Afgreiðsla fjárlagafrumvarps

74. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 13:57:52 (3187)


     Geir H. Haarde :
    Forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í umræður um störf fjárln. Ég þykist vita að menn leysi þar mál sín með eðlilegum hætti. En aðeins út af því sem fram hefur komið hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. og hv. 5. þm. Vestf. um fundahald hér í dag þá er rétt að vekja athygli á því, eins og forseti hefur rækilega gert, að af hálfu forsætisnefndar var í haust tilkynnt að gera mætti ráð fyrir þingfundum á milli 6 og 7 á miðvikudögum ef þörf krefði. Þetta hefur gengið ágætlega á þessu hausti, enginn ágreiningur hefur verið um þetta. Jafnframt var tilkynnt að gera mætti ráð fyrir þingfundum á þriðjudagskvöldum ef aðstæður yrðu þannig að þess væri þörf. Í gær samdist svo um að málinu, sem var til meðferðar, var lokið í matartímanum á milli kl. 7 og 8 án þess að kæmi til kvöldfundar. Um það náðist gott samkomulag milli manna laust fyrir kl. 7 og þess vegna varð ekki kvöldfundur. En ég held að það blasi við og það þekkja allir, ekki síst menn með jafnmikla þingreynslu og hv. 1. þm. Norðurl. v., að á þessum árstíma geta menn reiknað með kvöldfundum hvenær sem er. Ég held að það eigi ekki að fara neitt milli mála. Af minni hálfu kom það fram í gær þegar við vorum að ganga frá þessum málum að við gætum þá haft kvöldið í kvöld upp á að hlaupa fyrst ekki yrði þingfundur í gærkvöldi. Þetta vildi ég að kæmi fram, virðulegi forseti. Hitt er

annað mál að enginn veit á þessari stundu hvort þörf verður fyrir slíkan kvöldfund. Auðvitað getur farið svo eins og gerðist í gær að engin sérstök þörf verði á kvöldfundi ef umræðu lýkur fyrir kvöldmat --- ég geri ráð fyrir að aðalmálið í dag verði mál heilbrrh. um almannatryggingar o.fl. En á þetta reynir ekki fyrr en líða tekur á daginn og þá vænti ég þess að menn tali saman og reyni að leysa þetta mál með þokkalegu samkomulagi.