Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 18:06:49 (3145)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Svo er mál með vexti að nú leggur hæstv. fjmrh. fram frv. á þskj. 417, frv. til laga um breytingar í skattamálum. Frv. kann sumum að vera nokkuð óvænt því í því eru hlutir sem ekki eru nákvæmlega í samræmi við það sem frambjóðendur Sjálfstfl. lögðu til á sínum tíma þegar þeir voru að biðla til kjósenda og óska eftir stuðningi þeirra fyrir síðustu kosningar. Mig langar í upphafi máls míns að vitna til nokkurra ummæla þingmanna Sjálfstfl. og stefnuskráratriða þess flokks fyrir síðustu kosningar og vitna til blaðafrétta og ummæla einstakra þingmanna Sjálfstfl. Ég tek þetta af handahófi og byrja á því að

vitna til Þjóðviljans þar sem vitnað er til ummæla hv. þm. Pálma Jónssonar og ummæla skattanefndar Sjálfstfl. Svo segir í Þjóðviljanum:
    ,,Lækka þarf tekjuskatt einstaklinga niður í 35%, tekjuskatt fyrirtækja niður í 30--35%, aðstöðugjald verður að hverfa auk þess sem undirbúa þarf lækkun virðisaukaskattshlutfalls niður í 15%. Þetta er inntakið í drögum að landsfundarályktun Sjálfstfl. um skattamál sem kynnt var á opnum fundi skattanefndar flokksins á þriðjudag og greint er frá í Morgunblaðinu í gær. Í sama tölublaði Morgunblaðsins er haft eftir Pálma Jónssyni alþingismanni að ekkert svigrúm sé til skattalækkana á komandi árum. Þá kveðst hann ekki sjá hvenær svigrúm skapist til skattalækkana. Þessi yfirlýsing Pálma og jafnframt yfirlýsing hans í Dægurmálaútvarpinu á rás tvö á þriðjudag þar sem hann og Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra kappræddu um ríkisfjármálin hefur farið mjög fyrir brjóstið á Þorsteini Pálssyni, formanni Sjálfstfl., og fleiri flokksbræðrum hans.``
    Þannig er mál með vexti að sá söngur var uppi hafður hjá sjálfstæðismönnum fyrir síðustu kosningar að þeir ætluðu að lækka skattana og gáfu fyrirheit um ýmsar breytingar á skattalögum. En þannig var að sá skynsamasti þeirra og hreinskilnasti jafnframt, hv. 2. þm. Norðurl. v., Pálmi Jónsson, lét það ekki henda sig að bera sér þetta í munn. Hann fékk heldur betur bágt fyrir.
    Ég vitna þá til Morgunblaðsins. Þar segir hæstv. menntmrh., þáv. þingflokksformaður Sjálfstfl., Ólafur G. Einarsson: ,,Stefna Sjálfstfl. er að lækka skatta.``
    Annar spámaður tók undir með honum. Það var hv. 4. þm. Reykv., Eyjólfur Konráð Jónsson. Hann sagði: ,,Ekki hefur annað verið samþykkt en að skattar lækki strax.``
    ,,,,Stefna Sjálfstfl. er að lækka skatta og hygg ég að það komi skýrt fram í ályktunum landsfundarins,`` segir Ólafur G. Einarsson, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, þegar borin voru undir hann þau ummæli Pálma Jónssonar alþingismanns í Morgunblaðinu í gær að ekkert svigrúm væri til skattalækkana á komandi árum vegna linnulauss hallareksturs sem núv. ríkisstjórn bæri ábyrgð á. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði: ,,Mér vitanlega hefur engin af stofnunum flokksins samþykkt aðra stefnu en þá að skattar verði strax lækkaðir þegar Sjálfstfl. nær valdi til að knýja það fram.````
    Alþfl. jarmaði líka í þessum kór og í ályktun sem samþykkt var á fulltrúaráðsfundi Alþfl. fyrir kosningar segir það eitt: ,,Meginhlutverk Alþfl. verði að auka jöfnunarhlutverk tekjuskattskerfisins með lækkun skattfrelsismarka og markvissri beitingu persónuafsláttar, barnabóta og húsaleigubóta.``
    Verslunarráðið tók í sama streng. Þar voru menn sem hafa komið nálægt kjötkötlunum, t.d. Steingrímur Ari Arason, sem er nú einn af aðstoðarráðherrunum, Geir H. Haarde, þingmaður og núv. þingflokksformaður Sjálfstfl. Þar voru kynnt sjónarmið skattanefndar Verslunarráðs um að lækka virðisaukaskattinn úr 24,5% í 15%. Hv. 4. þm. Reykv. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði í Morgunblaðinu:
    ,,Skattbyrði heimilanna er nú með þeim hætti að ekki verður við unað. Svo mikil er skattbyrðin orðin að alþýðufjölskyldan hefur vart fyrir brýnustu nauðsynjum. Það er skylda Sjálfstfl. að beita sér fyrir því að skattlagningu verði hagað þannig að afkoma lágtekjufólks batni þegar í stað svo um muni.`` Síðan segir hann: ,,Þessa tillögu fluttu nokkrir tugir ungra manna á landsfundi Sjálfstfl. Fundarmenn fögnuðu henni og hún var einróma samþykkt.``
    Þetta var gert fyrir síðustu kosningar. Ég er að rekja hvað einstakir þingmenn Sjálfstfl. sögðu um skattamál fyrir kosningar þegar þeir voru að undirbúa innreið sína í Stjórnarráðið.
