Afgreiðsla fjárlagafrumvarps

74. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 13:53:20 (3183)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég sætti mig ekki við það svar sem forseti gaf áðan um það að fundatími Alþingis væri milli 6 og 7 á miðvikudögum. Við þingflokksformenn höfum að vísu oft sýnt liðlegheit þegar mikið hefur verið af verkefnum sem legið hafa fyrir að gefa eftir af þingflokksfundatímanum. Svo er ekki í þessu tilfelli og ekki hefur verið haft samráð við okkur og ég mótmæli því fundahaldi jafnframt að hér verði farið að hafa einhvern kvöldfund í kvöld. Það er fyrirsjáanlegur kvöldfundur annað kvöld ef ríkisstjórnin heldur fast við að hafa 2. umr. fjárlaga á morgun. Með tilliti til þess mótmæli ég líka kvöldfundi í kvöld. Kannski er hægt að fallast á að hafa hér örstuttan útbýtingarfund ef þannig stendur á prentun þingskjala en að öðru leyti er ég ósamþykkur þessu ráðslagi.