Afgreiðsla fjárlagafrumvarps

74. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 14:13:37 (3196)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Utanrrh. og formaður Alþfl. sagði í þingskapaumræðum áðan að þingmenn ættu að fara varlega í að treysta ónafngreindum heimildarmönnum í blöðum og tölum sem hafðar væru eftir nafnlausum heimildarmönnum í blöðum. ( Utanrrh.: Nafnlausum, þ.e. ónafngreindum.) Nafnlausum heimildarmönnum í blöðum, við skulum hafa það rétt. Þetta sagði ráðherrann og það má kannski til sanns vegar færa að þingmenn ættu að fara varlega í þeim efnum. En hvað eiga vesælir þingmenn að gera þegar haft er eftir nafngreindum mönnum og mikils metnum að sumra mati eins og hæstv. heilbrrh. er, þegar hafðar eru eftir slíkum mönnum tölur í blöðum og það ekki blöðum sem hafa neitt litlu hlutverki að gegna heldur eiga að vera málgagn Alþfl.? En í makalausri frétt í dag í Alþýðublaðinu segir m.a. frá blaðamannafundi hæstv. heilbr.- og trmrh. í gær þar sem hann kynnti frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar sem hann ætlar væntanlega að tala fyrir hér í dag og þar segir:
    ,,Breytingarnar eiga að spara ríkissjóði útgjöld upp á 2,4--2,5 milljarða kr. á næsta ári. Taka þessar breytingar til ýmissa þátta heilbrigðisþjónustu og almannatrygginga.`` Allir útreikningar sem við þingmenn höfum fengið sýna fram á 250 millj. kr. sparnað af þessu. Þeir hafa því greinilega bætt einu núlli á, ráðherrann og Alþýðublaðið, annaðhvort báðir eða annar hvor þeirra. Og þarna er ekki um nafnlausa menn að ræða. Þarna er um heilbr.- og trmrh. að ræða þannig að meðan þessi tala stendur í frétt í Alþýðublaðinu þá hlýtur maður að álykta sem svo að það sé 8 milljarða kr. halli á fjárlögunum ef ekki meira.