    Ingi Björn Albertsson, hv. 5. þm. Reykv., lét ekki sitt eftir liggja og var aldrei þessu vant algerlega sammála öðrum frambjóðendum Sjálfstfl.: Hann sagði á framboðsfundi í Múlakaffi:
    ,,Munum lækka virðisaukaskatt og tekjuskatt eða hækka skattleysismörk. Sjálfstfl. mun ekki hækka skatta, komist hann til valda eftir kosningar, og vill koma til móts við láglaunafólk með því að lækka virðisaukaskatt, lækka tekjuskatt eða hækka skattleysismörk.``
    Morgunblaðið hefur eftir Inga Birni Albertssyni: ,,Við lofum ekki gulli og grænum skógum en við lofum því þó og við það munum við standa að skattar munu ekki hækka. Við viljum koma til móts við lágtekjufólkið og þá sem minna mega sín. Hvernig ætlum við að gera það? Við getum m.a. gert það með því að lækka virðisaukaskattsstigið, lækka tekjuskattsstigið eða hækka skattleysismörkin. Þetta eru þrír möguleikar sem á að skoða og einhverjar af þessum leiðum, blandaðar eða óblandaðar, förum við.``     Miðvikudaginn 10. apríl 1991 hafði 1. þm. Vesturl., Sturla Böðvarsson, orðið í DV. Þá sagði hann, með leyfi forseta: ,,Það sem greinir Sjálfstfl. frá vinstri flokkunum er ekki síst afstaðan til skattlagningar ríkisins. Stefna Sjálfstfl. er að sköttum skuli haldið í lágmarki og að ríkisútgjöldum skuli haldið innan þeirra marka sem velferðarkerfið krefst.`` Fyrirsögn greinarinnar er: ,,Skatta þarf að lækka.``
    Nú ætla ég að fara að vitna í meiri spámennina, frú forseti, og fyrsta í varaformann Sjálfstfl. sem nú situr í starfi fjármálaráðherra. Hæstv. fjmrh. Friðrk Sophusson sagði í Morgunblaðinu föstudaginn 12. apríl:
    ,,Ríkisstjórnin hefur á undanförnum árum lækkað skattleysismörk tekjuskatta og hækkað skatthlutfallið. Hefðu skattleysismörkin hækkað frá árinu 1988 með sama hætti og verðlag, eins og lög gerðu ráð fyrir, væru skattleysismörkin nú 65.800 en ekki 57.400 eins og þau eru nú í reynd. Samkvæmt upplýsingum ráðherranna gefur þessi breyting ríkissjóði 4,5 milljarða á þessu ári. En ríkisstjórnin lét sér ekki nægja að lækka skattleysismörkin. Hún hækkaði jafnframt skatthlutfallið úr 35,2% í 39,9% og aflaði ríkissjóði þannig verulegra tekna til viðbótar. Ég er ekki hissa á því þó að hæstv. fjmrh. sé óánægður með

að ég skuli fletta ofan á þessu en ég tel að það eigi erindi inn í umræðuna út á hvað þessir herrar voru kosnir.
