Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 19:59:34 (3168)


     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst mótmæla því sem hæstv. fjmrh. var að segja áðan, þ.e. að aðalmarkmiðið með þessum skattabreytingum sé að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Frv. er allt of fátæklegt til að koma í veg fyrir atvinnuleysi þannig að það geti orðið trúverðugt.
    Eins vil ég átelja það hvernig að því er staðið að breyta aðstöðugjaldinu í tekjuskatt eins og nú er gert. Það er auðvitað bara verið að færa þetta beint yfir á launafólk og undirbúið mjög illa, þ.e. það er sett fram um leið og gengið er fellt sem mun auðvitað verða til þess að það mun ekki koma fram í lækkuðu vöruverði. Fyrst og fremst mun þetta auðvitað koma fram í versluninni. Hún mun losna við aðstöðugjaldið.