna þess að auðvitað er ekki hægt að vera að breyta húsnæðiskerfinu á 2--3 ára fresti og hringla með öll þessi kerfi aftur og aftur þannig að fólk veit aldrei að hverju það gengur. Núna er fólk að lenda í því ár eftir ár að verið er að skerða þær tekjur sem það hefur og á að standa skil á sínum skuldum með og það bætist reyndar ofan á almennan samdrátt í þjóðfélaginu, minni yfirvinnu og hækkandi verðlag sem kemur í kjölfar gengisfellingarinnar. Við munum væntanlega fara mun betur ofan í þessi mál síðar.
    Þá kemur röðin að lækkun á tekjuskatti fyrirtækja. Hér speglast sænska leiðin, kostnaðarleiðin. Hér er verið að létta á fyrirtækjunum með því að lækka þeirra tekjuskatt. Hér er líka verið að undirbúa aðganginn að Evrópsku efnahagssvæði, ef af verður, því að það hefur víða verið reynt að lækka skatta á fyrirtækjum úti í Evrópu til að bæta samkeppnisstöðu þeirra. Reyndar er ekki hægt annað en að taka undir þessa stefnu. Íslensk fyrirtæki verða auðvitað að vera samkeppnishæf hvort sem þau eru innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins þó að skattlagning hér sé fremur lág miðað við það sem gerist í ýmsum öðrum löndum. En hér er þó ein sú leið sem hægt er að fara til þess að bæta stöðu fyrirtækjanna.
    Í frv. er að finna margar greinar sem snerta breytingar á skattrannsóknum og skatteftirliti. Við fyrstu sýn sé ég ekki annað en þetta sé gott mál. Þetta tengist þeirri kröfu að tekið verði harðar á skattsvikum og að skatteftirlit, þ.e. að eltast við þá sem grunaðir eru um að svíkja undan skatti, verði verulega eflt. Hér er verið að taka á því og ég fagna því og vona að þær breytingar sem hér er verið að leggja til verði til bóta.
    Ég ætla að sleppa nokkrum atriðum sem snerta fjárfestingar í atvinnurekstri og kanna það betur þegar að því kemur í nefndinni. Þá er komið að hátekjuskattinum sem hefur verið kallaður svo. Í rauninni er þetta enginn hátekjuskattur. Þetta eru orðnar þokkalegar tekjur sem hér er miðað við en þetta er auðvitað ekki hæstu tekjur. Þegar við vorum að ræða hátekjuskattþrep á sínum tíma vorum við að tala um tekjur frá 250 þús. kr á mánuði eða eitthvað slíkt. Hér er miðað við 200 þús. fyrir einstakling og 400 þús. fyrir hjón. ( Fjmrh.: ASÍ sagði 160 þúsund.) Já, það var hlægileg tala, fáránleg tala. Ég get ekki sagt annað og furðulegt hvað menn kalla háar tekjur. Það sýnir feluleikinn í launakerfinu hér þegar menn eru að gefa það í skyn að 160 þús. kr. séu hátekjur. Þessi skattur á að skila á þessu ári 300 millj. kr. og 100 millj. á árinu 1994 vegna þess að hann verður áætlaður á árinu 1993, en síðan fer uppgjörið fram á árinu 1994 og á samtals að skila 400 millj. Það verður að koma í ljós hvort þessi áætlun stenst, en það verður að segjast að þetta er harla lítið sem næst út úr þessum 5% skatti. Maður spyr sig hvort ekki hafi verið óhætt að fara hærra í prósentunni.
    Hér verður að gera lagabreytingu á skattalögunum vegna aðstöðugjaldsins og innheimtunnar fyrir hönd sveitarfélaganna. Ég hef lýst því áður að ég er því fylgjandi að fella niður aðstöðugjaldið þó að vissulega þurfi að skoða hvernig það kemur við hin ýmsu sveitarfélög sem getur verið afar mismunandi eftir því hvar er á landinu.
    Það er vert að velta aðeins fyrir sér breytingu sem lögð er til í 23.--25. gr. varðandi húsnæðissparnaðarreikninga. Í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem á að breyta á þessu þingi, stendur til að leggja niður skyldusparnaðinn. Hér á sem sagt að skerða frádráttinn vegna húsnæðissparnaðarreininga og við getum velt því fyrir okkur hvað liggur hér að baki. Er það rétt stefna í raun og veru að draga úr húsnæðissparnaði? Auðvitað má benda á það á móti að til er önnur leið sem er sú að safna húsbréfum. Sennilega er það öllu hyggilegri leið ef fólk vill búa sig undir lífið og safna peningum til þess að kaupa síðar húsnæði fyrir eða leggja upp í húsnæðiskostnað, en þetta er eitt af því sem þarf að skoða og spyrja sig hvernig kemur við þá sem hingað til hafa notað þetta sparnaðarform. Það er greinilegt að alls staðar er verið að leita að einhverjum holum til þess að skera niður.