    Þorsteinn Pálsson, hæstv. núv. sjútvrh., fór til Vestmannaeyja. Þar boðaði hann fjármagnstekjuskatt í staðinn fyrir eignarskatt:
    ,,,,Við sjálfstæðismenn eigum að opna umræðu fyrir fjármagnstekjuskatt í staðinn fyrir eignarskatt,`` sagði Þorsteinn Pálsson, 1. þm. Suðurl., á opnum fundi í Vestmannaeyjum í gærkvöldi sem hann og Davíð Oddsson, formaður Sjálfstfl., héldu með á fjórða hundrað manns í samkomuhúsinu. Davíð Oddsson kvaðst aðspurður taka undir þessi orð Þorsteins. ,,Tvísköttun eigna og eignatekna kemur ekki til greina,`` sagði Davíð.``
    Þarna hafa þeir verið úti í Vestmannaeyjum saman, hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh., og á þeim degi hafa Heródes og Pílatus sýnilega verið vinir. (Gripið fram í.) Ég hef mikla trú á því að það sé skynsamlegt að menn séu ekki að troða illsakir í útlöndum en ég hygg samt að tímarit berist frá meginlandinu til Vestmannaeyja og Vestmanneyingar séu búnir að gera sér grein fyrir því hvernig samkomulagið er á þeim bæ.
    Davíð Oddsson formaður Sjálfstfl. sagði 17. apríl 1991: ,,Varðandi okkar kosningabaráttu segjum við nákvæmlega þetta: Við getum lækkað skattana en samt sem áður geta tekjur ríkisins vaxið alveg eins og gerst hefur hjá Reykjavíkurborg.`` Þetta sagði hæstv. núv. forsrh., þáv. og ennverandi um sinn formaður Sjálfstfl., Davíð Oddsson.
    Þetta voru kosningaloforðin. Þetta var það sem hv. þm. Sjálfstfl. sögðu fyrir kosningarnar. Ákveðinn hluti þjóðarinnar, ég vil segja of stór hluti þjóðarinnar, tók pínulítið mark á þessum mönnum þá. Því miður hafa þeir ekki staðið nákvæmlega við loforðin sín og væntanlega fer þjóðin að átta sig á hvers lags loforð þetta voru. Þeir voru að hafa kjósendur í landinu að ginningarfíflum því nú er komið fram á þskj. 417 frv. til laga um breytingar í skattamálum. Ætli þar sé ekki að finna, hæstv. fjmrh., efndir á þessum loforðum? Sennilega er það. Við skulum fara yfir nokkur atriði, frú forseti. Ég held að þetta hafi verið nauðsynlegur formáli að því sem ég ætla að segja hér á eftir.
    Það er rétt að fara aðeins yfir það hverjar eru efndirnar. Þá voru þetta vaskir menn í kosningabaráttu. Þá voru þetta menn sem höfðu verið í stjórnarandstöðu og ætluðu aldeilis að yfirtaka stjórn landsins. Nú er þeirra ríkið og búið að vera í rúmlega hálft annað ár sem er að vísu allt of langur tími. Þeirra er ríkið í dag þó að þeirra sé hvorki mátturinn né dýrðin.
    Það er skemmst frá að segja að öll þessi loforð eru svikin og það stendur ekki steinn yfir steini í því sem þeir sögðu fyrir kosningar. Þeir byrjuðu strax að svíkja, um leið og þeir komust í stólana. Fyrst kölluðu þeir skattahækkanirnar þjónustugjöld og þumbuðust við það í nokkra mánuði að kalla skattahækkanir sínar þjónustugjöld sem voru auðvitað ekkert annað en skattahækknir. En nú eru þeir grímulausir. Nú koma þeir grímulausir fram með beinar skattahækkanir. Þeir ætluðu að lækka skatthlutfallið í 30--35%. Í frv. sem hér er til umræðu leggja þeir til að fara með það upp í 41,35%. Það eru nú efndirnar á því loforði. Hvar koma svo þessar skattahækkanir niður? Fyrst og fremst hjá þeim sem minna mega sín. Breiðu bökunum er hlíft.
