Afgreiðsla fjárlagafrumvarps

74. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 14:18:26 (3198)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ef það mætti verða til þess að stytta þessar umræður utan dagskrár þá hef ég ákveðið að taka til máls. Þegar hefur verið notaður alldrjúgur tími af þessum fundi í þessar þingskapaumræður. Ég vil taka það fram að það er frá mínum bæjardyrum séð ekkert því til fyrirstöðu að hafa 2. umr. fjárlaga á morgun. Þá tala ég sem þingmaður sem hefur nokkra reynslu af störfum í fjárveitinganefnd, ég sat þar í fjögur ár.
    Varðandi það hver sé hallatala frv. nú, síðar eða fyrr, þá hefur sú spurning ekkert gildi í dag. Það vita allir, og þó sérstaklega þeir sem hafa verið fjmrh. eins og hv. 8. þm. Reykn., að tölur geta breyst og breytast oft og tíðum mjög mikið milli 2. og 3. umr. Þær koma til með að gera það vegna þess að það vantar nýjar verðlagsforsendur, tekjur taka mið af veltu í þjóðfélaginu. Þær upplýsingar þarf að vinna betur en fyrir hendi eru og auðvitað geta gjöldin jafnframt breyst. Svona hefur þetta ætíð verið og ég minni á það þegar var verið að semja fjárlög fyrir 1991, þá var það við 3. umr. sem mjög stórar ákvarðanir voru teknar og meira að segja örfáum dögum síðar brotnar. Minni ég á að þá voru settar inn í fjárlög við 3. umr. tekjur vegna arðs af Aðalverktökum, en þáv. fjmrh., 8. þm. Reykv., hirti síðan arðinn á milli jóla og nýárs þannig að hallinn varð minni á því ári en meiri árið eftir. Hann setti líka inn tekjur á vegum ÁTVR og virðisaukaskatts án þess að það væri nokkuð aðhafst í ráðuneytinu til þess að ná þeim tekjum inn. Til þess að koma í veg fyrir svo óvönduð vinnubrögð viljum við að sjálfsögðu vanda okkur og teljum að við eigum að nota þann tíma sem gefst, eins og ávallt hefur verið gert og munum að sjálfsögðu nota þær stundir sem eftir eru og gera það sem ávallt hefur verið gert hingað til, að hafa gott samstarf við fjárln. og koma upplýsingum til hennar ef um upplýsingar er að ræða frá fjmrn. þannig að endanlegur halli í fjárlagafrv. eða í fjárlögum kemur auðvitað við 3. umr. Menn hafa verið að leika sér hér með tölur eins og 8 milljarða. Ég hef ekki séð eða heyrt þá tölu fyrr en mér var sagt að hún hefði birst í DV. Það er ekki tala komin frá mér, ekki tala sem ég hef séð. Það eina sem ég held að við þurfum að átta okkur á er að þetta er ekkert óvenjulegt. Allar upplýsingar liggja fyrir og það er hárrétt sem hv. 2. þm. Vestf. sagði að það eru auðvitað nefndirnar sem taka ákvörðun um það hvort og hvenær 2. umr. og 3. umr. verður í málum eins og þessu.