    Ég get ekki stillt mig um að nefna hér aðeins skattinn á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem er að finna í þessum langa ormi. Ég ætla ekki að rekja þá raunasögu. Við komum væntanlega betur inn á það við 2. umr. Sannleikurinn er sá að þetta er óskaplega hallærislegur skattur, ég get tekið undir það með fjmrh., og synd og skömm að hann skuli lenda í því aftur og aftur að þurfa að halda þessum skatti við. Hann á að skila 440 millj. á næsta ári. Það er skiljanlegt við þær kringumstæður sem nú eru í þjóðfélaginu að menn treysti sér ekki til að fella þennan skatt niður og er þó skömminni skárra að innheimta hann en vera að herja alltaf á barnafólk í þjóðfélaginu.
    Þá víkur sögunni að virðisaukaskattinum sem er stórt og mikið mál. Það kemur fram í greinargerðinni með frv. að við Íslendingar skerum okkur úr ef horft er á Evrópulöndin varðandi virðisaukaskattinn því að víðast hvar í Evrópu eru tvö virðisaukaskattþrep. Þá er ég ekki að fallast á þá kenningu sem kemur fram í frv. að í rauninni séu hér tvö skattþrep þar sem ýmsar atvinnugreinar og ýmis starfsemi sé undanþegin virðisaukaskatti og þess vegna sé hér núll þrep. Víðast hvar eru tvö virk skattþrep og það sem vekur ekki síst athygli þegar maður skoðar þessa skattlagningu úti í Evrópu er auðvitað að matvæli eru nánast alls staðar nema í Danmörku og Noregi í lægra skattþrepinu. Samkvæmt tillögum Evrópubandalagsins er meiningin að í Evrópubandalaginu verði virðisaukaskattur samræmdur og verði almennt 15% en lægra skattþrepið, þar sem matvælin eiga að vera, verði 5%. Það er verið að tala um 5 og 15% skattþrep. Það verður fróðlegt að sjá hvernig ríkisvaldið ætlar sér í framtíðinni að koma skattlagningu hér í eitthvert samræmi við það sem gerist úti í Evrópu ef við verðum aðilar að Evrópsku efnahagssvæði, ef það verður yfirleitt að raunveruleika.
    Þetta dregur athyglina að því hvað þessi skattlagning hér er mikil, hvað skattþrepið er hátt og í rauninni miklu hærra en nokkurn tíma stóð til og að það skuli enn þá vera þannig hér að matvæli séu svo hátt skattlögð sem raun ber vitni. Við kvennalistakonur höfum rætt þá hugmynd að rétt sé að fella einfaldlega niður matarskattinn, í það minnsta færa hann niður í lægra skattþrep. Slík lækkun mundi örva matvælaframleiðslu, bæta stöðu ferðaþjónustunnar og það er aldrei að vita nema tekjutap ríkisins, sem óneitanlega yrði af, kæmi út á núlli eða væri hægt að bæta á annan hátt með annars konar tekjuöflun. Þar get ég að sjálfsögðu minnt á lúxusskatta sem víða er að finna í ríkjum Evrópu.
    Varðandi virðisaukaskattinn vil ég geta um einn gleðilegan þátt í frv., þó að í litlu sé, sem fór reyndar fram hjá mér en einn þingmaður benti mér á. Í 48. gr. er að finna heimild til fjmrh. þar sem hann getur með reglugerð veitt undanþágu frá skattskyldu vegna innflutnings á prentuðu máli, enda sé innflutningur ekki í viðskiptaskyni. Þetta er ekki stórt mál en gleður okkur sem erum stundum að panta okkur bækur frá útlöndum og þykja þær verða óheyrilega dýrar. En þetta er auðvitað smámál miðað við það sem verið er að gera með þessum breytingum á virðisaukaskattskerfinu. Ég get ekki látið hjá líða að minnast sérstaklega á skattinn á bækur sem er mikið áhyggjuefni. Það er kannski hlutur sem kemur ekki svo mjög við kjör heimilanna eins og margt annað sem hér er verið að boða en hér er um okkar menningararf að ræða, tómstundaánægju fjölda fólks, tungumál þjóðarinnar og stóran hluta af okkar menningu sem ég vil meina að verði gert miklu erfiðara fyrir með þessum skatti. Ég vil leyfa mér að mótmæla því harðlega að skattur verði settur á bækur. Ég tel mun mikilvægara að efla bóklestur, styðja og styrkja okkar tungumál. Ég tel að ríkinu hreinlega beri að undanskilja bækur.