    Nú er ég ekki að segja að í frv. séu allar hugmyndir alvondar. Það er ekki rétt. Það eru skynsamlegar hugmyndir til í frv. ef maður leitar nógu lengi að þeim enda eru þetta miklir ágætismenn og vilja vel þó að þeim mistakist eiginlega allt sem þeir gera. Aðstöðugjaldið er fellt niður og það er gott. Ég held að það hafi verið skynsamlegt og sé skynsamlegt að létta aðstöðugjaldinu af því að það er ranglátur skattur. Það þarf að vísu að bæta sveitarfélögunum það upp, þá tekjuskerðingu sem þau verða fyrir við það að svipta þau aðstöðugjaldinu. Það er rétt að líta á hvernig þeim hefur tekist það. Það er hugmyndin að greiða sveitarfélögunum úr ríkissjóði 80% af álögðum aðstöðugjöldum eða sem svarar 80% af álögðum aðstöðugjöldum á síðasta ári. Þetta bætir einu sveitarfélagi aðstöðugjaldsniðurfellinguna en sennilega bara einu, ég hef ekki athugað það nákvæmlega. Í Reykjavík býr eitthvað í kringum 40% þjóðarinnar. Þar fellur til a.m.k. 60% af aðstöðugjaldinu en innheimta er þar lakari en í öðrum sveitarfélögum. Þar hafa því ekki innheimst nema í kringum 80% eða einhvers staðar þar í kring og Reykjavík stendur jafnrétt eftir. En það er ekki svo með önnur sveitarfélög. ( Gripið fram í: Á Reykjavík ekki hreppsnefndarfulltrúa á þingi?) Það kann að vera að einhverjir úr hreppsnefndinni í Reykjavík sitji í ríkisstjórninni, það er eins og mig minni það.
    Sums staðar á landinu og reyndar allvíða hefur aðstöðugjaldið innheimst hér um bil upp í topp. Á Sauðárkróki, þar sem ég þekki dálítið til, innheimtist aðstöðugjald á undanförnum árum í kringum 96% ef ég man rétt. Þar eru skilvísir menn, hv. 1. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson. Það bæjarfélag verður nú fyrir tekjuskerðingu sem nemur a.m.k. 16% af aðstöðugjaldsstofninum við þessar aðfarir. Nú vil ég, vegna þess að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er í þeirri áhrifamiklu valdastöðu í þinginu að vera formaður efh.- og viðskn. sem fær þetta frv. til skoðunar, heita á hann að bæta úr fyrir heimabyggð sinni Sauðárkróki, kannski ekki heimabyggð, það er of stórt upp í sig tekið, það er fæðingarhreppurinn. Ég ætla ekki að koma hv. þm. til Sauðárkróks. Ég legg það ekki á okkur. En ég legg til að hv. þm. beiti sér fyrir því að Sauðárkróki verði bætt þetta tekjutap við meðferð á frv.
    Hæstv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson lagði til í Vestmannaeyjum þar sem hann var á ferð með vini sínum í kosningabaráttu að tekinn yrði upp fjármagnstekjuskattur. Hæstv. fjmrh., sem ég sé ekki hvert er farinn núna, hét því, ef ég man rétt, fyrir afgreiðslu síðustu fjárlaga að taka upp fjármagnstekjuskatt um

næstu áramót. Í plönum ríkisstjórnarinnar er ákveðið að hætta við að taka upp fjármagnstekjuskatt á næsta ári. Þeir setja markið fram í tímann. Nú eru þeir að tala um að taka hann upp í ársbyrjun 1994. Spá mín er sú að þeir heykist á því líka. Þessu hefur verið frestað. Þetta eru ekki menn sem vantar peninga. Þessa menn vantar ekki peninga í ríkissjóð.
    Þeir hafa verið að gefa fyrirheit um hátekjuskatt. Hverjar eru efndirnar á því? Þessi hátekjuskattshugmynd sem hér er sett fram er bara kák og gefur ríkissjóði sáralítið í aðra hönd enda hefði það ekki hentað ríkisstjórninni að skattleggja eigin kjósendur en margir af þeim sem hátekjuskattinn kæmu til með að bera hafa kosið Sjálfstfl. fram undir þetta. Þeir eru að vísu grautfúlir yfir því hvað Sjálfstfl. er ómögulegur við landsstjórnina og hefur lítið vald á efnahagsmálum. Þrátt fyrir það hafa þeir fram að þessu stutt Sjálfstfl. bæði með atkvæðum sínum og sumir með fjárframlögum. Það er ekki verið að ganga nærri þessum mönnum.
