Afgreiðsla fjárlagafrumvarps

74. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 14:21:46 (3199)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég hefði líklega ekki ákveðið að leggja orð í belg ef mér hefði ekki fundist orð hæstv. utanrrh. hér áðan nokkuð sérkennileg. Hann tók einhvern veginn þannig til orða að því fleiri spurningar sem hér kæmu fram, því fleiri yrðu kvöld- og næturfundirnar á komandi vikum. Ég vil endilega að hæstv. utanrrh. geri sér fulla grein fyrir því að ráðherrarnir í ríkisstjórninni stjórna því ekki hvenær eru haldnir fundir á Alþingi. Það eru forsetar á Alþingi sem ákveða það í samráði við þingflokkana. Í fyrsta lagi er það ekki við hæfi að hóta þingmönnum kvöld- og næturfundum af svo litlu tilefni sem hér var áðan. Í öðru lagi er alrangt að málið sé svona einfalt eins og hann vill vera láta. Ég held að reynsla manna af þingstörfum á undanförnum árum segi það nokkuð eindregið að því minna samstarf sem haft er við stjórnarandstöðuflokka um þingstörfin, því lengri tíma tekur yfirleitt að afgreiða mál, því erfiðara reynist að koma þeim fram.
    Ég vil leyfa mér að fullyrða að stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi hafi verið mjög samvinnufúsir um þinghaldið á þessu hausti og ég trúi því ekki að talsmenn stjórnarflokka ætli að halda öðru fram. En ég vara hæstv. utanrrh. eindregið við því að ætla að taka hér upp einhverja allt aðra siði með hótunum því að ég dreg mjög í efa að það muni auðvelda honum og öðrum ráðherrum að koma málum hér fram.