Afgreiðsla fjárlagafrumvarps

74. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 14:00:12 (3188)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Aðeins fyrst út af ummælum hv. 2. þm. Vestf., þá fjallar umræðan hér að sjálfsögðu um þingstörfin. Ég hóf umræðuna til að fá upplýsingar um hvað það væri sem enn væri í farvatninu sem hv. fjárln. þyrfti að taka afstöðu til og taka til afgreiðslu fyrir 2. umr. sem á að fara fram á morgun. Þess vegna hljóta það auðvitað að vera þingstörf, bæði það sem fer fram hér í þessum sal, hvenær það fer fram og það sem gerist í þingnefndunum til þess að umræðan geti borist inn í þingsalinn. Ég hef því miður ekki fengið það enn þá skýrt í þessum umræðum hvort von er á því að fjárln. berist tillögur frá hæstv. ríkisstjórn um frekari aðgerðir. Það er nú einu sinni svo að þingnefndir hljóta að taka nokkurt tillit til þess hvaða hugmyndir, óskir eða stefnu hæstv. ríkisstjórn ber fram til nefndanna. Við vissum ekki annað en að von væri á veigamiklum brtt. í tengslum við svokallaðar aðgerðir í ríkisfjármálum. Ég vakti athygli á því að eftir meira en hálfan mánuð er aðeins komin til nefndarinnar tillaga um breytingar upp á 250 millj. kr. Umræða mín hér var til að fá það skýrara frá stjórn þingsins ef það væri hægt hvort hún teldi mögulegt að umræðan færi fram á morgun miðað við þær aðstæður sem mér sýnist blasa við okkur.
    Vissulega er rétt hjá hv. formanni fjárln. að nefndin hefur verið að vinna alla þessa daga, hún vann alla helgina og dagana síðan og er ekki búin að ljúka störfum. Það er enn fyrirhugaður fundur í dag og þess vegna er auðvitað að verða dálítið þröngt fyrir að ganga frá brtt. og nál. og leggja þau fyrir þingið sem á að gerast daginn áður, ef það yrði nú t.d. ekki fyrr en á útbýtingarfundi í kvöld og umræðan ætti síðan að hefjast í fyrramálið. Mér sýnist því tíminn vera orðinn mjög naumur. Þess vegna tel ég að fyrirspurn mín til hæstv. forseta og stjórnarinnar á þingstörfunum sé alveg eðlileg og umræðan alveg eðlileg og að við þurfum að fá niðurstöðu í þetta mál áður en lengra er haldið.
    Ég er út af fyrir sig ekki að skorast undan því að umræðan fari fram á morgun ef það er svo að ríkisstjórnin hafi hætt við að framfylgja þeim ráðstöfunum sem boðaðar voru hér 23. nóv. sl.
Ef það stendur ekkert eftir af því nema þessar 250 millj. þá vitum við það. Þá er það tilkynning, ákvörðun og afstaða. Hins vegar var hluti af störfum fjárln. um helgina að hlýða á hæstv. heilbrrh. gefa yfirlýsingar eða upplýsingar um það hvernig hann ætlaði að spara 650 millj. kr. Þegar tillögur koma svo frá ráðuneyti hans til nefndarinnar í gær þá eru þær upp á 250 millj. kr. Það hlýtur því að vera eitthvað óljóst í því hvert stefnir í þessari vinnu og hvað fjárln. á fram undan fyrir 3. umr. ef það er svo að 2. umr. fari fram þrátt fyrir allt á morgun.