Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 18:59:14 (3147)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Það er ekki að ástæðulausu að umræður verða nokkuð hvassar um þetta frv. Það felur í sér alla meginþætti í stefnu þessarar ríkisstjórnar og þær aðgerðir sem beinast fyrst að launafólki þvert ofan í fyrri fyrirheit þeirra flokka sem að ríkisstjórninni standa og yfirlýsingar sem þeir gáfu jafnvel svo seint sem á síðasta ári við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár. Afstaða þingflokks Alþb. til einstakra afmarkaðra tillagna hefur þegar komið fram af hálfu talsmanns Alþb. í efh.- og viðskn. Ég vil því afmarka mig við fáein atriði sem ég tel rétt að víkja örlítið að undir lok þessarar umræðu.
    Ég vil byrja á að víkja að því sem mér þykir jákvætt í þessu frv. Það eru tillögur um hert skatteftirlit og breytingar á skipan skattrannsóknarmála. Ég hef að vísu ekki skoðað tillögugreinarnar út í hörgul þannig að ég hef fyrirvara á um stuðning við þær að því leyti en lýsi stuðningi við meginmarkmiðið sem mér sýnist ég sjá og er útskýrt í grg. með frv. með stofnun embættis skattrannsóknarstjóra.
    Ég vil líka minna á fréttatilkynningu sem hæstv. fjmrh. gaf út 19. nóv. sl. um skattsvik og skatteftirlit því hér er um að ræða mál sem er afar þýðingarmikið að stjónvöld taki á með myndarlegum hætti. Sérstaklega verður krafan um raunhæfar aðgerðir í þessum málum hávær þegar hnífnum er harkalega beitt gagnvart launafólki og láglaunafólki ekki síður en öðrum. Láglaunafólki er ekki hlíft. Það verður fyrir skerðingu þó hún sé hlutfallslega minni en í efri tekjustigum. Í þessari fréttatilkynningu kemur fram að ráðuneytið hafi skipað nefnd sem eigi að leggja mat á umfang skattsvika og fara yfir niðurstöður skýrslu sem lögð var fyrir Alþingi um það efni 19. apríl 1986. Enn fremur á nefndin að gera athugun á breytingum sem hafa orðið á skattalögum og skattaframkvæmd frá þeim tíma með tilliti til skattsvika, leggja mat á þær breytingar og koma fram með ábendingar um hvaða ákvæði skattalaga gefa helst færi á skattsvikum og hvaða lagabreytingar teljast nauðsynlegar til úrbóta.
    Ég vil nota þetta tækifæri til að fagna því að þessi nefnd hafi verið sett á koppinn. Það kemur fram að henni er ætlað að ljúka störfum fyrir næstu áramót. Ég vil hvetja hv. þm., sérstaklega þá sem fá frv. til meðferðar í efh.- og viðskn., til að taka myndarlega á móti tillögum af þessu tagi. Ég vildi stinga upp á því til að sýna meiri alvöru af hálfu stjórnvalda og Alþingis í þeim málaflokki að taka á skattsvikum og herða skatteftirlit að þingflokkarnir kæmu sér saman um nefnd manna til að fylgja tillögum þessarar nefndar eftir. Ég tel að ef þingflokkarnir ná saman um að taka myndarlega á í þessum málaflokki og myndist, má segja, þjóðarsamstaða um það, a.m.k. samstaða um það hér á þingi, þá værum við búnir að gefa málinu verulegan skrið strax í upphafi.
    Þetta vildi ég nefna sem inngangspunkt, virðulegi forseti, og jafnframt draga það fram sem ég tel jákvætt í frv. Því miður verð ég að segja að frá öðrum þáttum í frv. er þannig gengið að þó ég viðurkenni auðvitað að allar ríkisstjórnir hefðu gripið til aðgerða sem hefðu komið niður á einhverjum þá er ekki sá jöfnunarþáttur, það jöfnunareliment, í heildarmyndinni af þessum aðgerðum að ég geti stutt það. ( ÖS: Þú hefur ekki lesið plaggið hans Ólafs Ragnars.) Það hef ég lesið, hv. þm., og í því er margt brúklegt og ég hygg að menn gætu notað úr því ýmsar tillögur til að betrumbæta skattastefnu núv. ríkisstjórnar.
    Á einn þátt vil ég minnast alveg sérstaklega og ítreka andstöðu mína við. Það er hækkun á húshitunarkostnaði. Það kom fram í framsöguræðu hæstv. fjmrh. að í raun og veru eru ákvæði tillögugreinarinnar um hvernig eigi að reikna út meðalhitunarkostnað rafveitna og hitaveitna á landinu óframkvæmanleg. Menn eru að fikra sig niður á aðra viðmiðun og enda þannig að viðmiðunin verður verðið í Reykjavík og minnka hækkunina, sem verður á dýrari veitum, þannig að virðisaukaskatturinn á dýrari veitunum verði ekki hærri en hann verður í Reykjavík eða hámark 13 aurar á kílóvattstund. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert að menn gangi ekki þá braut til enda að hækka misjafnt og dragi úr því með því að krónutöluhækkunin hefur hámark. En það breytir því ekki að menn eru að hækka húshitunarkostnað og hækka hann jafnmikið þar sem hann er hæstur og í Reykjavík þar sem hann er tiltölulega lágur. Í öðru lagi eru menn að hækka þennan húshitunarkostnað minna þar sem hann er lægri. Það kemur m.a. fram í Alþýðublaðinu í dag þar sem þær upplýsingar eru veittar að hækkunin sé ekki nema sjö aurar á kílóvattstund þar sem hitaveitan er lægst.