    Það er ákveðið að lækka tekjuskatt félaga. Það var reyndar fyrirheit úr kosningabaráttu þeirra. Nú á að lækka tekjuskatt félaga úr 45% fyrst í 38% 1993 og svo í 33% 1994. Eftir á að hyggja held ég að þetta verði að teljast röng aðferð. Ekki það að við förum að sinna atvinnulífinu í landinu og búa því sæmileg skilyrði. En ég vil meina að félög sem skila tekjum geti borið tekjuskatt og þar af leiðandi sé þetta misráðið skref í þeirri stöðu sem ríkissjóður er. Illa stöddu félögin sem berjast í bökkum þurfa væntanlega ekki að greiða tekjuskatt. Einungis þriðjungur af félögunum greiðir tekjuskatt nú og á þessum þriðjungi sem best stendur á að lækka tekjuskattshlutfallið úr 45% niður í 38% á þessu ári.
    Hæstv. fjmrh. á líklega Íslandsmet, a.m.k. alþingismet í að tala um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Hann hefur gert hann að umræðuefni árlega, ég held síðan hann kom á þing. Ætli þingaldur hæstv. fjmrh. sé ekki eitthvað svipaður og aldur skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Ég man aldrei eftir því að hæstv. fjmrh. hafi getað setið á sér að tala um þennan skatt þegar hann hefur verið hér til meðferðar á hverju einasta ári. Það vill svo til að hæstv. fjmrh. á tvær ræður um þennan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Önnur er ákaflega mikið á móti þessum skatti og hana hefur hann flutt oftar því sem betur fer er hæstv. fjmrh. oftar í stjórnarandstöðu en stjórnarmegin. Það er líka farsælast fyrir alla. Nú er hann með nýrri ræðuna sem styður skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Af því að hv. 11. þm. Reykv., Finnur Ingólfsson, vitnaði ofurlítið til ræðuhalda hans á þinginu, reyndar bara í eitt einasta sinn, ef ég tók rétt eftir, þá ætla ég ekki að fara að skaprauna hæstv. fjmrh. á þessum dimmu dögum með því að lesa mikið af ræðum hans. Ég vitna til þeirra í Alþingistíðindunum. Þó getur vel verið að síðar í umræðunum gefist mér tækifæri til að taka aftur til máls og þá skal ég verja svolítilli stund í að fara yfir ræður hans í líklega einum 12 árgöngum af Alþingistíðindunum þar sem hann hefur flutt ræður um þennan skatt. Hann er búinn að marglofa að afnema hann en efndirnar eru náttúrlega eins og við er að búast.
    Nú vil ég láta það koma fram, prívat og persónulega --- því að ég hef líka talað mikið um þennan skatt og líklega átta sinnum mælt fyrir frv. um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði fyrir hönd meiri hluta fjh.- og viðskn. --- að ég tel þetta ekkert fráleitan skattstofn. Hann verður að vísu til þess að hækka vöruverð í landinu en honum var og er ætlað að reisa ofurlitlar skorður við þeirri gífurlegu offjárfestingu sem er í verslunar- og skrifstofuhúsnæði á Íslandi. Offjárfesting í verslunar- og skrifstofuhúsnæði er þjóðarmein. Menn eru að tala um offjárfestingu í loðdýrabúskap, fiskeldi og sjávarútvegi. Það er smáræði hjá offjárfestingu í verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Í Reykjavík standa þúsundir rúmmetra af verslunar- og skrifstofuhúsnæði, nýbyggðum glæsilegum húsum, auðar vegna þess að allt of mikið hefur verið byggt af verslunar- og skrifstofuhúsnæði miðað við þá starfsemi sem hér fer fram.
    Nú fer ég í bensínið. Ég man ekki eftir að þeir tækju það fram í kosningabaráttunni að þeir ætluðu að lækka bensínið þannig að þeir gátu ekki svikið það loforð. Þó kann að vera að það hafi gúlpast upp úr einhverjum. Þeir sögðu svo margt. En ég man ekki eftir því og hef ekki handbær gögn um að þeir hafi lofað því að lækka bensín. En nú hækka þeir bensín samkvæmt þessu frv. um hálfa aðra krónu sem á að renna í ríkissjóð.