    Það sama má kannski segja um blöð og aðra fjölmiðla sem auðvitað taka því mjög þunglega að fá á sig virðisaukaskatt. En ég verð að segja það sem mína skoðun að mér finnst bækur vera mjög sérstakar í þessu efni og þær vegi í rauninni þyngra. Þær eru svo mikilvægar. Lestur er svo mikilvægur í viðhaldi tungumálsins og ekkert þroskar málskynið eins vel og lestur og þess vegna er þetta mjög alvarlegt mál sem hér er til umræðu. Ég efast ekki um að það á eftir að rigna yfir okkur mótmælum. Við höfum þegar fengið mörg mótmælabréf vegna fyrri hugmynda ríkisstjórnarinnar en þau eiga eflaust eftir að berast mörg út af þessu máli.
    Það sama gildir auðvitað um húshitun, ferðaþjónustu og fólksflutninga. Þarna er verið að breyta stöðu þessara greina. Húshitunin þýðir aukinn kostnað fyrir fjölskyldurnar í landinu og sama gildir um fólksflutninga. Auðvitað er almennt hægt að taka undir þá stefnu að fækka undanþágum og að einfalda kerfið en á móti verður að koma að virðisaukaskatturinn verði lækkaður. Þetta er allt of hár skattur og getur orðið ferðaþjónustunni mjög þungur í skauti því að staða hennar er ekki of sterk. En ég bendi aftur á það sem ég sagði áðan að með því að lækka matarskattinn mætti bæta verulega stöðu ferðaþjónustu í landinu auk þess að bæta stöðu heimilanna.
    Virðulegi forseti. Eins og ég hef rakið eru þessar tillögur mjög margvíslegar og bæði til góðs og ills. Auðvitað vega þær tillögur langþyngst sem hér er verið að leggja á heimilin í landinu. Þessar breytingar ganga út á það að létta sköttum af fyrirtækjum en auka skattheimtu heimilanna með hækkun tekjuskatts, skerðingu barnabóta og skerðingu vaxtabóta. Ég endurtek það enn og aftur að þessar breytingar bitna harðast á barnafólki með meðaltekjur sem er að koma sér upp húsnæði. Þar er hópurinn sem enn einu sinni er verið að ráðast á. Ég hélt fyrst að sjómennirnir sem urðu fyrir margháttuðum árásum í fyrra slyppu í ár en nú sé ég að þeir fá á sig hátekjuskattinn, alla vega þeir sem lenda fyrir ofan þá viðmiðun.
    Eins og ég hef rakið á örugglega eftir að hitna mjög í kolunum út af þessum tillögum sem hér er að finna. Ég tel að hér sé um rangar áherslur að ræða hjá ríkisstjórninni. Hún sækir stöðugt í vasa launafólks. Hæstv. fjmrh. benti á að fram undan væru ýmsar hættur og nefndi þar ríkisábyrgðir, sem eru mjög

miklar, og ekki síður aukningu samneyslunnar sem enn væri fram undan þrátt fyrir mikinn samdrátt. Þar benti hann fyrst og fremst á heilbrigðiskerfið.
    Ríkisstjórnin er alltaf að beita röngum aðgerðum að mínum dómi. Ef menn vilja draga úr samneyslunni og halda kostnaði niðri, þá eiga menn auðvitað að horfa til lengri tíma og beina sjónum að fyrirbyggjandi aðgerðum. Ég minni enn einu sinni á það sem ég hef nefnt áður og vil taka einn þátt í heilbrigðiskerfinu sem eru umferðarslysin. Þau kosta heilbrigðiskerfið 10 milljarða á ári. Þarna er fé að finna ef fyrirbyggjandi aðgerðum er beitt og þær þurfa ekki að kosta mikið. Það þarf að hækka þann aldur sem nú er í gildi varðandi bílpróf, draga úr hámarkshraða og auka fræðslu. Þarna er peninga að finna og þetta eru leiðir sem eru miklu árangursríkari og huggulegri á allan hátt en þessi niðurskurðarstefna sem ríkisstjórnin er altekin af.
    Að lokum, virðulegi forseti. Ég sæti í þeirri nefnd sem mun skoða þetta frv. og það er alveg ljóst að það þarf að kalla mjög marga til til að skoða áhrif þeirra breytinga sem hér er verið að leggja til. En það er líka alveg ljóst að hér er ekki verið að leggja á breiðu bökin, þá sem geta borgað, heldur er það millihópurinn, meðaltekjufólkið, sem fær að borga brúsann. Ég get tekið undir það með síðasta ræðumanni að það er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af kjörum þess fólks. Við getum velt því fyrir okkur hvaða framtíð við erum að búa ungu fólki og börnum hér á landi þegar verið er að þrengja svona aftur og aftur að fjölskyldunum. Menn verða að skoða þessa hluti í samhengi. Skattastefnan tengist að sjálfsögðu öðrum þáttu þjóðlífsins. Það kemur niður á fjölskyldunum og fjölskyldulífinu þegar hert er að fólki á þennan hátt.
    Ásamt öðrum nefndarmönnum stjórnarandstöðunnar í efh.- og viðskn. mun ég vinna að því að reyna að knýja fram breytingar á þessu frv. til þess að koma í veg fyrir þá miklu árás sem hér er verið að gera á almennt launafólk.