Afgreiðsla fjárlagafrumvarps

74. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 14:08:23 (3193)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Þeim mun lengur sem tíma þingsins er eytt í þarflausa þingskapaumræðu þeim mun brýnni verður nauðsyn þess að halda fram fundum ekki bara á milli kl. 6 og 7 heldur líka á kvöldin.
    Í annan stað vil ég taka mönnum vara við því, hv. þm. sem öðrum, að trúa fyrirvaralaust einhverjum tölum sem birtast eftir nafnlausum heimildarmönnum í blöðum. ( Gripið fram í: Nafnlausum?) Nafnlausum heimildarmönnum, eins og fram kom í umræðunni hér áðan. Ef stjórnmálamenn ættu að trúa öllu því sem ekki er borið til baka jafnóðum af slíkri umræðu þá gætu þeir lítið annað.
    Í þriðja lagi er það rétt sem fram kom í ræðu hv. 8. þm. Reykn. að í vinnu sinni við undirbúning efnahagsaðgerða þá styrkti ríkisstjórnin stöðu fjárlagafrv. verulega bæði á tekju- og gjaldahlið. Ekki hvarflar að mér að leggja trúnað á tölur Dagblaðsins eða annarra fjölmiðla. Ég slæ því föstu að það mun að sjálfsögðu koma á daginn þegar fjárlagafrv. liggur fyrir að þær tölur reynast rangar. Hins vegar er það ekki í mínum verkahring að veita hv. þm. svör við þessum spurningum. Það er í verkahring hæstv. fjmrh. og eftir atvikum formanns fjárln. Eðli málsins samkvæmt þá er það ekki í mínu valdi að svara spurningum hv. þm. frekar.