    Þeir lofuðu að lækka virðisaukaskattinn og lofuðu því meira að segja þegar fjárlagafrv. kom fram að lækka virðisaukaskattinn um 1%, ef ég man rétt. Nú er horfið frá því ráði. Hann er óbreyttur. Óbreyttur, sagði ég. Nei, þeir taka heldur betur við sér. Þeir fækka undanþágum virðisaukaskatts og nú hafa þeir fundið upp nýtt skattþrep. Ég man eftir því þegar hæstv. utanrrh. var fjmrh. og vann að því að koma virðisaukaskattinum á, þá taldi hann það algera fásinnu og alveg útilokað að hafa virðisaukaskattinn í tveim þrepum. Í mikilli glímu um matarskatt sem fór fram hér fyrir nokkrum árum síðan, hæstv. utanrrh. var þá fjmrh., man ég ekki betur en hann hafi talið það algera goðgá að hugsa sér það að hægt væri að taka upp annað þrep í virðisaukaskatti. Það gekk svo langt þegar hæstv. sjútvrh. var forsrh. og ríkisstjórn hans var að syngja sitt síðasta og hæstv. þáv. forsrh., Þorsteinn Pálsson, lagði til að taka upp tvö þrep í virðisaukaskattinum, þá taldi þáv. hæstv. fjmrh., Jón Baldvin Hannibalsson, það vera rýtingsstungu í bakið á sér.
    Nú á að taka burtu undanþágur virðisaukaskatts af bókum, blöðum, tímaritum, húshitun og afnotagjöldum útvarps og sjónvarps. Greinar sem hingað til hafa legið utan virðisaukaskattskerfisins, svo sem hótel- og gistihúsarekstur og fóksflutningar, eiga að fara í 14% virðisaukaskatt. Vinna iðnaðarmanna við íbúðarhúsnæði verður áfram skattskyld en endurgreiðslur verða miðaðar við 60% af skattgreiðslum. Sumt af þessu þarf kannski ekki að koma manni á óvart þegar allt kemur til alls, þ.e. prentskatturinn. Þessi ríkisstjórn er fjandsamleg allri menntun og menningu í landinu og þá er ekkert óeðlilegt þó þeir reyni að

lumbra á henni og leggi á prentskatt og bókaskatt. Þeir skattleggja fjölmiðlana, útvarp og sjónvarp, blöðin og þeir ráðast á ferðaþjónustuna sem hefur verið einn vaxtarbroddurinn í annars bágbornu atvinnulífi landsmanna. Ferðaþjónustan skal fara að bera virðisaukaskatt.
    Hér er um að ræða stórfelldar tilfærslur á skattbyrði. Það er verið að létta á fyrirtækjunum og færa til einstaklingana. Hvar koma svo byrðarnar niður? Þær koma t.d. niður á skuldugu fólki, vaxtabætur eru lækkaðar. Þær koma niður á námsmönnum og barnafólki. Það er áfram andskotast á einstæðum mæðrum. Allir flokkar barnabóta eru lækkaðir um 30%. Einkenni þessara skattbreytinga eru þau að byrðarnar eru fluttar af félögum yfir á lakar settu einstaklingana í þjóðfélaginu. Það er líka létt byrðum, og ég undirstrika það sérstaklega, frú forseti, af ríku og tekjuháu félögunum. Hátekjumönnunum og fjármagnseigendunum er hlíft. Það eru tekjurnar af vinnunni sem eru skattlagðar. Tekjurnar af innstæðunum eiga að halda áfram að vera skattlausar. Og gróðafélögin eiga að fá að græða meira. Lífskjör best settu einstaklinganna í þjóðfélaginu batna við þessar breytingar, lífskjör fólks með miðlungstekjur versna til muna og lífskjör lakast settu einstaklinganna versna til stórra muna. Við þeim mörgum hverjum blasir neyð samkvæmt þessari stefnumörkun ríkisstjórnarinnar.
    Ríkisstjórnin vinnur markvisst og einbeitt að því að gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari. Ég hugsa að kolkrabbanum líki þessar skattbreytingar. Væntanlega er hann tilbúinn til að þakka ríkisstjórn Davíðs Oddssonar fyrir þægilegheitin.
    Ég hef lokið máli mínu, frú forseti.