Afgreiðsla fjárlagafrumvarps

74. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 14:05:03 (3192)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég bar áðan fram fyrirspurn til hæstv. utanrrh. vegna þess að hann er sá eini af oddvitum ríkisstjórnarflokkanna sem er mættur í þingsalnum. Oddvitar ríkisstjórnarflokkanna eru tveir, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Ég sé að formaður þingflokks Sjálfstfl. bendir á hæstv. fjmrh. Það er vissulega líka athyglisvert að hæstv. fjmrh. hefur ekki beðið um orðið í þessari umræðu og ég mun aðeins koma að því eftir fáeinar sekúndur.
    Ég bar fram þá fyrirspurn hvort hæstv. utanrrh. gæti fyrir hönd ríkisstjórnarinnar fullvissað þingið um það hér og nú að fjárlagafrv. mundi liggja þannig fyrir við 2. umr. á morgun að hallinn yrði minni í frv. en þegar frv. var lagt fram. ( Gripið fram í: Þingsköp . . .  ) Fyrirspurn mín var borin fram vegna þess að forsrh. og utanrrh. tilkynntu efnahagsaðgerðir fyrir rúmum tveimur vikum sem fólu það í sér samkvæmt þeirra frásögn að búið væri að styrkja fjárlagafrv. með því að minnka hallann. Ég þarf ekki að rifja það upp að hæstv. utanrrh. hélt sérstaka almenna fundi í þjóðfélaginu eftir að fjárlagafrv. var lagt fram þar sem hann dæmdi það allt of veikt og að það þyrfti að styrkja það og niðurstaða efnahagsaðgerðanna að hans

dómi væri það að hallinn hefði verið minnkaður. Nú er fullyrt í þremur fjölmiðlum í dag að það stefni í 8 milljarða kr. halla á fjárlagafrv.
    Ef 2. umr. um fjárlagafrv. á að verða marktæk á morgun, og ég legg áherslu á það, marktæk 2. umr., þá verður auðvitað að liggja fyrir hvort staða frv. nú er halli sem er minni en þegar frv. var lagt fram í samræmi við yfirlýsingar forsrh. og utanrrh. eða ekki. Nú ef það er ekki þá er auðvitað alveg ljóst að ríkisstjórnin hefur gefist upp á tæpum þremur vikum varðandi eitt höfuðatriðið í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Í öðru lagi að fyrir liggi hvort það er rétt eða ekki að hallinn stefni í 8 milljarða. Í hvað stefnir hallinn? Það er auðvitað athyglisvert að hér tæpum sólarhring áður en 2. umr. um fjárlögin á að fara fram hafa þrír öflugir fjölmiðlar greint frá því að hallinn stefni í 8 milljarða en enginn af fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna hér í salnum hefur treyst sér til að mótmæla þeirri tölu. Þar til henni verður mótmælt með rökum þá stendur hún. Ef hér á að verða marktæk 2. umr. um fjárlögin á morgun þá þurfum við að fá að vita í dag --- ekki á morgun, hv. þm. Karl Steinar Guðnason, heldur í dag --- hvernig málið liggur fyrir. Ef ríkisstjórnin er hins vegar að gefast upp á sínum ætlunarverkum þá væri nátturlega meiri manndómur að viðurkenna það að hún starfi líka þar í mótsögn við raunveruleikann alveg eins og hún gerði í gengismálunum.