Afgreiðsla fjárlagafrumvarps

74. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 13:52:00 (3182)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Sú staða er að koma upp í þinginu að það er greinilegt að stjórn þingsins og ríkisstjórnarflokkarnir verða að gera upp við sig hvað á að hafa forgang í þingstörfum. Svo vill til að það er löngu búið að boða fundi í hv. efh.- og viðskn. kl. 6 í dag. Nú er verið að boða þingfund milli kl. 6 og 7 og væntanlega kvöldfund í framhaldi af því. Þetta vekur náttúrlega upp spurningar um það hvort okkur þingmönnum er ætlað að gera hér margt í einu.
    Hér á dagskrá í dag eru allnokkur mál sem snerta efh.- og viðskn., sem ég reikna með að menn vilji gjarnan að komist að jafnframt því að hér er á dagskrá mál sem t.d. sú sem hér stendur hafði hugsað sér að taka þátt í umræðum um. Menn verða því að gera upp við sig hvað á að gera. Þær yfirlýsingar sem hafa komið fram hafa ekki verið samþykktar af þingflokksformönnum og eru ekki í neinni samvinnu við okkur. Ég held að menn verði að átta sig á því að ef hér eiga að verða eðlileg þingstörf og eðlilegur gangur mála er kannski viturlegra að reyna að hafa um það eitthvert samráð.