Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 19:55:26 (3164)


     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir undirtektir við hugmynd minni um átak í skattsvikum og vil hvetja þingflokka til að taka sameiginlega á þessu verkefni í samvinnu við hæstv. fjmrh. strax eftir áramót.
    Varðandi frv. er ég þeirrar skoðunar að það stuðli ekki að því að beina fjárfestingu manna í atvinnurekstur með þeim breytingum sem þar eru gerðar. Ég er andsnúinn þessum breytingum og tel þær ganga til rangrar áttar. Ég tel að fyrst niðurstaðan er sú að velja einungis 5% hátekjuþrep og 1,5% almenna hækkun hefði verið jafnari dreifing á skatthækkuninni að taka eina flata prósentu og hækka persónuafsláttinn.
    Í þriðja lagi er það ekki markmið ríkisstjórnarinnar og þessara aðgerða að minnka atvinnuleysi heldur er hæstv. ríkisstjórn búin að gefast upp á því og segir nú í markmiðssetningu að þær séu til að hamla gegn auknu atvinnuleysi. Í fjórða lagi bendi ég enn á það, virðulegi forseti, að aðgerðirnar þýða 14 milljarða kr. skattahækkun sem rennur til ríkis og sveitarfélaga.