Afgreiðsla fjárlagafrumvarps

74. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 13:55:45 (3186)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér hefur farið fram umræða um gæslu þingskapa sem er að því leyti sérstæð að hún hefur snúist um nefndarstörf í fjárln. Nú er það svo að samkvæmt verkaskiptingu og þrískiptingu valdsins ber fjmrh. að tala fyrir fjárlagafrv. og leggja það fram. Nefndinni, sem fær málið til afgreiðslu, ber að vinna málið algjörlega óstuddri af ríkisstjórn. Ef það er rétt að hv. formaður nefndarinnar hafi fyrst og fremst verið í þeirri vinnu að reyna að fá upplýsingar hjá ríkisstjórninni um hvað á að gera þá er það náttúrlega gjörsamlega út í hött ( Gripið fram í: Og vonlaust.) og vonlaust. Ég sé ekki að það þyrfti nefndarstörf í þinginu ef niðurstaðan er sú að ríkisstjórnin eigi að leggja fram fjárlagafrv. og svo eigi að endurskoða fjárlagafrv. í fjmrn. á milli umræðna. Það er þingið sem er að vinna þetta mál og það er Alþingi Íslendinga sem stendur frammi fyrir þeim vanda, ef mönnum dettur það í hug að leggja það til að hér verði samþykkt fjárlagafrv. með 8 milljarða kr. halla. Þá er það ekki fjmrh. eða ríkisstjórnarinnar. Það er Alþingis Íslendinga að taka á því máli. Það ber alla ábyrgð á því máli ef slík ákvörðun verður tekin.