    Þetta vildi ég benda á og vil mótmæla þessu. Ég er þeirrar skoðunar að ekki eigi að hækka húshitun á svæðum sem búa við hátt verð í þeim efnum.

    Ég vil minna hæstv. ríkisstjórn till. til þál. um lækkun húshitunarkostnaðar sem lögð var fram rétt fyrir kosningar í fyrravor af þáv. og núv. iðnrh. og var afrakstur af starfi nefndar sem m.a. hæstv. núv. fjmrh. átti sæti í. Í þeirri þáltill. er lagt til að jafna húshitunarkostnað á landinu og lækka hann þar sem hann er hæstur þannig að hann verði hvergi hærri en 5.000 kr. á mánuði miðað við verðlag í janúar 1991, hvergi hærri miðað við það verðlag og að sjálfsögðu miðað við tiltekna stærð af íbúð. Menn eru að ganga til öfugrar áttar miðað við eigin tillögur.
    Ég vildi svo að lokum, virðulegi forseti, draga saman þau áhrif sem mér sýnist í fljótu bragði, miðað við þær upplýsingar sem við höfum fengið, verða af þeim breytingum sem boðaðar eru í þessu skattafrv. Þær eru: 1,5% hækkun tekjuskatts árin 1993 og 1994 hækkar skatta um 2.850 millj. hvort ár. Hátekjuþrep um 5% þessi tvö ár á að skila 300 millj. hvort ár. Sú tala er á vísu á reiki miðað við upplýsingar frá fjmrh. og gæti verið hærri. Í þriðja lagi er bensíngjaldshækkun upp á 1,5 kr. á lítra sem er skattahækkun upp á 350 millj. kr. hvort ár. Í fjórða lagi er hækkun á reiknuðu endurgjaldi eða reiknuðum launum auk herts skatteftirlits sem á að skila 300 millj. hvort ár. Í fimmta lagi er lagður 14% virðisaukaskattur á liði sem ekki hafa borið virðisaukaskatt og gefur sú hækkun um 1.800 millj. á næsta ári borið saman við lögin eins og þau eru fyrir þetta ár. Fyrir árið 1994 er hækkunin áætluð 1.350 millj. Þessi tala kann að hafa raskast í kjölfar breytinga sem hafa orðið á hugmyndum um tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti af húshitun.
    Barnabætur, svo ég telji sjötta lið, eiga að skila 500 millj. hvort ár. Vaxtabætur eiga að skila 400 millj. árið 1994. Niðurskurður ríkisútgjalda á að vera 1.240 millj. 1993 og 580 millj. 1994 og ég gef mér það sem forsendu að þessi niðurskurður lendi allur á skattgreiðendum sem er auðvitað forsenda sem ég veit ekki til hlítar hvort er rétt en miðað við það sem hefur verið upplýst af þessum fyrirhuguðu ráðstöfunum þá bendir því miður flest til þess að a.m.k. stærstur hlutinn af þessari upphæð lendi á skattgreiðendum í einu eða öðru formi. Þetta var 8. liður.
    9. liðurinn er lækkun tryggingagjalds sem lækkar álögur á ferðaþjónustu og lækkar tekjur ríkissjóðs um 50 millj. á næsta ári og um 200 millj. árið 1994.
    10. liðurinn er dreginn saman, þ.e. breytingar á arðgreiðslu. Breytingar á skattaívilnun vegna fjárfestingar í atvinnurekstri og lækkun á tekjuskatti lögaðila. Áhrifin af þessum þremur atriðum samanlagt eru samkvæmt frv. metin á 100--200 millj. kr. til tekjuauka fyrir ríkissjóð hvort ár.
    Að lokum er hér einn liður enn sem er húsnæðissparnaðarreikningar sem á að leggja niður en þeir sem hafa lagt inn á þá reikninga hafa notið skattaívilnunar og hafa fengið endurgreiddan skatt að ákveðnu marki en þessi breyting mun auðvitað lækka þau útgjöld ríkissjóðs árið 1993--1994 en hve mikið það verður eru engar upplýsingar um þannig að ég hef ekki sett neinar tölur niður í því sambandi.
    Ef ég legg þessar tölur fyrir árið 1993 saman, virðulegi forseti, þá fæ ég út að skattahækkunin er á bilinu 7.400--7.500 millj. kr. frá árinu 1992 og á árinu 1994 er hún á bilinu 6,4--6,6 milljarðar kr. Þetta leggur sig samanlagt á að vera 14 milljarða kr. skattahækkun á tveimur árum. Og ég verð að segja, virðulegi forseti, að það eru svimandi háar tölur og miklu hærri tölur en komið hafa frá hæstv. fjmrh. um hugsanleg áhrif af fjármálaráðstöfunum ríkisstjórnarinnar.
    Þetta vildi ég draga saman svona í lokin, virðulegi forseti, um leið og ég bendi á að nánast öll þessi upphæð, þessi 14 milljarða kr. skattahækkun á tveimur næstu árum, lendir á einstaklingum. Og ég vil skora á hv. efh.- og viðskn. sem fær þetta mál til athugunar að fara rækilega ofan í þetta frv. með hliðsjón af þeim upplýsingum sem ég hef hér dregið saman.